8. júl, 2005

Fjöldi erlendra ferðamanna 1998

Mynd 43. Þjónusta er mikilvægasti atvinnuvegur heimsins (mynd 42). Innan þjónustugeirans er ferðaútvegur mestur fyrirferðar, hvort sem miðað er við tekjur af ferðaþjónustu eða fjölda starfa. Myndin sýnir fjölda erlendra ferðamanna árið 1998 í 10 mestu ferðamannalöndum heimsins. Frakkar bera af á þessu sviði eins og jafnan áður: þangað komu 70 milljónir ferðamanna 1998 á móti 60 milljónum aðeins þrem árum áður, 1995. Þýzkaland kemst ekki á blað: þangað komu færri erlendir ferðamenn 1998 en til Austurríkis og Póllands, eða rösklega 16 milljónir til Þýzkalands á móti 17 milljónum til Austurríkis og tæplega 19 milljónum til Póllands. Til samanburðar komu 232.000 erlendir ferðamenn til Íslands 1998. Fjöldi ferðamanna er ekki áreiðanlegur mælikvarði á tekjur af ferðaþjónustu, því að þeir eyða mismiklu. Þótt undarlegt megi virðast, höfðu Frakkland, Spánn og Ítalía jafnmiklar tekjur af erlendum ferðamönnum 1998, eða 30 milljarða Bandaríkjadollara hvert land. Hver ferðamaður á Ítalíu eyðir því að jafnaði tvisvar sinnum meira fé en hver ferðamaður í Frakklandi. Bandaríkin hafa langmestar ferðatekjur, eða rösklega 70 milljarða dollara. Það gerir ríflega 1.500 dollara á hvern ferðamann. Til samanburðar nema ferðatekjur Íslendinga innan við 900 dollurum á hvern ferðamann. Það er svipað og á Ítalíu og tvisvar sinnum meira en í Frakklandi. Heildartekjur Íslendinga af erlendum ferðamönnum 1998 námu tæpum 15 milljörðum króna, eða 2½% af landsframleiðslu. Við þetta má bæta fargjaldatekjum (12 milljörðum króna), því að atvikin haga því svo, að erlendir ferðamenn koma hingað langflestir með íslenzkum samgöngutækjum. Heildartekjur Íslendinga af erlendum ferðamönnum námu því næstum 5% af landsframleiðslu 1998 borið saman við 4% 1995. Þarna er enn meiri vaxtar að vænta.