Ekki nýtt fyrirbrigði, að stjórnmálamenn eigi stundum erfitt með að átta sig á hagfræðingum
Rætt við Þorvald Gylfason hagfræðing og prófessor um hagfræði, nám hans og störf erlendis og fleira
Þorvaldur Gylfason, hagfræðingur, var í haust skipaður prófessor í þjóðhagfræði við viðskiptadeild Háskóla Íslands. Blaðamanni þótti forvitnilegt að ræða við Þorvald, um það hvers vegna hann lagði hagfræðinám á sínum tíma fyrir sig, um störf hans á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um rannsóknir sem hann stundaði á vegum Alþjóðahagfræðistofnunarinnar í Stokkhólmi, um ýmsar kenningar hagfræðinnar og fleira.
,,Eiginlega gerði ég tvær fimm ára áætlanir, þegar ég var í fimmta bekk í Menntaskólanum í Reykjavík haustið 1968,” sagði Þorvaldur. – ,,Fyrst ætlaði ég til hagfræðináms á Englandi að loknu stúdentsprófi. Síðan langaði mig til framhaldsnáms í Bandaríkjunum. Loks hafði ég hug á að starfa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington að námi loknu, væri þess kostur. Þetta gekk eftir. Ég komst ekki að því fyrr en löngu seinna, að maður á aldrei að gera svona áætlanir. Það er víst stórhættulegt, eða svo segja sálfræðingarnir bandarísku, sem uppgötvuðu miðlífskreppuna svokölluðu. Þessi illræmdi velferðarkvilli mun vera fólginn í því, að mönnum krossbregður á miðjum aldri, þegar þeir bera örlögin saman við æskudraumana. Ég er þess vegna steinhættur allri áætlanagerð.
Manchester, Róm og Ríó
Hvað um það. Að loknu stúdentsprófi úr stærðfræðideild MR 1970 var ég þrjá vetur við hagfræðideildina í háskólanum í Manchester á Englandi og lauk BA-prófi þaðan 1973. Þetta var og er ágætur skóli. Hagfræðideildin stóð á gömlum merg. Þarna höfðu margir skástu hagfræðingar Breta verið starfandi á öldinni sem leið, og svo var enn. Og svo vildi til, að áratug á undan mér stunduðu nám við þessa sömu deild tveir menn, sem síðar urðu vinir mínir og samstarfsmenn: Gunnar Tómasson, hagfræðingur hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington, og Þráinn Eggertsson, prófessor. Raunar hefur háskólinn í Manchester útskrifað allmarga Íslendinga gegnum tíðina, þar á meðal nokkra hagfræðinga auk okkar Gunnars og Þráins.
Það var reyndar með ráðum gert að sækja fornám til Bretlands, en ekki til Bandaríkjanna, en það var hinn höfuðkosturinn, sem kom til greina. Ástæðan er sú, að brezkir háskólar bjóða yfirleitt upp á meiri sérhæfingu strax í fornámi eins og tíðkast í flestum háskóladeildum á Norðurlöndum og í Vestur-Evrópu. Bandarískir háskólar ætlast hins vegar yfirleitt til minni sérhæfingar framan af. Það hefur ýmsa kost og gerir stúdentum til dæmis auðveldara um vik að skipta um grein og deild í miðjum klíðum, ef þeir vilja. Á móti þessu kemur, að sérhæfing brezka kerfisins sparar tíma: venjulega tekur BA-nám 3 ár í Bretlandi, en 4 í Bandaríkjunum, þótt bæði Bretar og Bandaríkjamenn séu yfirleitt 18 ára, þegar þeir byrja í háskóla.
Þetta voru ágæt ár. Kennslukrafturinn í hagfræðideildinni var alla vega fyrsta flokks. Hitt er rétt, að heimsborg er Manchester ekki í sama skilningi og London, Róm og Ríó, enda kannski eins gott eftir á að hyggja. Ég fór heim á sumrin þessi ár og vann í Seðlabankanum fyrst og síðan í hagrannsóknadeild Framkvæmdastofnunar, sem nú heitir Þjóðhagsstofnun. Það var líka ágætur skóli.
Til Princeton
Haustið 1973 fór ég svo til framhaldsnáms í Princeton í Bandaríkjunum. Þá vænkaðist nú hagur manns til muna. Princeton er háskólabær í New Jersey, um klukkutíma ferð suðvestur af New York. Þetta er feikna fallegur bær, á stærð við Akureyri. Háskólinn er í fremstu röð. Þarna var Einstein á sinni tíð og margir fleiri af því tagi fyrr og síðar. Það hefur reyndar verið tízka um áratugabil að lýsa Einstein sem snillingi og tossa í einum og sama manninum. En nýjustu heimildir herma, að þetta sé misskilningur. Það er rétt sem menn vissu, að einkunnir Einsteins í gagnfræðaskóla í Sviss á sinni tíð hröpuðu skyndilega úr 10 niður í 1. Það var fyrst nú fyrir skemmstu, að menn fundu ástæðuna. Hún reyndist ver sú, að einkunnakerfinu var snúið við, þegar þetta gerðist, þannig að 1 varð hæsta einkunn og 10 lægsta. Svona getur lífið verið miskunnarlaust: Sannleikurinn sigrar á endanum, jafnvel þegar smávegis misskilningu er í miklu skemmtilegri.
Hvað sem því líður var umhverfið og andrúmsloftið í Princeton eins og allra bezt verður á kosið, kennararnir margir og góðir og auðvelt að nálgast þá. Framhaldsnemendurnir voru hins vegar tiltölulega fáir og reyndar helmingi færri í hverjum árgangi en kennararnir. Þannig gefst kennurum að sjálfsögðu betra tóm til að sinna hverjum nemanda en ella. Jafnframt var mikill og líflegur samgangur milli stúdentanna, enda eru Ameríkanar yfirleitt feiknalega opið fólk og viðfelldið. Mér er til efs, að nokkurs staðar í víðri veröld sé auðveldara að vera útlendingur en einmitt í Ameríku. Ætli skýringin sé ekki sú fyrst og fremst, að Bandaríkjamenn eru margir hverjir útlendingar sjálfir í eigin landi og flytja auk þess mjög oft búferlum innan þessa víðáttumikla lands?
Árin í Princeton urðu þrjú. Ég tók MA-próf 1975 og varði svo doktorsritgerð um verðbólgu, atvinnuleysi og hagvöxt 1976. Þetta var nú ekki alveg jafnaugljóst viðfangsefni og kann að virðast. Flestir félagar mínir skrifuðu um allt annað.
Bandaríkjamenn höfðu búið við tiltölulega stöðugt verðlag fram undir 1970 og lítið atvinnuleysi. En .þetta var smám saman að breytast. Einkum tvennt olli því. Í fyrsta lagi þótti Johnson Bandaríkjaforseta ófært að hækka skatta fyrir forsetakosningarnar 1968 til að standa straum af styrjöldinni í Víetnam og lét aðvaranir ráðgjafa sinna sem vind um eyrun þjóta. Fjárlagahallinn, sem af þessu hlauzt, kom verðbólgunni af stað í Bandaríkjunum. Því má kannski skjóta inn hér, að nú stendur Reagan forseti í nákvæmlega sömu sporum og Johnson forðum: Hann hefur aukið útgjöld til varnarmála verulega og lækkað skatta og neitar að leiðrétta fjárlagahallann, sem kom í kjölfarið, enda kosningar í nánd. Þess vegna er hætt við, að hjöðnun verðbólgunnar í Bandaríkjunum að undanförnu eigi eftir að reynast skammvinn.
Ofan á verðbólguarf Johnsons bættist svo fyrsta olíuverðshækkunin 1973-74. Þá fjórfaldaðist olíuverðið á skömmum tíma, og fyrirtækin brugðust við með tvennum hætti: Sumpart veltu þau kostnaðarhækkuninni á undan sér út í verðlagið, þannig að verðbólgan jókst hröðum skrefum, og sumpart sögðu þau fólki upp í sparnaðarskyni, þannig að atvinnuleysi jókst. Nú var sem sagt nýtt fyrirbrigði komið til sögunnar: Vaxandi verðbólga samfara vaxandi atvinnuleysi. Um það leyti sem ég settist að skriftum 1975, voru verðbólga og atvinnuleysi mun meiri en áður hafði þekkzt í landinu.
Innblástur að heiman
Mér þótti forvitnilegt að skoða þessi fyrirbæri og sambandið milli þeirra. Að sumu leyti kom hugmyndin héðan að heiman. Hér var verðbólgan komin á fulla ferð á þessum tíma, sumpart af ytri ástæðum, samanber olíuverðshækkunina, sem ég nefndi áðan, og sumpart vegna lélegrar hagstjórnar heima fyrir. Raunvextir voru mjög neikvæðir, svo að sparifé landsmanna fuðraði upp á verðbólgubálinu. Fólk og fyrirtæki fundu, að það borgaði sig heldur að eyða og spenna. Í stað hraðminnkandi innlends sparnaðar komu sívaxandi erlendar lántöku. Þegar verðbólgan knýr fólk áfram með þessum hætti, þá eru iðulega miklir peningar í umferð og mikil atvinna framan af, jafnvel þótt eytt sé um efni fram og meira af kappi en forsjá. En fyrr eða síðar hljóta áhrif þverrandi sparnaðar að segja til sín, annaðhvort í minnkandi hagvexti eða sífellt þyngri skuldabyrði gagnvart útlöndum. Hvort tveggja hefur þjóðin fengið að reyna síðustu ár, en hefur þó sloppið vonum framar vegna þess ríflega afla, sem komið hefur upp úr sjó öll þessi verðbólguár. Ég held, að alvarleg tilraun til að kveða verðbólguna niður hefði verið gerð miklu fyrr, ef aflabrögðin hefðu ekki verið svona góð. Það var eins og þjóðin tryði því (eða stjórnmálamennirnir að minnsta kosti), að við hefðum efni á verðbólgunni endalaust
Stærðfræði er nauðsynleg …
Úr þessum jarðvegi spratt ritgerðin. Ég sauð hana saman á einu ári, 1975-76, og hygg ég, að eigi sé ofmælt, þótt ég segi, að svoleiðis texti sé ekki eftir hafandi á þessum vettvangi. Það var ekki heldur meiningin. Þó get ég reynt að skýra í fáum orðum, hvernig svona verk verður til og hvernig það lítur út.
Tökum útlitið fyrst. Doktorsritgerðir og önnur fræðirit hagfræðinga eru yfirleitt fullar af stærðfræðiformúlum. Nú er það að vísu til, að hagfræðingar slái um sig með stærðfræðiformúlum eins og í sjálfsvörn, af því að þeim leiðist hagfræði og efnahagsmál. Mér dettur í hug hagfræðingurinn, sem var að virða fyrir sér frábæra hljómplötu Einars Kristjánssonar, þar sem hann syngur 22 sönglög af 78 snúninga plötum. Hagfræðingurinn hafði engan áhuga á söng, en tók eftir því, að þetta eru næstum 30% hjá Einari. En þetta er frekar sjaldgæft. Venjulega nota hagfræðingar stærðfræði, af því að hún er nauðsynleg efnisins vegna.
Einn höfuðtilgangur hagfræðirannsókna er að rekja sambandið milli ólíkra hagstærða. Hefur verðbólga áhrif á vexti? Hafa verðbólga og vextir áhrif á eyðslu, sparnað og fjárfestingu? Ef aukin verðbólga þrýstir raunvöxtum niður á við, svo að fjárfesting eykst og önnur eyðsla, eykst þá ekki þjóðarframleiðslan? Og dregur þá ekki úr atvinnuleysi? En ef aukin verðbólga kemur niður á sparnaði, bitnar það þá ekki á hagvexti og þar með lífskjörum almennings, þegar fram í sækir? Og þannig áfram.
Það voru spurningar af þessu tagi, sem ég reyndi að finna svör við í ritgerðinni. Þetta var nýtt á þessum tíma. Menn höfðu ekki spurt margra þessara spurninga áður í þessu samhengi.
Langauðveldasta og áhrifaríkasta rannsóknaraðferðin undir þessum kringumstæðum er fólgin í því að búa til eins konar stærðfræðilíkan af þeim efnahagslögmálum, sem um er að tefla – eða jafnvel af heilum hagkerfum, ef því er að skipta. Slíkt líkan varpar alla jafna skýrustu ljósi á samhengi þeirra hagstærða, sem verið er að skoða, að minnsta kosti í huga þeirra, sem eru sæmilega læsir á einfalda stærðfræði. Þeir, sem fást við hagfræðirannsóknir nú á dögum, eiga naumast annarra kosta völ.
Stærðfræðin hefur annan mikilvægan kost í þessu sambandi: Maður þarf ekki að sætta sig við að svara spurningu eins og þeirri, hvort verðbólga og vextir hafi áhrif á eyðslu og sparnað, með já eða nei, heldur er hægt að svara með meiri nákvæmi. Hér koma tölfræðin og tölvutæknin til skjalanna. Með hjálp þeirra er hægt að finna, hversu mikil áhrif tiltekin breyting verðbólgu eða vaxta hefur á eyðslu og sparnað og þannig áfram. Til þessa gerði ég líka tilraun í síðari hluta ritgerðarinnar: Ég reyndi að meta með tölfræðiaðferðum og tölvuvinnslu, hversu mikil áhrif verbólgu- og vaxtabreytingar hafa á neyzlu, sparnað, þjóðartekjur, atvinnuleysi og hagvöxt í Bandaríkjunum, eftir þeim kenningum um samhengi þessara stærða, sem ég hafði sett fram í fyrri hlutanum. Niðurstöðurnar voru síðan birtar í Review of Economics and Statistics, alþjóðlegu hagfræðitímariti, sem hagfræðideildin við Harvard-háskóla gefur út.
Raunar eru ekki liðin nema 50 ár, síðan hagfræðingar byrjuðu að beita aðferðum tölfræðinnar til að svara spurningum af þessu tagi og til að sannprófa ýmsar hagfræðikenningar með því að bera þær saman við raunveruleikann, eins og hann birtist í hagskýrslum af öllu tagi. Tölvutæknin er enn yngri eins og menn vita. Það voru einmitt helztu frumkvöðlar þessarar tölfræðibyltingar innan hagfræðinnar, Norðmaður og Hollendingur, sem fengu fyrstu Nóbelsverðlaunin í hagfræði 1969
… en ókeypis er hún ekki
Þessi bylting var ekki ókeypis. Stærðfræðin og tölfræðin geta þvælzt fyrir eins og dæmin sanna. Sumpart af þeim sökum er eins og háskólahagfræðingar hafi smám saman fjarlægzt almenna umræðu um efnahagsmál, að ekki sé talað um bein afskipti af þeim málum á stjórnmálavettvangi. Þetta er sérstaklega áberandi í Bandaríkjunum, en þó sýnist mér, að sömu þróunar sé byrjað að gæta í ýmsum Evrópulöndum.
Og það er svo sem ekki nýtt fyrirbrigði, að stjórnmálamenn eigi stundum erfitt með að átta sig á hagfræðingum. Einu sinni átti Keynes lávarður, faðir þjóðhagfræði nútímans og tvímælalaust merkasti hagfræðingur, sem uppi hefur verið á þessari öld, fund með Roosevelt Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu 1934 til að brýna fyrir forsetanum, hvernig hann gæti sigrazt á kreppunni með því að auka útgjöld ríkisins. Eftir fundinn sagði Roosevelt um Keynes: ,,Þessi maður hlýtur að vera stærðfræðingur, en ekki hagfræðingur.” Og Keynes hafði reyndar orð á því eftir fundinn, að Roosevelt virtist ekki hafa botnað í neinu. Þó voru það einmitt kenningar Keynes, sem gerðu Roosevelt kleift, hálfpartinn óvart að því er virðist, að eyða kreppunni um og eftir 1938. Ef Keynes hefði tekizt að sannfæra Roosevelt, þegar þeir hittust 1934, hefði heimskreppan trúlega tekið enda löngu áður en raun varð á.
Forseti í fílabeinsturni
Kennedy var opnari fyrir nýjum hugmyndum en Roosevelt hafði verið. Þegar Kennedy varð Bandaríkjaforseti 1960, sneri hann sér til James Tobins, prófessors við Yale-háskóla og síðar Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, og bað hann að verða aðalráðgjafi sinn í efnahagsmálum. Tobin svaraði: ,,Þú ert að tala við vitlausan mann. Ég er hagfræðingur í fílabeinsturni.” Kennedy svaraði að bragði: ,,Það er alveg upplagt. Ég er forseti í fílabeinsturni.”
Sjálfur er ég þeirrar skoðunar, að fílabeinsturnar geti verið ágætir, en helzt þurfa þeir að vera búnir hraðskreiðum lyftum. Annars er hætt við, að jarðsambandið rofni. Þess vegna hentaði mér ágætlega að taka við tiltölulega hagnýtum störfum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington að loknu námi í Princeton haustið 1976.
Í Washington 1976–81
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (International Monetary Fund) er alþjóðastofnun, systurstofnun Sameinuðu þjóðanna. Þetta er eins konar alþjóðlegur seðlabanki, sem veitir aðildarlöndum skammtímalán, þegar þau lenda í greiðsluörðugleikum gagnvart útlöndum. Flest aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, að undanskildum Sovétríkjunum og nokkrum öðrum kommúnistaríkjum, eru aðilar að Sjóðnum og leggja fé í hann, sem Sjóðurinn síðan lánar út eftir föstum reglum. Hann lánar ríkum þjóðum og fátækum jöfnum höndum án tillits til stjórnarfars. Starfsemi Alþjóðabankans (World Bank) er svipuð, en þó frábrugðin að því leyti, að Bankanum er ætlað að veita fátæku löndunum þróunaraðstoð með lánum til langs tíma, oft vegna tiltekinna verkefna svo sem vegagerðar eða orkuframkvæmda, meðan hlutverk Sjóðsins er að hjálpa aðildarlöndum út úr gjaldeyriskröggum með skammtímalánum. Bankinn hefur hagfræðinga og verkfræðinga af öllu tagi á sínum snærum jöfnum höndum, en Sjóðurinn ræður næstum eingöngu hagfræðinga í þjónustu sína auk aðstoðarfólks. Starfsliðið kemur úr öllum heimshornum og er því fjölskrúðugt og skemmtilegt.
Við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn starfaði ég í næstum fimm ár, eða til ársins 1981. Verkefnin voru margvísleg. Fyrst og fremst fólust þau í samningagerð um lántökur aðildarlanda í öllum heimshornum, og fór ég til Afríku, Asíu, Austurlanda nær og Suður-Ameríku í því skyni. Jafnframt vann ég að sjálfstæðum rannsóknum og einnig að athugunum á efnahagslífi aðildarlanda Sjóðsins. Allt var þetta frábærlega skemmtilegt og lærdómsríkt, þriðjaheimsvafstrið ekki sízt. Þar opnaðist fyrir manni nýr heimur og heillandi.
Umdeild stofnun
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er umdeild stofnun. Ástæðan er fyrst og fremst sú, að reglur sjóðsins, sem aðildarlöndin hafa sett í sameiningu, krefjast þess, að þegar lánsbeiðni aðildarlands í greiðslukröggum fer fram úr ákveðinni upphæð, sem ræðst meðal annars af efnahag landsins, þá getur Sjóðurinn því aðeins orðið við beiðninni, að ríkisstjórn landsins geri viðeigandi ráðstafanir til að koma efnahag landsins á réttan kjöl. Annars er óvíst, hvort landinu tækist að endurgreiða lánið.
Hér er að sjálfsögðu um viðkvæman vanda að ræða. Hví skyldi stjórn fullvalda ríkis sæta skilyrðum alþjóðastofnunar um framkvæmd efnahagsstefnunnar? En þá má spyrja á móti: Hví skyldi veita einu ríki fé úr sameiginlegum sjóði aðildarlanda, ef sýnt þykir, að viðkomandi ríki getur ekki endurgoldið lánið á tilskildum tíma að óbreyttri efnahagsstefnu? Er ekki eðlilegt og sanngjarnt, að lánveitandi reyni, að gera ráðstafanir til að tryggja, að lánsféð fari ekki í súginn?
Þegar greiðsluhalli gagnvart útlöndum knýr eitthvert aðildarland til að fara fram á hátt lán úr Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, er langalgengasta orsök vandans fólgin í óhóflegri peningaprentun eða halla á fjárlögum ríkisins. Þegar Sjóðurinn setur skilyrði reglum samkvæmt, snerta þau því alla jafna stefnuna í peningamálum og fjármálum ríkisins. Þó er þess jafnan vandlega gætt, að skilyrðin séu höfð almenns eðlis, þannig að stjórnvöld í lántökulandinu hafi sem mest svigrúm innan þess ramma, sem skilyrðin setja. Um skilmála sjóðsins hefur Jón Sigurðsson, forstjóri Þjóðhagstofnunar, skrifað ágæta grein, sem birtist í Fjármálatíðindum fyrir nokkru.
Þegar á heildina er litið, sýnist mér, að Sjóðurinn hafi gegnt býsna gagnlegu hlutverki frá því hann var settur á laggirnar eftir síðari heimsstyrjöldina. Fyrstu árin stuðlaði hann einkum að auknu frjálsræði í gjaldeyrisviðskiptum og afnámi haftabúskapar. Þjóðir Vestur-Evrópu völdu þessa braut á 6. áratugnum. Ísland fylgdi í kjölfarið með myndun Viðreisnarstjórnarinnar 1959. Árangur heilbrigðari gjaldeyrisviðskipta lét ekki á sér standa: Þá fyrst urðu ávextir hversdagsvara á borðum almennings á Íslandi, svo að dæmi sé nefnt, en höfðu áður verið sjaldgæfur munaður, sem fæstir höfðu tök á að veita sér nema skömmtunarstjórarnir. Þótt dómur reynslunnar sé ótvíræður í þessu efni í okkar heimshluta, fer því þó fjarri, að þróunarlöndin hafi fært sér þessa reynslu í nyt. Mörg þessara landa búa enn við margvíslegt ófrelsi í þessum efnum sem öðrum. Og það er víðar en í þróunarlöndum, sem ýmsum gengur erfiðlega að átta sig á þessu. Nýlega hitti ég á förnum vegi hér í Reykjavík forystumann í stórum stjórnmálaflokki. Hann sagði, að sér ofbyði vöruvalið í verzlunum borgarinnar og bætti við: ,,Ég vil höft.”
Eftir því sem árin liðu og betri árangur náðist í gjaldeyrismálum, breyttist verksvið Sjóðsins smám saman . Upp úr 1960 var í vaxandi mæli lögð áherzla á aðra þætti efnahagsstefnunnar í aðildarlöndunum, einkum peningamál,. fjármál ríkisins og gengismál. Í ljósi nýrrar þekkingar var tilgangurinn sá að reyna að stuðla að sæmilegu samræmi milli þessara þátta efnahagsstefnunnar annars vegar og markmiða aðildarlandanna í efnahagsmálum hins vegar, en þessi markmið eru venjulega ör hagvöxtur, sæmilega stöðugt verðlag, þokkalegt jafnvægi í viðskiptum við útlönd og réttlát tekjuskipting. Að mínum dómi hefur Sjóðurinn látið gott af sér leiða í þessum efnum líka, bæði með því að stuðla að betri hagstjórn og tækniaðstoð af ýmsu tagi.
,,Sjúklingar” í ,,meðferð”
Reyndar hef ég skrifað grein, þar sem ég reyni að meta árangurinn af skilorðsbundnum lánveitingum Sjóðsins til þróunarlanda. Rannsóknaraðferðina lærði ég af læknum. Ég skoðaði stóran hóp aðildarlanda (,,sjúklinga”), sem áttu við alvarlega greiðsluvanda (,,sjúkdóm”) að stríða. Sum þeirra kusu að koma til Sjóðsins og þiggja skilorðsbundin lán (,,meðferð”). Önnur kusu að bíða og sjá. Ég bar svo saman efnahagsþróun (,,líðan”) hópanna tveggja fyrir og eftir ,,meðferð” fyrri hópsins. Það kom á daginn, að ,,meðferðin” bar yfirleitt góðan árangur: Greiðsluhallinn við útlönd minnkaði til muna (þ.e. ,,sjúkdómnum” slotaði) eins og til var ætlazt, án þess að það kæmi niður á hagvexti (þ.e. án hvimleiðra ,,aukaverkana”), en það hefur einmitt verið eitt helzta árásarefni gagnrýnenda Sjóðsins á undanförnum árum, að ,,Sjóðsmeðferðin” svo kallaða bitnaði á hagvexti. Í hinum löndunum, sem vildu ekki þiggja lán, varð hins vegar yfirleitt bati. Af þessu og öðrum svipuðum athugunum dreg ég þá ályktun, að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum hafi tekizt ætlunarverk sitt bærilega, þegar á heildina er litið.
Það voru einmitt athuganir af þessu og svipuðu tagi, sem ég fékkst við í Washington milli samningaferða til þriðjaheimslanda.
Washington heillaði mig. Fram undir 1970 hafði höfuðborginni oft verið lýst sem andlegri eyðimörk, þar sem ekkert væri um að vera. En svo tók hún ótrúlega örum breytingum. Mest munaði líklega um minnisvarðann, sem Kennedy forseta var reistur að honum látnum: Í Kennedy-höllinni er óperuhús og bíó og margt að gerast samtímis á hverju kvöldi árið um kring. Það var eins og þetta hlæði utan á sig: Ungt fólk þyrptist úr úthverfum inn í hjarta borgarinnar, veitingahús spruttu upp eins og fíflar í túni, og nú er Washington einhver líflegasta borg í öllum Bandaríkjunum. Fólk streymir þangað úr öllum landshornum sem aldrei fyrr. Og ægifögur hefur hún alltaf verið.
Til Stokkhólms
Þegar ég hafði verið starfandi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í Washington í tvö ár, fékk ég óvænt tilboð frá Alþjóðahagfræðistofnuninni (Institute for International Economic Studies) í Stokkhólmi um að koma þangað um eins árs skeið og stunda eigin rannsóknir að vild. Þótt ég hefði aldrei komið til Stokkhólms, var mér kunnugt um þessa stofnun, enda er hún alþekkt í hópi hagfræðinga um allan heim. Þetta er sjálfstæð rannsóknastofnun, sem Gunnar Myrdal, annar tveggja sænskra Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði, setti á stofn um 1960. Höfuðviðfangsefni þeirra, sem sitja þarna við rannsóknir, eru á sviði alþjóðahagfræði og þróunarhagfræði. Þarna eru saman komnir margir beztu háskólahagfræðingar Svía af yngri kynslóðinni, 10 eða12 talsins. Auk þeirra eru þarna erlendir gestir árið um kring, margir í senn og víða að, til lengri eða skemmri tíma. Stofnunin er því alþjóðleg í eðli sínu. Þarna hafa margir fremstu háskólahagfræðingar heims verið gestir á undanförnum árum, þar á meðal aðalkennari minn í Princeton, Branson að nafni, sem kom Svíum í samband við mig á sínum tíma. Forstjóri stofnunarinnar er Assar Lindbeck prófessor. Hann er einn helzti hagfræðingur í Evrópu um þessar mundir og formaður Nóbelsverðlaunanefndarinnar í hagfræði.
Þetta tilboð kom sér ágætlega. Árið var 1978, þannig að síðari fimm ára áætlunin, sem ég nefndi í upphafi, var á enda runnin. Mér þótti tímabært að breyta til um skeið, enda hafði ég verið fimm ár samfleytt í Bandaríkjunum, en vanrækt Evrópu (utan England) og Norðurlönd. Ég bað því um ársleyfi frá störfum í Washington og var í Stokkhólmi árið 1978-79, þar sem mér gafst betra tóm til að sinna eigin hugðarefnum í rannsóknum fjarri Washington og þriðjaheimsamstrinu. Að ársleyfinu loknu hvarf ég aftur til Washington og hélt áfram störfum þar til 1981, en sagði þá starfi mínu lausu, þótt mér hefði alla tíð líkað það feikna vel, og fór þá aftur til Stokkhólms til að geta gefið mig að rannsóknum óskiptur í því ákjósanlega andrúmslofti, sem stofnunin í Stokkólmi býður upp á.
,,Maður strandar oft!”
Andrúmsloftið á rannsóknastofum sem þessari er bæði feiknalega skemmtilegt og uppörvandi. Menn vinna að viðfangsefnum sínum ýmist einir eða með öðrum og njóta þess, að á staðnum eru margir, sem fást við svipuð verkefni. Þegar einn siglir í strand, getur annar ýtt úr vör. Og maður strandar oft!
Viðfangsefnin eru óþrjótandi. Sjálfur hef ég fengizt við margs konar verkefni, síðan ég fór aftur til Stokkhólms 1981. Hér get ég nefnt tvennt. Í fyrsta lagi hef ég glímt við að athuga áhrif gengisfellinga á utanríkisviðskipti og þjóðartekjur bæði í iðnríkjum og þróunarlöndum. Vandinn hér er þessi: Meðan flestir viðurkenna, að gengisfelling getur, þegar svo ber við, eytt viðskiptahalla viðkomandi lands við útlönd eins og til er ætlazt, þá getur slík aðgerð líka haft óheppilegar aukaverkanir. Einkum hafa margir áhyggjur af því, að gengisfelling geti komið niður á hagvexti í mörgum þróunarlöndum og gengi sé því óviðeigandi hagstjórnartæki í þeim löndum.
Til að athuga þetta hef ég ásamt öðrum sett saman einfalt stærðfræðilíkan, sem lýsir öllum helztu tengslum milli gengis annars vegar og viðskiptahalla og hagvaxtar hins vegar. Við höfum síðan fellt gengið í líkaninu og skoðað áhrifin. Þá kemur í ljós, að gengisfelling dregur næstum alltaf verulega úr viðskiptahalla eins og við vissum fyrir – og yfirleitt án þess að spilla hagvexti; það er nýtt. Hagvaxtaráhrifin eru þó svolítið breytileg eftir löndum. Að svo miklu leyti sem þetta einfalda líkan okkar lýsir rétt þeim einkennum efnahagslífsins, sem skipta máli í þessu samhengi, má því gera ráð fyrir, að raunveruleg gengisfelling í raunverulegu landi hefði svipuð áhrif og líkanið bendir til. Úr þessu verki hefur orðið greinaflokkur. Fyrsta greinin birtist nýlega í alþjóðlegu tímariti,sem Kanadíska hagfræðingafélagið gefur út, og næsta kemur innan skamms út í sams konar tímariti í Belgíu. Fleiri greinar eru í deiglunni. Þessu hefur verið sýndur svolítill áhugi, enda eru hagsmunir í húfi. Í þriðja heiminum voru gengisfellingar til skamms tíma algengari orsök stjórnarskipta en frjálsar kosningar.
Í öðru lagi hef ég fengizt við verðbólgurannsóknir af ýmsu tagi. Sérstakan áhuga hef ég haft á atferli verkalýðsfélaga í þessu sambandi og samspili þeirra og vinnuveitenda við ríkisvaldið í sambandi við kjarasamninga. Í þessu efni hef ég átt samvinnu við Assar Lindbeck prófessor, sem ég nefndi áðan, og höfum við í sameiningu skrifað fjórar ritgerðir um ýmsa fleti á þessu máli. Þrjár þessara greina hafa birzt eða eru í þann veginn að birtast í alþjóðlegum hagfræðitímaritum í Bretlandi, Belgíu og Sviss, hin fjórða og síðasta er á leiðinni.
Við byrjuðum á þessu 1979. Fram að því höfðu þjóðhagfræðingar veitt verkalýðsfélögum tiltölulega litla athygli, sumpart fyrir bandarísk áhrif, býst ég við, en þar í landi er ekki nema fimmti hver vinnandi maður í verkalýðsfélagi. Okkur þótti einsýnt, að víða í Evrópu, til dæmis á Englandi, í Svíþjóð og á Íslandi, er verkalýðshreyfingin sterkari en svo, að hægt sé að horfa fram hjá áhrifum hennar á framvindu efnahagsmála. Í þessum löndum og víðar lætur nærri, að verkalýðshreyfingin hafi haft bolmagn til að ákveða kauplag einhliða á undanförnum árum.
Taugastríð milli ríkisvalds og verkalýðshreyfingar
Og þá vaknar spurningin: Hvað á nú ríkisvaldið að gera, ef verkalýðshreyfingunni hefur tekizt, óvart eða vísvitandi, að knýja fram kauphækkanir, sem eru vinnuveitendum ofviða?
Þessu er vandsvarað. Á ríkisvaldið að láta unda, fella gengið og prenta meiri peninga til að halda fyrirtækjum á floti, jafnvel þótt það kosti vaxandi verðbólgu? Þetta er íslenzka aðferðin. Eða á ríkisvaldið að sitja fast við sinn keip og umbera eitthvert atvinnuleysi um skeið, eða þangað til fólkið, sem missti vinnuna í fyrirtækjum, sem neyddust til að loka vegna kauphækkananna, finnur aðra vinnu?
Þessum spurningum má snúa við: Hvernig á verkalýðshreyfingin að bregðast við einhliða aðgerðum ríkisvaldisins, eins og til dæmis þegar ríkisstjórn Thatchers á Englandi byrjaði að herða skrúfurnar 1979? Eiga verkalýðsfélögin þá að halda að sér höndum og þola kaupmáttarskerðingu í þeirri von, að atvinnuástandið versni þá ekki, eða eiga þau að halda áfram að heimta kauphækkanir í þeirri von, að ríkisstjórnin gefist upp?
Þetta eru erfiðar spurningar, enda er eins konar sálfræðihernaður með í spilinu. Við höfum þess vegna skoðað þennan vanda með aðferðum svonefndrar leikjafræði (game theory). Hernaðarfræðingar og aðrir, sem rannsaka vígbúnaðarkapphlaup stórveldanna, beita svipuðum aðferðum, enda er eðli þess vanda svipað. Að vísu verður fátt um skýr svör, enn sem komið er, en spurningarnar eru býsna góðar. Þessar rannsóknir eru allar á byrjunarstigi. Ég vona, að þær eigi eftir að komast lengra áleiðis á næstu árum, enda er sambúðarvandi ríkisvalds og verkalýðshreyfingar ærinn víða ekki síður en stórveldanna.”
Öryggisnet eða hengirúm?
Svíar eru ágætir.
Fyrir börnin sín, en þeim fer fækkandi, lesa þeir kvöldsögur, þar sem prinsar leysa prinsessur úr álögum – ,,og svo bjuggu þau saman í nokkra mánuði.”
Fyrir unglingana leggja þeir svohljóðandi þrautir á reikningsprófum. ,,Bóndi fór á markað að selja kartöflur. Þær höfðu kostað 80 kr. í framleiðslu, en seldust fyrir l00 kr., þannig að hagnaðurinn varð 20 kr. eða 25%. Strikið undir orðið kartöflur og diskúterið vandamálið við vini ykkar.”
Samt hafa Svíar eignazt marga afreksmenn á alþjóðavettvangi í öllum greinum andlegrar viðleitni, ekki sízt söngvara og lækna. Hitt er líka rétt, að mörgum Svíum hefur þótt andrúmsloftið í landinu svolítið sljóvgandi, jafnvel þrúgandi, á síðustu árum. Er á öðru von, var einu sinni spurt, þegar fólkið er farið að nota öryggisnet velferðarþjóðfélagsins eins og hengirúm?
Anders Hansen tók viðtalið.