RÚV
15. okt, 1985

Franco Modigliani

Modigliani hefur komið víða við á löngum og glæsilegum vísindaferli og stundað merkilegar rannsóknir í mörgum greinum hagfræði, bæði þjóðhagfræði, sem fjallar um þjóðarbúskapinn í heild, og rekstrarhagfræði, sem fjallar um einstaklinga og fyrirtæki.

Á rannsóknaferli Modiglianis skarar einkum tvennt fram úr.

Hann var í fyrsta lagi í hópi þeirra, sem áttu mestan þátt í að móta nútímaþjóðhagfræði í kjölfar þeirrar hagfræðibyltingar, sem hófst undir lok heimskreppunnar á 4. áratugnum og kennd er við enska hagfræðinginn Keynes. Modigliani var meðal hinna allra fremstu í flokki þeirra hagfræðinga, sem brutu kenningu Keynes til mergjar, sniðu af henni hnökrana og hösluðu henni völl meðal hagfræðinga, stjórnmálamanna og almennings í Ameríku og Evrópu. Fram á þennan dag er Modigliani einn af tveim eða þrem helztu frumkvöðlum og talsmönnum þeirrar þjóðhagfræði, sem enn er kennd við Keynes, þótt margt hafi breytzt í tímans rás — með sama hætti reyndar og Milton Friedman hefur verið einn helzti brautryðjandi og oddviti þeirra, sem hafa andmælt kenningu Keynes og sumpart boðað afturhvarf til gamalla klassískra hugmynda, Það er meðal annars fyrir þetta merka brautryðjandastarf, sem Modigliani hlýtur þessi verðlaun nú.

Í öðru lagi er nauðsynlegt að nefna framlag Modiglianis til neyzlu- og sparnaðarrannsókna. Forsagan er sú, að hin nýja þjóðhagfræði Keynes, sem ég nefndi áðan, hvíldi á einfaldri tilgátu Keynes um sambandið milli neyzlu og sparnaðar annars vegar og ráðstöfunartekna heimilanna hins vegar.

Tölfræðirannsóknir leiddu síðan smám saman í ljós, að þessi tilgáta Keynes var of einföld og kom ekki almennilega heim og saman við staðreyndir, eins og þeim er lýst í hagtölum. Modigliani greiddi úr þessari flækju með því að setja fram nýja og almennari og nákvæmari kenningu um neyzlu og sparnað og sýndi jafnframt fram á með vandlegum tölfræðiathugunum, að kenning hans skýrir framvindu neyzlu og sparnaðar í hagkerfinu mun betur en kenning Keynes. Þessi kenning Modiglianis hefur verið einn helzti grundvöllur næstum allra nýrra neyzlu- og sparnaðarrannsókna s.l. 20 ár.

Modigliani hefur líka verð ákaflega mikils virtur kennari öll þessi ár, þannig að segja má, að tvær kynslóðir amerískra og evrópskra hagfræðinga standi í mikilli þakkarskuld við hann beint eða óbeint. Sjálfur er ég reyndar í síðari hópnum, því að það voru einmitt nemendur hans, sem kenndu mér hagfræði í Bandaríkjunum á sinni tíð. Ég hef litið upp til hans frá því ég heyrði hans fyrst getið fyrir 15 árum og fagna því, að honum skuli hafa verið veitt þessi viðurkenning nú, og ég fagna því líka, að þessi verðlaun skuli yfirhöfuð vera veitt, því að þau minna fólk — æskufólk ekki sízt — á, að það er hægt að ná góðum árangri og leggja mikið af mörkum í vísindum ekki síður en í listum, íþróttum eða stjórnmálum.