27. nóv, 2006

Gjaldeyrisforðinn á Íslandi og erlendis 1996-1998

Mynd 16. Myndin sýnir gjaldeyrisforðann í sautján Evrópulöndum í árslok 1996 skv. upplýsingum Alþjóðabankans (nema íslenzka talan er frá árslokum 1998). Þarna eru sem sagt öll Evrópusambandslöndin nema Lúxemborg, fjórtán að tölu, og öll EFTA-löndin nema Liechtenstein, þau eru þrjú. Mælieiningin er endingartími til innflutnings á vörum og þjónustu. Myndin sýnir, að Norðmenn og Svisslendingar telja nauðsynlegt að eiga gilda gjaldeyrissjóði, sem duga fyrir innflutningi í 6-8 mánuði. Hvers vegna? Þetta stafar meðal annars af því, að þessar þjóðir standa utan Evrópusambandsins og eiga því ekki aðgang að sameiginlegum sjóðum Sambandsins, ef gjaldmiðlar þeirra lenda undir þrýstingi. Við Íslendingar ættum sennilega að hafa sama háttinn á og hinar EFTA-þjóðirnar, Norðmenn og Svisslendingar, úr því að okkur er umhugað um að halda gengi krónunnar stöðugu innan tiltekinna vikmarka. Þær þjóðir, sem standa utan Myntbandalags Evrópu (EMU), þótt þær séu í Evrópusambandinu, skiptast í þrjá flokka. Grikkir eiga gildan gjaldeyrissjóð, sem dugir þeim fyrir innflutningi í níu mánuði, á meðan Danir og Svíar láta sér nægja að halda sig nálægt þriggja mánaða viðmiðuninni. Bretar eiga hins vegar (eins og við Íslendingar) gjaldeyrisvarasjóð, sem dugir fyrir innflutningi í aðeins sex vikur. Þetta er samt ekki alvarlegt vandamál í Bretlandi, því að gengi pundsins flýtur, auk þess sem aðild Breta að Evrópusambandinu tryggir þeim greiðan aðgang að sameiginlegum sjóðum Sambandsins, ef í harðbakka slær, þótt ekki jafngildi sá aðgangur aðild að Myntbandalaginu. Enda virðist nú ýmislegt benda til þess, að Bretar ætli sér inn í Myntbandalagið innan tíðar. Seðlabanki Íslands á að vísu samningsbundinn aðgang að fyrirvaralausri og umtalsverðri lánafyrirgreiðslu erlendis frá, ef á þarf að halda, en sá aðgangur jafnast þó að sjálfsögðu ekki á við öryggið, sem myndi fylgja aðild að Myntbandalaginu. Öll hin löndin á myndinni eru bæði í Evrópusambandinu og Myntbandalaginu og bíða þess nú að taka upp evruna í staðinn fyrir eigin gjaldmiðla. Þörf þeirra fyrir erlendan gjaldeyri er því minni en þörf hinna og annars eðlis. Takið þó eftir því, að Portúgalar og Spánverjar eiga gjaldeyrissjóði, sem duga þeim fyrir innflutningi í sex mánuði eða þar um bil. Þeir eru á útjaðri Evrópu, og þeim virðist þykja allur varinn góður. Belgar eru eina þjóðin, sem á minni gjaldeyrisforða í seðlabanka sínum en við Íslendingar og Bretar. Þessu máli eru gerð nánari skil í greininni Gjaldeyrisforðinn. Sjá einnig mynd 4, sem sýnir nýrri upplýsingar um þróun gjaldeyrisforðans hér heima 1980-2004, og mynd 29, sem sýnir erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins sem hlutfall af gjaldeyrisforðanum 1989-2004.