Helgarpósturinn
8. feb, 1996

Efnahagsbatinn minnir á uppsveifluna í Sovétríkjum Stalíns

Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor vandar stjórnmála- og embættismönnum ekki kveðjurnar í nýjustu bók sinni Síðustu forvöð. Í hressilegu viðtali við Gísla Þorsteinsson tjáir Þorvaldur sig um rótgróinn vanda íslensks efnahagslífs og bendir á að sá efnahagsbati sem stjórnmálamenn hafi boðað sé aðeins tímabundinn; batinn minni sig reyndar einna helst á aðgerðir kommúnista í Sovétríkjunum til að glæða efnahagslífið á valdatíma Stalíns. Þorvaldur kveður róttækar breytingar á efnahags- og stjórnmálalífi landsins nauðsynlegar, annars dragist Íslendingar aftur úr öðrum þjóðum í lífskjörum.

Það er ekki oft sem óútkomin bók um efnahagsmál vekur umtal í fjölmiðlum. Það gerðist hins vegar með Síðustu forvöð, væntanlega bók doktors Þorvalds Gylfasonar hagfræðings, sem var nokkuð í umræðunni í vikunni sem leið, ekki síst fyrir ákveðnar skoðanir hans á efnahagsmálum landsins. Þorvaldur dregur stjórnmálamenn og embættismenn til ábyrgðar og sakar þá um vankunnáttu á íslensku efnahagslífi. Meðal annars gagnrýnir hann stjórnun Seðlabanka Íslands og segir bankann aldrei hafa verið hallari undir sértæka stjórnmálahagsmuni en nú. Bendir hann þannig á að ekkert hafi heyrst frá bankanum þó að banka- og sjóðakerfi landsmanna hafi tapað 50 milljörðum frá árinu 1987. Þessar athugasemdir vöktu reiði Birgis Ísleifs Gunnarssonar, bankastjóra Seðlabankans, sem sagði í einu dagblaðanna að gagnrýni Þorvalds byggðist á sleggjudómum og bæri vott um vanþekkingu á málefnum bankans.

Í bókinni Síðustu forvöð bendir Þorvaldur á að laun á Íslandi séu með þeim lægstu innan Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD). Rætur vandans liggi í stuttu máli í óhagkvæmni í landbúnaði, sjávarútvegi og bankakerfinu auk miðstýringar á vinnumarkaði. Hann telur að tímabundinn afli í Smugunni og framkvæmdir við álverið í Straumsvík sé ekki lausnin á efnahagsvanda þjóðarinnar. Sá efnahagsbati sem stjórnmálamenn tala um sé tímabundinn. Gera verði gagngerar breytingar á efnahags- og stjórnmálalífi landsins, annars muni Íslendingar sitja eftir miðað við aðrar þjóðir í lífskjörum. Nú séu síðustu forvöð.

Varnaðarorð Þorvalds Gylfasonar eru um margt athyglisverð. Sama dag og bókin kom út tók blaðamaður Helgarpóstsins hús á honum á skrifstofu hans í Odda og krafði hann sagna um þau ummæli sem hann lætur falla í bókinni um stjórnmálamenn, embættismenn og vanda íslensks efnahagslífs.

Fjórþættur vandi íslensks efnahagslífs

Þú segir í inngangi bókarinnar að henni sé ætlað að vekja fólk til umhugsunar. Er fólk ekki nægilega meðvitað um efnahagsmál?

,,Það sem vakir fyrir mér er að skýra efnahagslífið hér á landi og í ýmsum öðrum löndum nær og fjær fyrir lesandann á aðgengilegan hátt. Bókin er ekki bundin við Ísland eitt sér heldur einnig við umheiminn. Austur-Evrópa og Austur-Asía koma mikið við sögu, en þar hafa verið að gerast mjög merkilegir hlutir undanfarin ár og áratugi, sem við Íslendingar getum lært mikið af. Mér hefur fundist að stjórnvöld hér heima dragi ekki alveg réttar ályktanir af efnahagsþróuninni úti í heimi. Þeir frjálsræðisvindar sem hafa blásið um gjörvallan heimsbúskapinn undanfarin ár hafa ekki náð að leika nóg um íslenskt efnahagslíf. Nokkrar framfarir hafa orðið, en engu að síður höldum við áfram að dragast aftur úr öðrum þjóðum, ekki síst vegna þess að aðrar þjóðir hafa lagt meiri áherslu á frjálsan markaðsbúskap en við. Í bókinni færi ég rök að þeirri skoðun að rætur efnahagsvandans hér heima liggi djúpt í innviðum þjóðfélagsins, viðhorfum og hugarfari og teygi anga sína langt aftur í tímann og róttækra efnahags- og stjórnarfarsumbóta sé þörf til að leiða þjóðina út úr ógöngunum.”

Þú ert þá að tala um þann vanda sem steðjar að bankakerfinu, sjávarútveginum, landbúnaðinum og vinnumarkaðinum?

,,Já, það er þessi fjórþætti vandi sem er mér efstur í huga og ég hef fjallað um hann í fyrri bókum mínum. Landbúnaðarvandinn og skipulagsvandinn á vinnumarkaðinum er í raun evrópskur í eðli sínu. Fjölmörg lönd í Evrópu eiga við mikla erfiðleika að glíma á þessum vígstöðvum. Munurinn á Evrópulöndunum og okkur er sá að þar er þessi vandi viðurkenndur og ráðamenn reyna eftir megni að leysa hann. Evrópusambandið er til dæmis nýbúið að söðla um í málflutningi um málefni vinnumarkaðarins. Nú liggur fyrir vilja- og stefnuyfirlýsing Evrópusambandsins um að ósveigjanleikinn og miðstýringarvandinn á evrópskum vinnumarkaði hafi átt mikinn þátt í því atvinnuleysi sem hefur herjað á evrópsk samfélög með hörmulegum afleiðingum í hálfan annan áratug. Evrópusambandið hefur nú stigið fyrsta skrefið og það næsta verður að gera ráðstafanir til að draga úr miðstýringu og auka sveigjanleika, jafnvel þótt sumir hagsmunaaðilar á vinnumarkaði berjist gegn því. Það sama gildir um landbúnaðarvandann. Allar ríkisstjórnir úti í Evrópu viðurkenna að hann sé verulegur og búverndin kosti allt of mikið fé. Ráðamenn í þessum löndum eru nú að leita leiða út úr þessum vanda.

Hér á landi tengist vandi landbúnaðarins einnig öðrum viðfangsefnum stjórnvalda. Það má segja að hallarekstur ríkisins sé mun meiri en hann hefði orðið ef landbúnaðarstefnan hefði verið léttari á fóðrum. Íslendingar verða því að skoða sinn landbúnaðarvanda í samhengi við ríkisfjármálavandann og stefnuna í peningamálum. Því miður hefur mér fundist vanta á að stjórnvöld viðurkenndu vandann sem er við að glíma á þessum tveimur sviðum, í landbúnaði og á vinnumarkaði, og einnig að nógu skynsamlegar umræður um hann færu fram. Ég færi rök fyrir því að fjármálaráðuneytið og jafnvel Seðlabanki Íslands ættu að láta stefnuna í landbúnaðarmálum til sín taka, þó að forráðmenn seðlabanka í nálægum löndum hafi ekki jafnríka ástæðu til að gera slíkt hið sama. Hér á landi er landbúnaðarvandinn meiri en annars staðar og smitar þar af leiðandi út frá sér yfir í aðra þætti hagstjórnarstefnunnar.

Skipulagsvandinn í bankakerfinu og vandi sjávarútvegsins er séríslenskur. Sjávarútvegur skipar meiri sess í þjóðarbúskapnum hér á landi en annars staðar. Það er því enginn sambærilegur sjávarútvegsvandi til meðal sjálfstæðra þjóða úti í heimi eins og hér heima. Spurningin um veiðigjald brennur því ekki heitt á þjóðum eins og Spánverjum eða Norðmönnum. Það sama gildir um rekstur banka. Það þekkist hvergi annars staðar í nálægum löndum að stjórnmálaflokkar og -menn hafi jafnmikil ítök í fjármálakerfinu eins og hér á landi. Þetta er mikill vandi og hann birtist sumpart í því að bankar og sjóðir hafa samkvæmt nýjustu tölum Seðlabanka Íslands þurft að afskrifa 50 milljarða króna á síðastliðnum sex árum. Það jafngildir 800 þúsund krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu á þessu tímabili. Stjórnvöld eiga ekki að gera lítið úr þessari staðreynd, heldur eiga þau að reyna að vekja og verðskulda traust almennings með því að skýra frá aðgerðum til að koma í veg fyrir vandann.”

Sjávarútvegur er ofmetin atvinnugrein

Framtíðin virðist ekki björt. Geta Íslendingar átt von á svipaðri kollsteypu og Færeyingar urðu fyrir?

,,Þrátt fyrir erfiðleika undanfarinna ára erum við betur sett en Færeyingar. Þeir eru miklu háðari sjávarútvegi en við og hann er eini útflutningsatvinnuvegur þeirra, fyrir utan smávægilega frímerkjasölu. Sjávarútvegurinn hér á landi er 1/6 hluti af þjóðarframleiðslu og helmingur af útflutningi. Jafnvel þótt við yrðum fyrir sams konar áfalli í sjávarútvegi og Færeyingar urðu fyrir, þá myndi það ekki draga íslenska þjóðarbúskapinn jafnlangt niður og þann færeyska. Sjávarútvegur er hins vegar ennþá of mikilvægur í okkar þjóðarbúskap vegna þess að okkur hefur láðst, þrátt fyrir ítrekaðar heitstrengingar um hið gagnstæða, að renna stoðum undir aðra atvinnuvegi. Þeir sem hafa skoðað auðlindahagkerfi úti í heimi hafa tekið eftir því að þær þjóðir, sem hafa lagt mikið upp úr auðlindum eins og fiski og olíu, eiga yfirleitt við mikinn vanda að etja. Nígería flytur mikið út af olíu og er ríkasta land í Afríku þannig séð, en þar er viðvarandi kreppa í efnahagsmálum. Meira að segja Sádi-Arabar, sem byggja efnahagslífið á olíu, eiga við alvarlegan efnahagsvanda að etja. Þau lönd sem byggja mikið á auðlindum, hvort sem það er olía eða fiskur, hafa ekki náð að koma sambúð auðlindarinnar og annarra atvinnugreina í eðlilegt horf.”

Í bókinni þinni kemur fram að sjávarútvegur sé ekki nema 16% af þjóðarframleiðslu en almenningur virðist halda að hann sé mun meir, hvað veldur þessum ranghugmyndum?

,,Það kveður nú reyndar svo rammt að þessu að Jacques Delors, þáverandi forseti Evrópusambandsins, sagði eitt sinn í ræðu að sjárútvegur næmi 80% af þjóðarframleiðslu Íslendinga. Þessar upplýsingar hlýtur hann að hafa haft frá íslenskum aðilum. Það er afar óheppilegt í ljósi þess að næstum 90% þjóðarinnar vinna við allt annað en fisk. Í fréttum útvarps og sjónvarps er fjallað um sjávarútveg eins og hann sé upphaf og endir alls lífs í landinu. Hagsmunaaðilum í sjávarútvegi eru því færð meiri völd og áhrif í samfélaginu en heppilegt og heilbrigt getur talist. Þetta er ein skýringin á því að stærstu stjórnmálaflokkarnir eru ekki fylgjandi veiðigjaldi, jafnvel þótt tveir þriðju þjóðarinnar séu hlynntir gjaldi.”

Hvað finnst þér sem kennara um þann niðurskurð sem skólar á háskólastigi og aðrir skólar hafa sætt að undanförnu?

,,Þessi langvarandi niðurskurður getur haft alvarlegar afleiðingar. Niðurskurður er óskynsamleg leið út úr rekstrarvanda ríkisins. Uppskurður er vænlegri til árangurs, það er að segja: að endurskipuleggja og hagræða. Háskóli Íslands hefur gert margt vel á því sviði. Í hagfræðiskor Háskólans höfum við til dæmis stytt námið til fyrsta háskólaprófs úr fjórum árum í þrjú. Kennarar í deildinni eru þeirrar skoðunar að við búum nú yfirleitt til betri hagfræðinga en við gerðum áður og það á styttri námstíma. Þessi hagræðing lýsir sér í því að kostnaðurinn, sem skattgreiðendur bera af hverjum útskrifuðum hagfræðingi, er mun minni en áður og um leið spörum við nemandanum eitt ár, sem hann getur nýtt sér á vinnumarkaðinum eða til að fara í framhaldsnám hér heima eða erlendis. Það hefur einnig orðið mikil hagræðing innan annarra deilda háskólans á síðustu árum.”

Hvernig heldurðu að Háskóli Íslands standi í samanburði við háskóla erlendis?

,,Háskólinn er mjög góður í samanburði við góða erlenda háskóla. Margir starfsmenn hans eru eftirsóttir í erlendum háskólum. Bestu nemendur hér fá inngöngu í góða erlenda háskóla í framhaldsnám þar sem samkeppnin er gífurlega hörð og aðeins brot af umsækjendum kemst að. Fjöldi íslenskra námsmanna er í framhaldsnámi erlendis og þeir koma vonandi aftur heim og láta gott af sér leiða. Ef okkur tekst ekki að leysa þennan fjórþætta vanda, sem við töluðum um áðan, þá dvínar aðdráttarafl landsins á ungt fólk. Ég vona að menn sjái að sér.

Landflótti ungs fólks

Eru þá framtíðarmöguleikar ungs fólks ekki miklir hér á landi?

,,Ég er bjartsýnn fyrir hönd ungs fólks. En sú bjartsýni byggist á því að sú kynslóð Íslendinga, sem er á miðjum aldri og yngri, muni grípa í taumana og breyta því ástandi sem hér ríkir. Ég er sannfærður um að boðskapurinn í þessari bók mun þykja sjálfsögð stjórnarstefna í landinu eftir tíu til tuttugu ár, kannski fyrr. Ég óttast það hins vegar að þeim, sem hafa hag af óbreyttu ástandi, muni takast enn um sinn að tefja og spilla fyrir nauðsynlegum umbótum. Við getum því átt von á því að dragast enn frekar aftur úr öðrum þjóðum áður en við förum að sækja í okkur veðrið.”

Vanhæfir stjórnmálamenn

Ef við snúum okkur að ummælum Birgis Ísleifs Gunnarssonar, bankastjóra í Seðlabanka Íslands, í síðustu viku. Hann sagði meðal annars að gagnrýni þín á Seðlabankann væri órökstudd og bæri vott um vanþekkingu.

,,Ég hef ekkert um þessi ummæli að segja. Þau snerta mig ekki.”

Einnig hefur þú látið þau orð falla að það sé lýsandi fyrir íslensk efnahagsmál að sá stjórnmálaleiðtogi, sem jafnan hefur fjallað óskynsamlega um efnahags- og fjármál þjóðarinnar á undanförnum árum, sé orðinn bankastjóri í Seðlabanka Íslands …

,,Útnefningarspillingin, sem ég fjalla um í bókinni, er eitt af hnignunareinkennum efnahagslífsins og veldur skynsömu fólki þungum áhyggjum. Það ber því að skoða þessi ummæli mín sem varnaðarorð og hvatningu til fólks að halda vöku sinni og halda áfram að reyna að bæta lífið í landinu.”

Hvernig sérðu fyrir þér hlutverk Seðlabanka Íslands?

,,Erlendis, og sérstaklega í Evrópu, hafa stjórnvöld aukið verulega sjálfstæði seðlabankanna í stjórnkerfinu. Ástæðan fyrir þessari breytingu er of mikil verðbólga í þessum löndum á níunda áratugnum. Það þótti óheppilegt að láta stjórnmálamenn stýra seðlabönkunum og leggja fyrir þá freistinguna að hækka verðlag með of mikilli peningaprentun. Nú eru reyndir kunnáttumenn, sem eru iðulega óháðir ríkjandi stjórnmálahagsmunum, yfirleitt fengnir til að stjórna seðlabönkum víðs vegar um heiminn. Stjórnmálamenn hafa því ekki lengur sama aðgang að seðlabönkum og áður og geta ekki knúið fram aukna peningaprentun og verðbólgu. Til þess er leikurinn gerður. Seðlabanki getur ekki veitt ríkisstjórn nauðsynlegt aðhald nema hann sé sjálfstæður. Þessi sjónarmið njóta alls staðar viðurkenningar á OECD-svæðinu nema hér á landi. Á Nýja-Sjálandi er seðlabankastjóra sagt upp starfi ef verðbólgan fer yfir ákveðin mörk. Þessi skipan sem þekkist hér er óþekkt í nálægum löndum. Á síðustu árum hafa alþjóðastofnanir sýnt íslenskum stjórnvöldum meira og sýnilegra aðhald en áður. Embættisstofnanir eins og OECD og GATT hafa til dæmis fett fingur út í stefnu stjórnvalda. Þannig eiga embættisstofnanir að vera. Ég vona að það fordæmi, sem erlendar embættisstofnanir hafa sýnt, muni styrkja og bæta efnahagsráðgjöfina innan stjórnkerfisins.”

Nauðsynleg einkavæðing ríkisbankanna

Stutt er síðan ríki Austur-Evrópu losuðu sig við miðstýringarvald sósíalismans og fetuðu sig á braut frjáls markaðsbúskapar. Ein slík breyting er einkavæðing ríkisbanka, sem meira að segja kommúnistar á Ítalíu hafa léð máls á. Hér á landi er umræðan skammt á veg komin og bera margir fyrir sig að bankarnir kæmust í hendur fárra einstaklinga. Hvað finnst þér um umræðuna hér á landi?

,,Það er bráðnauðsynlegt að breyta eignarhaldi og rekstri ríkisbankanna og færa þá yfir í einkaeign. Hægt er að koma í veg fyrir að bankarnir safnist á hendur fárra manna með útgáfu kaupréttarseðla eins og gert er í Austur-Evrópu. Þá fengi hver Íslendingur sína hlutdeild í ríkisbönkunum. Slík skírteini gætu síðan gengið kaupum og sölum á frjálsum markaði. Á meðan við Íslendingar höfum verið að þrefa um hvort einkavæða skuli ríkisbankana eða ekki hafa til dæmis Tékkar einkavætt allt sitt bankakerfi. Einkabankar voru bannaðir þar í landi fyrir örfáum árum. Þetta sýnir að það er hægt að ráðast í skjótar umbætur sem bera mikinn árangur á skömmum tíma.”

Illa upplýstir valdhafar

Þú fjallar nokkuð um þátt stjórnmála- og embættismanna í efnahagsstjórn landsins. Á einum stað stendur að þáverandi landbúnaðarráðherra þekki hvorki haus né sporð á landbúnaðarmálum. Finnst þér að vankunnátta sé ríkjandi hjá fleiri ráðamönnum þjóðarinnar?

,,Mér hefur fundist að sumir þeirra sem fara með húsbóndavaldið í stjórnkerfinu séu oft ekki nægilega vel upplýstir. Við fyrstu sýn virðist það stafa af landlægu virðingarleysi gagnvart hagfræði, sem er svolítið sérkennilegt í ljósi þess að fyrsti íslenski hagfræðingurinn var enginn annar en Jón Sigurðsson forseti. En almennt skeytingarleysi um hagfræði má rekja til alvarlegrar slagsíðu í skólakerfinu hér á landi og einnig úti í Evrópu. Í framhaldsskólunum eru nemendum kennd býsn í raunvísindum, eins og eðlis- og efnafræði og stærðfræði. Ástandið er svipað víða annars staðar í Evrópu þótt vandinn sé ekki eins mikill þar og hér. Í Bandaríkjunum eru námsmenn mun betur að sér í hagfræði. Þar les næstum helmingur æskufólks jafnmikla hagfræði og kennd er á fyrsta námsári í hagfræðideildum í evrópskum háskólum. Meirihluti þingmanna á Bandaríkjaþingi kann hagfræði og veit því hvernig markaðslögmálin virka. Það þýðir ekki fyrir þingmann í Washington að segja í ræðustól að á renni uppí móti. Hann yrði kveðinn í kútinn um leið. Slíkt aðhald vantar hér. Ég hygg að það sé almenn skoðun meðal íslenskra hagfræðinga að eitt brýnasta verkefni okkar í framtíðinni sé að fá því framgengt að hagfræði, ásamt öðrum félagsvísindum, sé gert hærra undir höfði í námsefni framhaldsskólanna.. Það þarf að vera betra jafnvægi á milli félagsvísinda og raunvísinda í skólum, ekki aðeins til að efla almenna þekkingu á hagfræði og félagsvísindum, heldur einnig svo fólk geti áttað sig betur á réttu og röngu í umræðum um efnahagsmál og svo lýðskrumurum sé haldið í hæfilegri fjarlægð. Lífskjör í landinu gætu batnað verulega ef þjóðin væri betur upplýst um hagfræði og efnahagsmál. Þannig væri hægt að koma í veg fyrir margar óskynsamlegar ákvarðanir, sem oft eru byggðar á vanþekkingu og virðingarleysi gagnvart einföldum sannindum.”

Ofmetinn efnahagsbati

Að undanförnu hafa þingmenn og ráðherrar komið fram í sjónvarpi og sagt að nú sé bjart framundan og kreppan sé að baki. Þú segir hins vegar að efnahagsbatinn sé aðeins tímabundinn?

,,Efnahagsbatann má rekja til tveggja meginþátta. Í fyrsta lagi til veiða í Smugunni, sem flestir vita að eru tímabundnar. Annað hvort hrekja Norðmenn og Rússar okkur burt úr Smugunni eða hún tæmist að fiski á fáum árum. Í öðru lagi er það stækkun álversins í Straumsvík. Mér hefur fundist það miður að engar upplýsingar hafa birst um hagkvæmni þessara framkvæmda. Slíkar upplýsingar verða að vera til staðar ef við viljum vita hvort þessar framkvæmdir skili okkur bættum hag þegar fram líða stundir. Sú hugsun sem býr að baki yfirlýsingum um bættan hag vegna Straumsvíkurframkvæmda er að framkvæmdirnar sjálfar glæði efnahagslífið. Þetta minnir mig svolítið á uppsveifluna í Sovétríkjunum á valdatíma Stalíns. Hún var mikil vegna þess að Sovétmenn byggðu mikið af alls kyns iðjuverum. Þessum framkvæmdum fylgdi mikil tekjuaukning þar í landi og því héldu sumir að Sovétríkin væru betur stödd efnahagslega en Bandaríkin fyrr á öldinni. Svo kom í ljós að þessu iðjuver voru vita gagnslaus: fjárfestingin bar ekki arð, hún skapaði ekki neitt nýtilegt fjármagn. Nú er ég ekki að líkja Straumsvíkurframkvæmdunum við sovésk iðjuver, heldur aðeins að vekja athygli á því að hagurinn af slíkum framkvæmdum ræðst ekki af þeim tekjum sem fást af framkvæmdinni sjálfri. Hagurinn ræðst af hagkvæmni þeirrar framleiðslu sem verksmiðjan skilar þegar upp er staðið.

Þú minntist hér á undan á Jón Sigurðsson, en hann var boðberi frjálsra viðskipta. Íslendingar hafa ekki alltaf fylgt eftir  hugmyndum hans, oft með slæmum afleiðingum. Hafa Íslendingar ekki dregið lærdóm af þeim mistökum sem þeir hafa gert í efnahagsmálum í gegnum ári?

,,Sverrir Jakobsson sagnfræðingur hefur sagt að það sé ekki nóg að eiga frábæran leiðtoga heldur verði menn að hlusta á hann. Sagnfræðingurinn átti þarna við Jón Sigurðsson forseta. Jóni er lýst í skyldunámsefni barna- og gagnfræðaskóla sem þjóðfrelsishetju og þjóðernissinna og það er alveg rétt lýsing. Hann var líka viðskiptafrelsissinni og hagfrelsishetja, en um það eru ekki höfð mörg orð í kennslubókum. Íslendingar hafa alist upp við ranga mynd af Jóni og yfirleitt ekki áttað sig á merku framlagi hans til efnahagsmála. Vanþekking Íslendinga um skoðanir Jóns var vatn á myllu þeirra sem reyrðu efnahagslíf landsins í fjötra seint á þriðja áratugnum. Einn af aðalarkitektum haftabúskaparins á sínum tíma var einmitt sá sem skrifaði Íslandssögubækur fyrir börn og unglinga: Jónas Jónsson frá Hriflu.”

Útflutningssókn lykillinn

Getum við dregið einhvern lærdóm af efnahagsuppganginum sem á sér stað í Austu-Asíu?

,,Já það getum við. Tökum Hong Kong sem dæmi. Í upphafi aldarinnar var Hong Kong bláfátækt og frumstætt fiskimannaþorp. Íbúarnir drógu smám saman úr vægi sjávarútvegs, gættu þess ætíð að gengi gjaldmiðilsins væri rétt og skynsamlega skráð og misstu ekki tök á verðbólgunni. Í dag er Hong Kong eitt ríkasta land í heimi. Þeir eru komnir fram úr bæði móðurlandinu Bretlandi og okkur hér. Þeir leggja mikla rækt við útflutning, sem er mjög mikill miðað við framleiðslu og fer sívaxandi. Þessi útflutningssókn hefur verið lykillinn að framsókn Hong Kong og margra annarra Austur-Asíulanda til betri lífskjara á liðnum árum. Við Íslendingar þurfum að taka okkur sams konar tak og Austur-Asíuþjóðirnar gerðu á sínum tíma. Við getum einnig tekið nærtækara dæmi. Írar flytja út helmingi meira af vöru og þjónustu miðað við landsframleiðslu en við gerum. Okkar útflutningur hefur hangið fastur í kringum þriðjung af landsframleiðslu í hálfa öld, á sama tíma og útflutningshlutfallið hefur farið vaxandi annars staðar í heiminum. Útflutningssókn Íra hefur verið ein meginskýringin á batnandi efnahag þeirra síðan 1980, mesta hagvexti í allri Evrópu. Írar hafa leyst marga af þeim hnútum sem hnýttir voru með hörmulegum afleiðingum fyrir írskt efnahagslíf fyrr á öldinni. Þeir gengu ótrauðir inn í Evrópusambandið og hafa notið góðs af því. Þeir hafa ekki bara notið styrkja eins og Portúgalar og Grikkir, heldur hafa þeir notað félagsskap annarra Evrópuþjóða til að styrkja sig gegn þeim sem standa gegn efnahagsumbótum á Írlandi. Það er mikill hugur í Írum þrátt fyrir mikið atvinnuleysi

Felst lausnin fyrir okkur Íslendinga í að ganga í Evrópusambandið?

,,Ég hef aldrei svarað þessari spurningu af eða á, því að hér er í mörg horn að líta. En þar sem okkur hefur ekki tekist að nýta þann meðvind sem íslenskt efnahagslíf hafði síðastliðin fimm til tíu ár sýnist mér hyggilegast að undirbúa aðildarumsókn, úr því sem komið er. Slíkri aðild fylgja ýmsar hættur, en kostirnir eru sennilega veigameiri en gallarnir.”

Snúum vörn í sókn

Nú eru margar þjóðir í Austur-Asíu komnar fram úr mörgum vestrænum þjóðum í efnahagslegum skilningi. Eru vestrænar þjóðir ekki lengur það forystuafl sem þær voru?

,,Fyrir 25 árum var þjóðarframleiðsla Bandaríkjanna helmingur af heimsframleiðslunni. Í dag standa Bandaríkjamenn á bak við fimmtung af þjóðarframleiðslu heimsins. Veldi þeirra hefur því dvínað og það sama má segja um Evrópu. Samruni Evrópuríkja er í aðra röndina tilraun til að bregðast við þessari þróun. Það sem er einna merkilegast í heimsbúskapnum er framsókn þróunarlandanna til betri lífskjara í Asíu, Suður-Ameríku og sums staðar í Afríku. Til marks um það hefur Botsvana búið við einna mestan hagvöxt í heiminum síðastliðin 15-20 ár. Því fer fjarri að Afríka hafi farið varhluta af þeirri umbótaöldu sem riðið hefur yfir heiminn síðastliðinn áratug. En við Íslendingar sitjum eftir. Við verðum að snúa vörn í sókn,” segir Þorvaldur Gylfason, sem vonar að bók hans veki fólk til umhugsunar um afkomu þess í landinu í náinni framtíð.

Gísli Þorsteinsson tók viðtalið.