8. júl, 2005

Framleiðni og laun 1984-2000

Mynd 58. Verðbólgu er hægt að greina frá tveim hliðum. Oftast líta menn á eftirspurnarhlið hagkerfisins, því að þar eru gögnin handhægust. Reglan er þessi: ef peningamagn í víðum skilningi vex hraðar en landsframleiðslan yfir langt tímabil, þá hlýtur verðlag yfirleitt að hækka til að jafna metin. Við sjáum þetta á mynd 10: peningamagn í umferð á Íslandi hefur aukizt um 9-17% á hverju ári síðan 1997, sem er auðvitað langt umfram vöxt landsframleiðslunnar, og verðbólgan brúar þá væntanlega bilið. Aukin verðbólga og gengisfall að undanförnu þurfa því ekki að koma á óvart. Það er einnig gagnlegt að skoða framboðshlið hagkerfisins og bera framleiðniþróunina saman við þróun raunverulegs launakostnaðar fyrirtækjanna. Hér er reglan þessi: ef raunverulegur kaupkostnaður fyrirtækja vex hraðar en framleiðni (þ.e. framleiðsla á hvern vinnandi mann eða vinnustund) yfir langt tímabil, þá hljóta fyrirtækin að velta muninum út í verðlagið. Með öðrum orðum: ef framleiðni vex hægar en raunverulegur launakostnaður, þá leitar umfamhækkun kaupkostnaðarins út í verðlagið. Lítum nú á myndina að ofan. Hún sýnir framleiðniþróun á Íslandi og þróun raunlauna síðan 1990 skv. upplýsingum Hagstofunnar, Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar. Myndin sýnir nánar tiltekið framleiðnivöxtinn að frádreginni aukningu raunverulegs kaupkostnaðar, svo að upplýsingarnar rúmast allar í einni og sömu kúrfunni. Takið eftir því, að framleiðnivöxturinn hefur verið minni en vöxtur raunlauna síðan 1990; kúrfan hefur leitað niður á við. Þetta þýðir það, að fyrirtækin hafa tekið á sig meiri launakostnaðarhækkun en nemur afkastaaukningu vinnuaflsins. Og hvernig hafa fyrirtækin brúað bilið? Með því að safna skuldum. En það geta þau ekki gert til langframa, heldur hljóta þau að reyna að jafna metin að einhverju leyti með því að velta umframkostnaðinum út í verðlagið. Þannig sjáum við, að ónóg framleiðniaukning miðað við þróun launakostnaðar, eða of mikil kauphækkun miðað við framleiðniþróun (þetta eru tvær hliðar á sömu mynt), leiðir til sömu niðurstöðu og eftirspurnarsagan, sem við byrjuðum á: það er verðbólga í pípunum. Og svo er eitt enn að endingu, raunar tvennt: Í fyrsta lagi virðist mega ætla, að of lítil framleiðniaukning hangi saman við bágt ástand menntamálanna um landið (lág kennaralaun, lítil samkeppni o.s.frv.), svo að það er ágætt og eðlilegt, að Samtök atvinnulífsins skuli nú láta menntamálin til sín taka, eins og fram hefur komið í fréttum. Í öðru lagi er launakostnaðaraukning umfram framleiðni til marks um það, að kjarasamningar eiga sér yfirleitt ekki stað inni í fyrirtækjunum, heldur á víðari vettvangi með gamla laginu, þar sem víðfeðm verklýðsfélög semja um kaup og kjör umbjóðenda sinna við samtök vinnuveitenda án þess að sjá sér hag í að taka fullt tillit til greiðslugetu einstakra fyrirtækja. Af þessum tveim atriðum má ráða nauðsyn þess að bæta ástand menntamálanna og innleiða markaðshollara vinnulag við gerð kjarasaminga.