Háskólinn á Akureyri
19. mar, 2016

ESB og staða smáríkja

Fyrirlestur á ráðstefnunni „Enginn er eyland – staða og framtíð Íslands í samfélagi þjóðanna“ á vegum Háskólans á Akureyri og AkureyrarAkademíunnar í samstarfi við utanríkisráðuneytið, Akureyri, 19. mars 2016. Sjá ritgerð á ensku.

Í þessum lestri er fyrst fjallað um ESB frá þrem sjónarhornum: ESB sem friðarsamband sem hefur tryggt frið í Evrópu frá 1945; ESB sem efnahagsbandalag sem hefur náð drjúgum árangri í efnahags- og mannréttindamálum; og ESB sem sameiningarvettvang þar sem fv. einræðisríkjum í Suður- og Austur-Evrópu hefur verið opnuð endurkomuleið til lýðræðis og efnahagsframfara. Því næst er fjallað um Skotland og Katalóníu sem kunna að óska sjálfstæðis frá Bretlandi og Spáni innan vébanda ESB. Þá er fjallað um ESB sem smáríkjabandalag þar sem miðlungsstærð aðildarlandanna er komin niður undir 10 milljónir íbúa. Ef Katalónía (7,5 milljónir íbúa) verður sjálfstætt aðildarríki ESB, verða 15 aðildarríki stærri (þ.e. mannfleiri) og 13 minni. Af þessu má ráða líkurnar á að sameiginlegir hagsmunir smáríkja verði leiðarljós ESB í framtíðinni. Reynslan virðist sýna að smáríkjum vegni jafnan að ýmsu leyti betur í efnahagslegu tilliti en stórríkjum. Áherzla ESB á hagkvæmni og jöfnuð hlið við hlið er frábrugðin þróun mála í Bandaríkjunum svo sem rakið er með þrem samanburðardæmum um vinnuálag, líkamshæð og ævilíkur vestan hafs og austan. Þá er fjallað um útvíkkunarþreytu innan ESB sem stendur, þ.e. dvínandi áhuga sambandsins í bili á að fjölga aðildarríkjum vegna núverandi ástands í Evrópu. Loks er fjallað um evruna og þá gagnrýni sem upptaka hennar hefur sætt einkum í Bandaríkjunum m.a. með tilvísan til efnahagsþróunar Grikklands, Írlands og Íslands frá 2008.