DV
4. apr, 2002

Furðulegt hirðuleysi lántakenda

Greiðslubyrði af erlendum skuldum hefur tvöfaldast á 4 árum:

Furðulegt hirðuleysi lántakenda
segir Þorvaldur Gylfason prófessor

Greiðslubyrði þjóðarinnar vegna erlendra skulda hefur tvöfaldast síðan 1997. Þá nam greiðslubyrðin fjórðungi af útflutningstekjum en nærri helmingi í fyrra samkvæmt nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands. Þorvaldur Gylfason, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, segir í nýrri grein á heimasíðu sinni að upphleðsla erlendra skulda hafi keyrt um þverbak síðustu ár. Þær hafi numið 50% af landsframleiðslu í árslok 1996 en rokið upp í 96% í árslok 2001.

,,Margir lántakendur hér heima virðast hafa sýnt furðulegt hirðuleysi um afkomu sína fram í tímann,” segir Þorvaldur í grein sinni. Hann bendir á að samkvæmt upplýsingum Alþjóðabankans fyrir árið 1999 séu Argentína og Brasilía einu löndin í heiminum sem bera þyngri skuldabyrði en Ísland; Argentína hafi kiknað fyrir skemmstu. Þá bendir Þorvaldur á að samkvæmt nýjum tölum hafi þjóðin í fyrra varið jafnvirði um 3% af landsframleiðslunni til að greiða bönkunum yfirdráttarvexti: ,,Það virðist ekki vera mikil von til þess að bankarnir taki upp hagkvæmara búskaparlag þegar þeir eiga aðgang að svo óhagsýnum og hirðulausum viðskiptavinum.”

,,Uppsveiflan í efnahagslífinu síðan 1996 hefur að miklu leyti verið knúin áfram með erlendu lánsfé sem lántakendur eiga eftir að standa skil á,” segir Þorvaldur. Og nú ætli stjórnvöld að ráðast í risaframkvæmdir – að mestu leyti fyrir erlent lánsfé – til að halda efnahagslífinu gangandi enn um sinn.

Ólafur Teitur Guðnason tók viðtalið.