14. mar, 2006

Erlend langtímaskuldabyrði 1990-2005

Mynd 66. Upphleðsla erlendra skulda Íslendinga hefur keyrt um þverbak síðustu ár. Erlendar langtímaskuldir þjóðarbúsins hafa fimmfaldazt síðan 1996: þær námu 50% af landsframleiðslu í árslok 1996 og ruku síðan upp undir 250% í árslok 2005. Greiðslubyrði þjóðarinnar vegna þessara skulda hefur þyngzt til mikilla muna, eins og myndin að ofan sýnir. Greiðslubyrðin er samtala vaxtagreiðslna og afborgana af erlendum langtímalánum, og þær námu fimmtungi af útflutningstekjum 1997, nærri helmingi 2002 og rösklega 70% 2005 skv. nýjum tölum frá Seðlabanka Íslands. Þetta þýðir, að nú er ekki hægt að nota nema tæpan þriðjung af útflutningstekjum til að greiða fyrir innflutta vöru og þjónustu; restina verður að taka að láni til að halda leiknum áfram. Byrðin á eftir að þyngjast, ef vextir hækka og vaxtakjör innlendra banka versna á heimsmarkaði. Reyndar hefur vaxtabyrðin nærri tvöfaldazt síðan 2002 og 2003 eins og myndin sýnir. Það á eftir að koma í ljós, hvort öllu þessu lánsfé hefur verið varið svo vel, að skuldunautarnir geti borið svo þunga skuldabyrði til lengdar. Margir lántakendur hér heima virðast hafa sýnt furðulegt hirðuleysi um afkomu sína fram í tímann. Uppsveiflan í efnahagslífinu síðan 1996 hefur að miklu leyti verið knúin áfram með erlendu lánsfé, sem lántakendur eiga eftir að standa skil á. Innflutningur erlends vinnuafls kom að vísu í veg fyrir, að lánsfjárinnstreymið leiddi til mikillar verðbólgu með gamla laginu, enda þótt verðbólga hafi aukizt umtalsvert. Uppsveifla án verðbólgu var nýjung í íslenzku efnahagslífi og virtist sljóvga áhuga stjórnvalda á framhaldsumbótum í efnahagsmálum: margir héldu og halda sumir enn, að allt sé í himnalagi. Og nú eru stjórnvöld að ráðast í risaframkvæmdir — að mestu leyti fyrir erlent lánsfé — til að halda efnahagslífinu gangandi enn um sinn, enda þótt veruleg áhöld séu um arðsemi framkvæmdanna. Mynstrið er kunnuglegt frá fyrri tíð (og öðrum heimsálfum!): innstreymi lánsfjár er ætlað að örva efnahagslífið um stundarsakir, en minna er hirt um það, hvort framkvæmdin geti skilað viðunandi arði og hvort skuldabyrðin verður þolanleg. Takið eftir einu í viðbót. Myndin tekjur aðeins til langtímaskulda. Skammtímaskuldirnar eru ekki taldar með, því að þær eru þess eðlis, að menn velta þeim gjarnan á undan sér. Greiðslubyrði þjóðarbúsins er að því skapi þyngri en myndin sýnir.