Erlendar skammtímaskuldir sem hlutfall af gjaldeyrisforða 1997
Mynd 48. Erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins mega helzt ekki undir neinum kringumstæðum fara upp fyrir gjaldeyrisforða seðlabankans. Ástæðan er einföld: gjaldeyrisforðinn verður hvenær sem er að duga fyrir skyndilegri endurgreiðslu skammtímaskulda, ef á þyrfti að halda. Myndin sýnir tölur um hlutfall erlendra skammtímaskulda af gjaldeyrisforða seðlabanka í fimm Asíulöndum árið, sem fjármálakreppan skall á þar austur frá, 1997. (Heimild: Bank for International Settlements, Basel.) Löndin þrjú, sem urðu verst úti í kreppunni, Taíland, Indónesía og Kórea, höfðu safnað skammtímaskuldum erlendis langt umfram gjaldeyrisforðann og sent frá sér með því móti skýr skilaboð um það, að gengi gjaldmiðla þeirra væri í fallhættu. Þess vegna lögðu fjárfestar skyndilega á flótta frá þessum löndum 1997-1998, og gengi gjaldmiðlanna hríðféll. Þannig hófst kreppan, en henni slotaði á aðeins 2-3 árum í Taílandi og Kóreu, því að efnahagur þeirra var traustur á heildina litið. Indónesía er á hinn bóginn langt frá fullum bata, enda eru innviðir efnahagslífsins þar ótraustir að ýmsu leyti, meðal annars vegna landlægrar spillingar. Filippseyjar og Malasía höfðu ekki safnað skammtímaskuldum í sama mæli og hin löndin þrjú og sluppu betur. Mynd 29 sýnir tölur um Ísland til samanburðar.