Einar Benediktsson í erlendri hagfræðibók
,,ALLT sem eykur hagkvæmni eykur um leið hagvöxt,“ segir Þorvaldur Gylfason prófessor við Háskóla Íslands, hvort sem er baráttan við verðbólgu eða aukinn útflutningur, svo eitthvað sé nefnt. Þetta er hiklaust svar hans við því hvað helst örvi hagvöxt. Skilningur á þessum þáttum er jarðvegur vaxtar og Þorvaldur ályktar sem svo að það ,,að vaxa eða vaxa ekki er að miklu leyti undir vali komið“. Þorvaldur starfar í tengslum við SNS og vann að undirbúningi afmælisráðstefnunnar um skilyrði hagvaxtar. Í tilefni hennar var þess farið á leit við Þorvald að hann skrifaði bók um efnið og úr varð bók á ensku undir heitinu ,,Understanding Economic Growth“.
Bókin er skrifuð í þeim djarflega tón, sem lesendum Morgunblaðsins kemur kunnuglega fyrir sjónir af fjöldamörgum greinum Þorvaldar um hagfræði í blaðið og meira að segja með tilvitnun í Einar Benediktsson úr Íslandsljóði hans. Þó bókin sé hugsuð sem kennslubók fyrir stúdenta í viðskipta- og hagfræði, þá er hún ekki síður áhugaverð fyrir áhugamenn um hagfræði og þjóðmál almennt, enda segist Þorvaldur hafa haft í huga að hún gagnaðist sem víðast. Á næsta ári er endanleg útgáfa bókarinnar væntanleg í samvinnu SNS og Oxford University Press.
Skilningur á eðli hagvaxtar verður æ mikilvægari í hagfræðiumræðu, en Þorvaldur bendir á að samtenging hagþróunar og hagvaxtar sé nýtt fyrirbæri, þó Adam Smith hafa haft þetta í huga þegar fyrir rúmum 200 árum á bók sinni ,,Auðlegð þjóðanna“. Þessi skilningur hefur haft víðtækar afleiðingar á hagstjórn. ,,Augu manna hafa til dæmis opnast fyrir því að ef seðlabanki tekst á við verðbólgu þá bætir það hagvöxt.“ Þetta kann að virðast augljóst í dag, en það er ekki langt síðan verðbólga var álitin ótengd hagvexti. Sama er að segja um samhengi hagvaxtar og útflutnings. Aukinn útflutningur skapar verðmæti, sem ýta undir hagkvæmni og þetta ferli stuðlar að hagvexti.
Skilningur á eðli hagvaxtar getur ýtt undir aðgerðir til að auka hann og slíkt getur haft afgerandi áhrif bæði í fátækum og ríkum löndum. Að mati Þorvaldar liggur von fátækra þjóða einmitt í skilningi á eðli hagvaxtar. Varðandi ríku þjóðirnar hefur það verið umdeilt hvort hægt sé að viðhalda miklum hagvexti eða hvort hægt sé að tala um eitthvert lokastig. Þorvaldur er ekki trúaður á endanlegt lokastig hagvaxtar. ,,Ég sé enga ástæðu til annars en að lönd með mikinn hagvöxt eins og til dæmis Írland geti viðhaldið vexti sínum. Það er enginn ástæða til að ætla að vöxturinn minnki, þó landið nái sama stigi og aðrir, heldur held ég að þar séu allar forsendur fyrir hendi að vöxturinn haldist. Og víst er að auður ríkustu þjóða heims er langt handan drauma Adams Smiths.“
Lærdómurinn af Asíukreppunni
,,Hvað geta iðnríkin lært af Asíukreppunni?“ Þessari spurningu varpaði Þorvaldur Gylfason prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands fram og það stóð ekki á snörpum skoðanaskiptum.
,,Asíulönd sem fylgja ráðleggingum Alþjóða gjaldeyrissjóðsins eru verr stödd en löndin, sem gera það ekki,“ fullyrti Jeffrey Sachs prófessor í hagfræði við Harvard. Við núverandi aðstæður hefði ekkert og enginn getað komið í veg fyrir kreppuna. Of miklu fjármagni hefði verið dembt inn í vaxtarlönd Asíu af of mikilli bjartsýni og um leið og blikur hefðu verið á lofti hefði þetta fjármagn streymt of ört út. Rót vandans lægi á fjármálamörkuðum heimsins.
Percy Barnevik stjórnarformaður ABB varpaði nokkru ljósi á þann fjármagnsflaum, sem kom við sögu í Asíu. ,,Það fljóta 23 trilljónir Bandaríkjadala um heiminn,“ fullyrti hann. Það skortir ekki fjármagn, en fjárflaumur, er leitaði stöðugt nýrrar hafnar, veldur miklum óstöðugleika. Ástandið í löndum, sem laða að sér þetta óstöðuga fjármagn, verður heldur ekki stöðugt.
Við þessar aðstæður fór gjaldeyrissjóðurinn illa að ráði sínu að mati Sachs og Barnevik. ,,Hvað gerir maður þegar maður sér slökkviliðið við húsið sitt?“ spurði Sachs. ,,Maður forðar sér, ekki satt.“ Og það var einmitt það sem fjármagnseigendur gerðu. Þeir drógu fé sitt út í skyndi og um leið herti kreppuna. ,,Lönd undir gjörgæslu sjóðsins ramba á barmi glötunar,“ fullyrti Sachs.
Undir þessu sat Michael Mussa yfirmaður rannsóknadeildar gjaldeyrissjóðsins og undirstrikaði nauðsyn þess að gera sér raunhæfa mynd af ástandinu, en hafði annars ekki roð við snörpum athugasemdum Sachs.
Sachs var heldur ekki mjúkorður í garð Bandaríkjanna, sem gerðu sitt til að ýta undir erfiðleika Japans, lykillands Asíu, og þar með Asíu allrar með því að spyrna gegn gengislækkun jensins. Bandaríkin væru mótfallin gengislækkun til að ýta ekki undir frekari viðskiptahalla gagnvart Japan og almennt væru Bandaríkin of stjórnsöm á alþjóðavettvangi.
,,Vandi Japana snýst ekki um gengi. Þeir hafa einfaldlega verið heppnir lengi, því meginvandi þeirra er að það er ekkert almennilegt stjórnkerfi í japönskum fyrirtækjum,“ fullyrðir Michael C. Jensen prófessor við Harvard Business School. Stjórnendur fyrirtækjanna beri ekki skyn á hvað skapi vöxt og noti enn þumalputtaregluna. Eina eftirlitskerfið séu bankarnir. Bankakerfið sé hins vegar ekki orsök vandans, heldur einkenni hans. ,,Japanir eiga eftir að takast á við risavaxna aðlögun og útkoman er enn ekki ljós.“
21. öldin: Öld Asíu
,,En er þá rangt að trúa á Asíu?“ spurði breski bankamaðurinn Sir William Purves, sem búið hefur í Asíu um langan aldur. Svar hans var neitandi. Kreppan væri bara svar við oflánastefnu og kerfisgöllum, sem kreppan þrýsti á um að leiðrétta. Of mörg lönd í Asíu tækju ákvarðanir á pólitískum fremur en efnahagslegum forsendum og skortur væri á gagnsæi. Góð vaxtarskilyrði væru hins vegar fyrir hendi, til dæmis skilningur á menntun. Þau Asíulönd, sem stefndu á afnám hafta, aukið gagnsæi, fríverslun, menntun og minni afskipti ríkisins af iðnaði og atvinnulífi ættu góða daga framundan.
Percy Barnevik trúir einnig á framtíð Asíu. ,,Næsta öld er öld Asíu,“ fullyrðir hann. Hann tekur dæmi af umsvifum ABB á Indlandi, sem óðum sé að iðnvæðast. Þar unnu 500 manns á vegum ABB fyrir tuttugu árum. Nú vinna ellefu þúsund manns þar og hann er sannfærður um að eftir tíu ár verði starfsmenn ABB þar fjörutíu þúsund manns. ,,Það er enn of snemmt að meta áhrif frönsku byltingarinnar,“ sagði sagnfræðingur nokkur við Barnevik, sem gerir þessi orð að sínum. ,,Við höfum enn ekki skilið það sem fram fer í kringum okkur,“ bætir hann við, en veðjar þó óhikað á glæsta framtíð Asíu.
Texti: Sigrún Davíðsdóttir.