9. mar, 2008

Erlendar skammtímaskuldir sem hlutfall af gjaldeyrisforða 1989-2007

Mynd 29. Gjaldeyrisforði Seðlabanka Íslands var hættulega lítill þar til nýlega: hann dugði aðeins fyrir innflutningi í sex vikur, sem er langt undir alþjóðlega viðurkenndum öryggismörkum (sjá myndir 4 og 16). Annar mælikvarði á það, hvort gjaldeyrisforðinn er nægur eða ekki, felst í samanburði við erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins. Þessar skuldir eru að mestu leyti til komnar vegna lántöku banka og annarra fjármálastofnana í útlöndum til að standa straum af útlánaþenslunni hér innan lands (krítarkortaskuldir einstaklinga eru þó ekki taldar með). Myndin að ofan sýnir, að erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins eru nú miklu meiri en gjaldeyrisforðinn og hafa verið það síðan 1995, en það er algeng viðmiðun úti í heimi, að þær megi helzt ekki — sumir myndu segja alls ekki! — fara upp fyrir gjaldeyrisforðann. Hugsunin er sú, að gjaldeyrisforðinn verði á hverjum tíma að duga fyrir skyndilegri endurgreiðslu skammtímaskulda, ef á þyrfti að halda. Það var einmitt þetta, sem brást í Taílandi sumarið 1997, þegar erlendir bankar veigruðu sér við því að halda áfram að dæla skammtímalánsfé inn í landið, svo að Taílendingar neyddust fyrst til að ganga mjög á gjaldeyrisforða sinn til að brúa bilið og síðan að fella gengi bahtsins með illum afleiðingum (sjá mynd 48). Það er með hliðsjón af þessum samanburði, að ýmsir hafa að undanförnu lýst áhyggjum af yfirvofandi hættu á fjármálakreppu á Íslandi. Um slíkt er þó að sjálfsögðu aldrei hægt að spá með nokkurri vissu. En það væri ekki síður óhyggilegt við núverandi aðstæður að láta slíkar viðvaranir sem vind um eyru þjóta. Hlutfall skammtímaskulda og gjaldeyrisforðans hækkaði úr 1,5 í árslok 1999 í 3,7 í árslok 2002 og fór síðan upp fyrir 4,5 í árslok 2005 og 2006. Hlutfallið rauk reyndar upp fyrir 9 2006, en þá tók ríkissjóður nýtt risalán í útlöndum til að tvöfalda gjaldeyrisforða Seðlabankans eða þar um bil, en það hrökk þó ekki lengra en svo, að í árslok 2007 er hlutfallið komið upp í 15. Aukningin 2002 stafaði af því, að bankarnir tóku skammtímalán til að endurgreiða langtímalán til að færa sér í nyt lága vexti af skammtímalánum. Þannig uxu erlendar skammtímaskuldir úr 10% af landsframleiðslu 1995 í 34% 2003, í 86% 2006 og 193% 2007. Þetta er hættuspil, því að skammtímalánsfé er ekki jafnáreiðanlegt og lán til lengri tíma, eins og Taíland og aðrar Austur-Asíuþjóðir fengu að kenna á 1997-1998. Þetta lítur ekki vel út: þetta er það, sem Englendingar kalla ,,an accident waiting to happen.“ Það er engin furða, að erlendir bankar og aðrir hafi sent frá sér ítrekaðar viðvaranir um horfur íslenzks efnahagslífs næstu misserin. Undarlegt var þó að sjá matsfyrirtækið Moodys hækka lánshæfismat íslenzku bankanna á þeirri forsendu, að ríkið — þ.e. íslenzkir skattgreiðendur — standi á bak við bankana, því að engin slík ríkisábyrgð liggur fyrir skv. lögum, enda eru bankarnir nú einkabankar. Nú hefur lánshæfismat bankanna lækkað aftur og skuldatryggingarálag þeirra erlendis er komið upp úr öllu  valdi. Íslenzku viðskiptabankarnir lentu í svolitlum vandræðum með að endurfjármagna skammtímaskuldir sínar 2006 og þurftu að taka á sig aukinn vaxtakostnað vegna minnkandi lánstrausts. Endurfjármögnunarvandi þeirra verður miklu meiri 2009. Vonandi kljúfa þeir vandann; við sjáum til. Sjá greinina Vandamál hvers?