8. júl, 2005

Efnahagsástandið: Hvað er að gerast?

Mynd 45. Hvernig er hægt að lýsa núverandi efnahagsástandi hér heima fyrir hagfræðinemum með þeim tækjum og tólum, sem þeim eru tömust? — ástandi, þar sem krónan er undir þrýstingi og talsverð óvissa ríkir um nánustu framtíð á gjaldeyrismarkaði og í efnahagslífinu almennt. Sagan hefst í punktinum A á myndinni, þar sem efnahagslífið er í jafnvægi við fulla atvinnu og vextir eru hinir sömu heima og erlendis (i*). IS-kúrfan lýsir jafnvægi á vörumarkaði og sker LM-kúrfuna, sem lýsir jafnvægi á peningamarkaði, í punktinum A. Verðbólgan er hin sama innan lands og utan (p = p*), þegar sagan hefst, gengið er fast, og vextir eru þá einnig hinir sömu heima og erlendis. Næst gerist það, að bjartsýnisalda ríður yfir hagkerfið, svo að einkaneyzla og fjárfesting taka fjörkipp. Bláa örin sýnir, hvernig aukin eftirspurn flytur IS-kúrfuna til hægri. Vaxtahækkun af völdum aukinnar efirspurnar kallar á aukið innstreymi lánsfjár erlendis frá, því að vaxtakjörin þar eru nú orðin hagstæðari en hér heima. Innstreymi erlends lánsfjár eykur peningamagn í umferð, svo að LM-kúrfan flyzt til hægri (gula örin), þangað til IS-kúrfan og LM-kúrfan skerast að nýju í punktinum B. En nú er hagkerfið ofhitað: landsframleiðslan getur ekki haldizt ofan við fulla framleiðslugetu (YF) eins og í upphafspunktinum A nema skamma hríð. Þenslan veldur því, að verðbólga byrjar að aukast, svo að traust manna á því, að gengi krónunnar geti haldizt óbreytt, byrjar að dvína. Til að laða enn meira erlent fé til landsins og styrkja gengið með því móti hækkar Seðlabankinn vexti hér heima upp fyrir vexti í útlöndum. Lárétta kúrfan, sem lýsir vaxtastiginu, flyzt því upp á við sem nemur muninum á verðbólgunni hér heima og erlendis, eins og svarta örin meðfram lóðrétta ásnum sýnir. Þessi vaxta- og verðbólgumunur endurspeglar það gengisfall, sem vænta má, ef annað gerist ekki. Þegar fleiri og fleiri byrja að eiga von á því, að gengið falli, þá snýst fjárstreymið við: menn flytja nú fé sitt úr landi til að forða því undan væntanlegu gengisfalli. LM-kúrfan flyzt því til vinstri, eins og rauða örin sýnir. Hækkun verðlags hér heima flýtir þessari þróun. Ef gengið fellur á endanum, þá flyzt IS-kúrfan til lengra til hægri (græna örin), af því að gengislækkun örvar útflutning og eftirspurn og dregur úr innflutningi, og nýju jafnvægi er náð í punktinum C. Þar eru vextir og verðbólga meiri hér heima en erlendis, og landsframleiðslan er komin niður fyrir fulla atvinnu. Þannig getur uppsveifla í eftirspurn, sem kom skriðunni af stað, leitt til niðursveiflu í efnahagslífinu, þótt undarlegt megi virðast. Lykillinn að þessari atburðarás felst í frjálsum fjármagnsflutningum milli landa. Væru fjármagnsflutningar ekki frjálsir, hefði atburðaráðsin orðið önnur: þá hefði uppsveiflan í einkageiranum leitt til aukinnar verðbólgu, eins og í dæminu að ofan, og raungengishækkunin af þeim sökum hefði dregið úr útflutningi, svo að IS-kúrfan hefði snúið aftur í upphafsstöðu og landsframleiðslan hefði snúið aftur í upphafspunktinn A. Landsframleiðslan væri því óbreytt, en samsetning hennar væri önnur (meiri neyzla og fjárfesting, minni útflutningur) og verðbólgan meiri. Við frjálsa fjármagnsflutninga eru einstaklingar og fyrirtæki frjáls að því að reyna að skjóta sér undan gengistapi, sem í vændum er með réttu eða röngu vegna aukinnar verðbólgu. Þess vegna er hagkerfið miklu næmara en ella fyrir sveiflum í eftirspurn. Og þess vegna getur uppsveifla í eftirspurn kallað á viðbrögð, sem leiða til ,,harðrar lendingar“, svo að hagkerfið hægir á sér í skyndingu og lendir í lægð með auknu atvinnuleysi samfara aukinni verðbólgu. Þegar þessi ferill er kominn af stað, getur verið mjög erfitt að ráða við hann. Þess vegna var brýnt að haga hagstjórninni svo, að þessi viðburðarás færi ekki af stað. Það þurfti að bregðast við útgjaldagleði og meðfylgjandi skuldasöfnun heimila og fyrirtækja strax í upphafi. Það brást. Stjórnvöld gerðu lítið úr öllum viðvörunum innlendra hagfræðinga og alþjóðastofnana vegna þensluhættunnar. Þau héldu því statt og stöðugt fram, að allt væri í himnalagi, og gera það enn. Því hlaut að fara sem fór: að gengi krónunnar lækkaði og Seðlabankinn þyrfti að stofna til nýrra skammtímaskulda í útlöndum til að verja krónuna frekara falli. Gjaldeyrisforðinn er nú svo rýr, að Seðlabankinn vill helzt ekki snerta hann og tekur því lán í útlöndum til að verja krónuna. Þessi skammtímalán munu að miklum líkindum bætast við langtímalán þjóðarbúsins, þegar frá líður, því að lítil von virðist vera til þess, að gengi krónunnar styrkist, svo að hægt sé að endurgreiða lánin. Það verður í bezta falli hægt að halda í horfinu enn um sinn með enn auknum lántökum erlendis. Hitt virðist þó líklegast, úr því sem komið er, að gengi krónunnar falli fyrr eða síðar talsvert umfram það gengisfall, sem orðið er.