7. júl, 2005

Fjögur OPEC-lönd: þjóðarframleiðsla á mann 1960-1999

Mynd 65. Myndin sýnir þróun þjóðarframleiðslu á mann í fjórum OPEC-löndum: Katar, Kúveit, Sameinuðu furstadæmunum og Sádi-Arabíu. Hér eru sem sagt fjögur grannlönd við Persaflóa höfð til sýnis. Nú er Sádi-Arabía ekki efst á blaði, eins og á mynd 64, heldur neðst. Hinum löndunum þrem hefur hnignað allar götur síðan 1960, eins og myndin sýnir, en þó ekki jafnt og þétt, heldur með rykkjum og skrykkjum. Skoðum Kúveit, því að það er dæmigert fyrir löndin á myndinni að ofan. Þar hefur fjárfesting verið lítil og trúlega einnig léleg, enda eru umsvif ríkisins í landinu mjög mikil. Þrátt fyrir alla olíuna hafa Kúveitar fjárfest aðeins um 16% af landsframleiðslu sinni að jafnaði síðan 1962, og 14% síðan 1995. Það er minna en þarf til að halda uppi sæmilegum hagvexti. Þeim í Kúveit tókst að vísu að auka framhaldsskólasókn úr 52% af hverjum árgangi æskufólks 1970 í 78% 1982, en eftir það snerist þróunin við, svo að framhaldsskólasókn minnkaði smám saman niður í 62% af hverjum árgangi 1996 á móti 100% eða þar um bil í OECD-löndum. Þá hefur útflutningur á vörum og þjónustu frá Kúveit smám saman dregizt saman miðað við landsframleiðslu. Hlutfall útflutnings af landsframleiðslu var 65% árið 1962, en var komið niður í 47% 1999, og það er minna en það ætti að vera í landi með rétt rösklega 2 milljónir íbúa. Í Kúveit virðist olíuútflutningur því hafa rutt öðrum útflutningi úr vegi, svo að heildarútflutningur hefur minnkað miðað við landsframleiðslu, þveröfugt við það, sem hefur verið að gerast í heimsbúskapnum í heild. Dvínandi útflutningur er eitt helzta einkenni Hollenzku veikinnar. Loks eru umsvif ríkisins mikil í Kúveit og einkarekstur að sama skapi lítill og veikburða. Heimamenn vinna helzt ekki nema hjá ríkinu og láta innflytjendur um einkarekstur. Sem sagt: fjórar mikilvægar stoðir hagvaxtar – fjárfesting, menntun, útflutningur og einkarekstur – hafa allar verið vanræktar í Kúveit og hafa því fúnað smám saman. Það þarf því ekki að koma á óvart, að hagvöxturinn í landinu hefur verið minni en enginn um langt skeið. Hvers vegna hafa stoðirnar veikzt? Olíugnægðinni kann að vera um að kenna: þetta er kunnuglegt munstur víðs vegar að um heiminn. Gnægð náttúruauðlinda hneigist til fylla eigendurna falskri öryggiskennd og freista þeirra með því móti til að vanrækja undirstöður gróandi efnahagslífs, þar á meðal fjárfestingu, menntun, millilandaviðskipti og frjálst framtak. Þarna liggur hundurinn líkast til grafinn. Og takið eftir einu: það eru engin áhöld um eignarréttinn yfir olíulindunum í Arabalöndum. Óskoraður eignarréttur veitir enga tryggingu fyrir skynsamlegri meðferð auðs og ávöxtun. Þessu er lýst nánar í greininni Olía: Eykur hún hagvöxt? Eflir hún frið?.