3. júl, 2005

Frjálsustu þjóðir heims

Mynd 78. Heritage Foundation heitir stofnun og býr til hagfrelsisvísitölur um fjölmörg lönd heimsins. Með þeim er reynt að henda reiður á því, hversu ríkisafskipti skerða frelsi og umsvif einstaklinga og fyrirtækja í efnahagslífinu. Stofnunin skoðar og vegur saman tíu ólíka þætti: erlend viðskipti, skattheimtu, stjórn peningamála, skipulag bankamála, reglur um erlenda fjárfestingu, eignarréttarákvæði, hlut samneyzlu í landsframleiðslu, reglugerðir, umfang svartamarkaðsviðskipta og hömlur á verðmyndun og kaupgreiðslur. Hæsta einkunn, sem land getur fengið, er 1 (þá er allt frjálst, engar hömlur). Lægsta einkunnin er 5, sem vitnar um þrúgandi hömlur á öllum sviðum. Borgríkin tvö í Suðaustur-Asíu, Hong Kong og Singapúr, skipa efstu sæti listans. Þau eru ólík að ýmsu leyti, þessi tvö lönd, en þau eiga einnig margt sameiginlegt, þar á meðal frjálsan markaðsbúskap á flestum sviðum. Nýja-Sjáland er í þriðja sæti, hafandi kastað af sér gömlum viðjum með róttækum umbótum í svo að segja einum rykk 1984. Eistland er í fjórða sæti, frelsinu fegið: Eistar hafa nýtt tímann vel, síðan þeir hrundu veldi kommúnista fyrir röskum áratug, og hljóta sömu hagfrelsiseinkunn og Írar, Hollendingar og Bandaríkjamenn. Það er vel af sér vikið í svo nýfrjálsu landi. Heimild: The Economist.