Morgunblaðið
22. jan, 1997

Er Svíþjóð úr takti við umheiminn?

Þorvaldur Gylfason fór fyrir hópi virtra hagfræðinga í úttekt á efnahagslífi Svía

Á meðan Svíar hafa talað um vandamálin hafa margar aðrar þjóðir leyst þau. Þetta voru meðal annars skilaboðin sem fimm manna nefnd virtra hagfræðinga, sem ekki eru sænskir, ber Svíum í bókinni ,,Úr takti við umheiminn? – Sænskt efnahagslíf í alþjóðlegu samhengi”, sem kom út í fyrradag. Sigurjón Pálsson sat blaðamannafund með hagfræðingunum í Stokkhólmi og ræddi við Þorvald Gylfason, hagfræðing og prófessor við Háskóla Íslands, sem ritstýrði bókinni og var jafnframt formaður nefndarinnar.

Bók sem þessi, þar sem gerð er úttekt á sænsku efnahagslífi, kemur út árlega í Svíþjóð og vekur ávallt nokkra athygli og umræðu. Það sem gerir bókina í ár frábrugðna fyrri útgáfum er að enginn hagfræðinganna í nefndinni var sænskur. Bók þessi ætti að vekja áhuga Íslendinga því eins og Þorvaldur segir sjálfur hér annars staðar á síðunni má lesa um Ísland milli línanna í nánast öllum köflum bókarinnar.

Atvinnuleysi og hægur hagvöxtur

Þorvaldur Gylfason hóf blaðamannafundinn þar sem niðurstöður bókarinnar voru kynntar með því að segja að umræðan í Svíþjóð hefði tilhneigingu til að vera of mikið inn á við. Reynt væri að finna sérsænskar lausnir í stað þess að draga lærdóm af því sem gert væri annars staðar.

Hagfræðingahópurinn segir Svía eiga við þrjú höfuðvandamál að stríða. Í fyrsta lagi mikið atvinnuleysi en það var 12% árið 1996. Í öðru lagi hægan hagvöxt en hann hefur verið 1,6% á ári frá árinu 1970. Í þriðja lagi skort á tilhneigingu til umbóta. Í bókinni er sýndur samanburður við ríki eins og Tékkland þar sem ekkert atvinnuleysi er og Tæland þar sem mikill hagvöxtur er.

Stífni hins sænska vinnumarkaðar gerir atvinnuleysið verra að mati hagfræðinganna. Skoðun þeirra er að hraðari hagvöxtur dugi ekki einn og sér til að minnka atvinnuleysið heldur verði að losa um atvinnumarkaðinn og draga úr miðstýringu. Þorvaldur sagði að á þetta hefði oft verið bent áður en tíminn, sem í Svíþjóð hafi verið notaður til að tala, hafi verið notaður til aðgerða víða annars staðar.

Í máli Torbens M. Andersens, prófessors við Háskólann í Århus og eins nefndarmanna, kom fram að það væri ekki nóg að hafa hátt hlutfall menntunar eins og er í Svíþjóð, þegar stór hluti menntamanna fái ekki menntun, sem gerir þá hæfa fyrir vinnumarkaðinn. Hann benti líka á að 60% þeirra sem bestu menntunina hafi starfi í opinbera geiranum. Efnahagsleg arðsemi af menntun væri lítil í Svíþjóð.

Svíar flytja einnig of lítið út, aðeins 33% af vergri þjóðarframleiðslu miðað við 38% heimsmeðaltal. Sama gildir um fjárfestingu Svía sem er 14% af vergri þjóðarframleiðslu miðað við 30-40% í Austur-Asíu.

Án róttækra umbóta mun Svíþjóð halda áfram að dragast aftur úr umheiminum og til þessara umbóta verður ekki að grípa einhvern tímann í framtíðinni heldur svo fljótt sem mögulegt er. Þetta sagði John Williamson, yfirhagfræðingur hjá Alþjóðabankanum fyrir Suður-Asíu svæðið og einn nefndarmanna. John sagði að til að koma mætti á umbótum væri lykilatriði að hafa samhenta forystu, sem öll tryði á breytingarnar. Allt of oft gerðist það að leiðtogar sem tryðu á breytingar og vildu vinna þeim framgang skipuðu ráðherra sem ekki deildu sömu sannfæringu og kæmu þannig í veg fyrir að hugmyndirnar næðu fram að ganga.

Kynningarherferð

,,Úr takti við umheiminn?’’ var unnin að frumkvæði SNS – Studieförbundet Näringsliv och Samhälle. SNS er svonefndur ,,think-tank”, nokkurs konar hugmyndabanki sem starfar sjálfstætt og óháð öllum hagsmunasamtökum, stjórnmálaflokkum, ráðuneytum eða stjórnvöldum. Blaðamannafundurinn sem haldinn var í Stokkhólmi í gær og hér er sagt frá er aðeins fyrsta skrefið í markvissri kynningu á niðurstöðum bókarinnar. Þannig rökræddi Þorvaldur í gærkvöldi við ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytisins og framundan eru rökræður við Erik Åsbrink fjármálaráðherra Svíþjóðar sem og fundir víða um Svíþjóð.

Er Ísland úr takti við umheiminn?

Lesa má um Ísland milli línanna í bókstaflega öllum köflum bókarinnar ,,Úr takti við umheiminn?” að sögn Þorvaldar Gylfasonar, sem ritstýrði henni. Hann segir tvímælalaust vera þörf fyrir svipaða úttekt á Íslandi.

Þótt atvinnuleysi sé minna á Íslandi en í Svíþjóð bendir Þorvaldur á að það hafi samt tífaldast undanfarin fimm ár. ,,Vinnumarkaðsskipanin heima,” segir hann, ,,hefur að mörgu leyti svipaða galla og hér í Svíþjóð. Ef langtímastöðnunin heima heldur áfram, þá horfi ég framhjá þessari tímabundnu uppsveiflu sem er núna vegna stóriðjuframkvæmda, þá er hætt við því að atvinnuleysið á Íslandi geti mjakast enn hærra. Ég held þess vegna að rökin, sem eiga við í Svíþjóð, fyrir því að færa kjarasamninga frá miðstýrðum risavöxnum heildarsamtökum yfir á vinnustaðina sjálfa, eigi jafn vel við heima,” segir Þorvaldur.

Eru sömu upplýsingar til staðar á Íslandi og þið fenguð hér í Svíþjóð við gerð bókarinnar?

,,Nei, því miður vantar mikið upp á að þess konar upplýsingar sem við höfum aðgang að hér, séu til heima. Svíþjóð er háþróað land sem á sér virðulega hefð og sögu í efnahagsmálum og í efnahagsumræðu yfirhöfuð. Þessu fylgir mjög vandleg kortlagning á sænsku efnahagslífi. Þess vegna eru allar hagtölur hér í hæsta gæðaflokki sem þekkist. Það auðveldar mjög vinnu af því tagi sem við höfum unnið.”

Hvar myndirðu setja menntun á Íslandi í samanburði við menntun í Svíþjóð?

,,Ég óttast það að þegar nauðsynlegra upplýsinga verður aflað muni koma í ljós að ástand menntamálanna á Íslandi sé slæmt.”

Hvað um samanburð á íslenska og sænska vinnumarkaðnum?

,,Vinnumarkaðurinn á Íslandi er að mörgu leyti sveigjanlegri en hann er hér í Svíþjóð og víða annars staðar í OECD-löndunum. Það stafar af því að við höfum þessa sérstöku blöndu af tiltölulega lágum grunnlaunum og síðan viðbótargreiðslum, ofan á grunnlaunin, sem eru sveigjanlegar. Eftir stendur hitt að um grunnlaunin er samið af risavöxnum heildarsamtökum, sem hafa til þess vald að sprengja launin upp úr öllu valdi og hafa notað vald sitt til þess oftar en einu sinni og oftar en tvisvar undanfarna áratugi. Þessu valdi þarf að dreifa. Það þarf að gera vinnumarkaðinn líkari öðrum mörkuðum, á Íslandi líka, ekki síður en í Svíþjóð eða öðrum Evrópulöndum.”

Það kom fram í úttektinni að í Svíþjóð hefði verið of mikið talað og of lítið gert. Hvernig myndirðu lýsa ástandinu á Íslandi í þessu tilliti?

,,Það er stundum orðað þannig á rússnesku að Svíar hafi haft glasnost en ekki perestrojku. Okkur vantar ennþá hvorutveggja: glasnost og perestrojku. En þetta kemur smám saman.”

Undirstöður hagvaxtar feysknar

,,Það sem við segjum um hagvöxt í Svíþjóð á að miklu leyti við um Ísland líka, “ heldur Þorvaldur áfram. ,,Það er að segja að Íslendingar og Svíar fjárfesta allt of lítið, flytja allt of lítið út og hafa vanrækt menntun. Þetta eru þessar þrjár mikilvægustu undirstöður hagvaxtarins til langs tíma og ef þær eru feysknar allar þrjár horfir ekki vel um hagvöxtinn. Ég er hins vegar bjartsýnn á að Íslendingum takist að taka sig á, “ segir hann.

Texti: Sigurjón Pálsson.