DV
9. maí, 2007

DV um skatta

Hvernig hefur skattprósentan breyst?
Mér þykir eðlilegast að skilgreina skattprósentuna eins og gert er í skýrslum Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) í París, því að þá er auðvelt að bera þróunina í skattamálum hér heima við þróunina í öðrum OECD-löndum. Þannig er hægt að sjá, hvar við stöndum í samanburði við aðra. Þeir hjá OECD skoða skattheimtuna í víðum skilningi eins og vera ber og taka skattgreiðslur fólks og fyrirtækja til bæði ríkis og sveitarfélaga með í reikninginn, svo að tryggt sé, að breytingar á verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga skekki ekki myndina af skattbyrðinni. Þeir hjá OECD einblína ekki heldur á skatta, heldur taka þeir einnig með í dæmið ýmsar skyldur og gjöld og eignatekjur, þar á meðal rekstrarafgang ríkisfyrirtækja og tekjur af einkavæðingu ríkiseigna. Á þennan breiða kvarða hefur skattbyrðin þyngzt til muna á Íslandi síðan 1990, mun meira en í nokkru öðru aðildarlandi OECD. Skattprósentan á þennan kvarða var 38 prósent af landsframleiðslu 1990 og var komin upp í 49 prósent af landsframleiðslu 2005. Þannig hækkaði skattprósentan hér heima um ellefu stig á þessum fimmtán árum. Til samanburðar hækkaði skattprósentan um tvö stig á evrusvæðinu að jafnaði á sama fimmtán ára skeiði. Skattprósentan á Íslandi 1990 var fimm stigum undir meðallagi OECD-landanna, en 2005 var skattprósentan fjórum stigum yfir meðallagi OECD-landanna.

Hvernig hefur skattbyrðin breyst?
Skattprósentan (þ.e. hlutfall skattheimtu ríkis og byggða af landsframleiðslu) heitir öðru nafni skattbyrði. Hún hefur þyngzt síðan 1990, eins og ég sagði áðan, um ellefu prósent af landsframleiðslu. Hún hefur þó ekki bara þyngzt, heldur hefur hún einnig skekkzt – í þeim skilningi, að skattbyrðin dreifist nú mun ójafnar á skattgreiðendur en hún gerði áður. Þetta sést skýrt á því, að skattleysismörk hafa lækkað verulega að raungildi, þar eð þeim var ekki leyft að fylgja verðlagi eða kauplagi, svo sem nauðsynlegt hefði verið til að halda skattbyrði láglaunafólks í skefjum. Lágar tekjur eru nú skattlagðar í mun ríkari mæli en áður. Fjármálaráðuneytið hefur upplýst, að hækkun skattleysismarka um tíu þúsund krónur kosti ríkissjóð um átta milljarða króna á hverju ári. Hækkun skattleysismarka úr 90.000 krónum á mánuði í það horf, sem þau voru í að raungildi fyrir nokkrum árum, þ.e. í um 130 þúsund krónur á núverandi verðlagi, myndi því kosta ríkissjóð um 32 milljarða króna. Til samanburðar er tekjuafgangur ríkissjóðs á þessu ári talinn munu nema um nítján milljörðum króna. Nítján milljarða króna tekjuafgangur ríkissjóðs myndi því að öðru jöfnu snúast upp í þrettán milljarða króna halla á ríkissjóði, ef skattleysismörkin væru færð í fyrra horf að raungildi. Þessar tölur lýsa því, að tekjuafgangur ríkissjóðs í ár hvílir á mun meiri skattheimtu af lágum launum en áður tíðkaðist. Fjármálaráðuneytið spáir því, að nítján milljarða króna tekjuafgangur ríkissjóðs í ár snúist upp í næstum þrjátíu milljarða króna halla á ríkissjóði á næsta ári, 2008, að óbreyttum skattleysismörkum. Þetta þýðir það, að hækkun skattleysismarka í fyrra horf myndi tvöfalda ríkishallann á næsta ári. Þessar einföldu staðreyndir afhjúpa tvennt í senn: slaka stjórn ríkisfjármálanna undangengin ár, eins og jafnvel Seðlabankinn hefur fundið að, og tillitslausa ójafnaðarstefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Ójafnaðarstefna ríkisstjórnarinnar lýsir sér jafnframt í því, að fjármagnstekjuskattur er miklu lægri og léttbærari en skattur af launatekjum. Þetta tvennt, þyngri skattbyrði láglaunafólks og létt skattbyrði fjármagnseigenda, veldur miklu um aukna misskiptingu á Íslandi undangengin ár.

Hversu mikið ríkið tekur mikið til sín?
Hærri skattprósenta en áður og þyngri skattbyrði segja ekki alla söguna um aukin umsvif ríkisins. Skattar hafa verið hækkaðir meðal annars til að greiða niður eldri skuldir ríkis og sveitarfélaga. Skuldir ríkis og byggða munu í árslok 2007 nema 26 prósentum af landsframleiðslu á móti 36 prósentum 1990. Uppgreiðsla opinberra skulda síðan 1990 nemur því um tíu prósentum af landsframleiðslunni. Skuldirnar voru komnar upp í 59 prósent af landsframleiðslu í árslok 1995, svo að uppgreiðsla opinberra skulda síðan 1995 hefur að því skapi verið meiri. Því er spáð í skýrslum OECD, að skuldir ríkisins í víðum skilningi, þ.e. skuldir ríkis og byggða, muni nema um 30 prósentum af landsframleiðslu í lok næsta árs (2008). Það þýðir, að ríkið hefur þá greitt upp um helming skulda sinna síðan 1995. Það er vel af sér vikið, en því fer samt fjarri, að ríkið sé orðið skuldlaust, enda þurfti ríkissjóður að taka risavaxið lán í útlöndum fyrir fáeinum mánuðum til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans. Ríkissjóður mun þurfa að safna meiri skuldum strax á næsta ári (2008), því að þá verður aftur halli á ríkisbúskapnum samkvæmt spá fjármálaráðuneytisins vegna minni umsvifa í efnahagslífinu og meðfylgjandi samdráttar í skatttekjum. Af þessu má sjá, að góð afkoma ríkissjóðs og sveitarfélaga undangengin ár hefur að miklu leyti ráðizt af þenslunni í þjóðarbúskapnum. Afkoman hefði þó að réttu lagi átt að vera mun betri en raun varð á, eða að minnsta kosti nógu góð til þess, að endurheimt þokkalegs jafnvægis í þjóðarbúskapnum þyrfti ekki að stefna ríkisbúskapnum í hallarekstur með gamla laginu.

Spurningunni um það, hversu mikið ríkið tekur til sín af aflafé almennings, er betur svarað með því skoða ríkisútgjöld í víðum skilningi frekar en skattheimtu. Þetta stafar af því, að skattheimta getur gefið villandi mynd af umsvifum ríkisins. Ríkið getur aukið útgjöld sín og fjármagnað aukninguna með skuldasöfnun frekar en skattheimtu, og þá hækka skattarnir, sem nauðsynlegir eru að lokum til að ná endum saman í ríkisbúskapnum, ekki fyrr en einhvern tímann síðar. Umsvif ríkis og sveitarfélaga á mælikvarða útgjalda frekar en skattheimtu hafa síðan 1990 aukizt miklu minna á Íslandi en skattheimtan. Útgjöld ríkis og sveitarfélaga á þessu ári (2007) námu 45 prósentum af landsframleiðslu borið saman við 42 prósent 1990. Til samanburðar stóðu ríkisútgjöldin í stað í 47 prósentum af landsframleiðslu á evrusvæðinu að jafnaði á sama sautján ára skeiði. Umsvif ríkisins hafa því verið að þenjast út hér heima og nálgast nú meðallag evrusvæðisins, öndvert þróuninni til dæmis í Danmörku, Írlandi, Noregi og Svíþjóð, þar sem ríkisumsvifin hafa minnkað til muna á sama tímabili.

Hvernig stöndum við í alþjóðlegum samanburði?
Skattheimta var samkvæmt upplýsingum OECD meiri á Íslandi 2005 en í öllum öðrum OECD-löndum nema sex, og þau eru Svíþjóð, Noregur, Danmörk, Finnland, Frakkland og Belgía. Á Norðurlöndum hefur skattheimta ríkisins keyrt um þverbak, eins og allir vita, og hún hefur raunar verið að minnka aftur í Finnlandi og Svíþjóð, en ekki í Danmörku og Noregi. Tuttugu OECD-lönd og einu betur bjuggu við lægri skattprósentu, þ.e. léttari skattbyrði, en Ísland 2005. Skattheimta á Íslandi er nú orðin meiri en á evrusvæðinu á heildina litið, eins og ég sagði áðan, eða 49 prósent af landsframleiðslu hér heima á móti 45 prósentum á evrusvæðinu og 38 prósentum í Bandaríkjunum (tölurnar eiga við 2005). Áætlun OECD fyrir árið í ár (2007) sýnir sömu skattheimtu á Íslandi og á evrusvæðinu í heild, eða 45 prósent af landsframleiðslu á báðum stöðum. Norðurlöndin, Frakkland og Belgía eru einu OECD-löndin, sem hafa leyft skattheimtunni að skríða upp í eða upp fyrir helming af landsframleiðslunni. Íslendingar geta því ekki lengur státað af lágum sköttum á Evrópuvísu, og þá ættum við að réttu lagi ekki heldur að una því, að opinber þjónusta við þegnana hér heima sé minni og lakari en víða annars staðar í Evrópu, samanber alla biðlistana í heilbrigðiskerfinu hér og láglaunabaslið í skólakerfinu og þannig áfram. Skattheimtan segir þó ekki alla söguna, eins og ég hef sagt, því að aukin skattheimta hér heima að undanförnu var ekki í fyrsta lagi notuð til að fjármagna jafnharðan aukin ríkisumsvif, heldur var hún notuð öðrum þræði til að fjármagna aukin ríkisumsvif aftur í tímann, umsvif, sem voru þá fjármögnuð með skuldasöfnun frekar en skattheimtu. En skuldasöfnun ríkisins á líðandi stund er yfirleitt bara frestun á fjörmögnun, því að skuldasöfnun ríkisins er yfirleitt ávísun á skattheimtu síðar.

Ef við höfum ríkisútgjöldin frekar en skattana til marks um ríkisumsvifin, þá er Ísland nú í miðjum hópi OECD-landanna í ár (2007). Fjórtán OECD-lönd láta sér duga minni ríkisútgjöld en Íslendingar í hlutfalli við landsframleiðslu, en þrettán OECD-lönd hafa meiri ríkisútgjöld en Íslendingar miðað við landsframleiðslu. Til samanburðar var hlutfall ríkisútgjaldanna í landsframleiðslunni á Íslandi 1990 langt fyrir neðan meðallag á OECD-svæðinu. Aðeins sex OECD-lönd létu sér þá duga minni ríkisútgjöld miðað við landsframleiðslu en Ísland. Tökum Írland til dæmis. Ríkisútgjöld á Írlandi voru svipuð og á Íslandi um 1990, eða 43 prósent af landsframleiðslu þar a móti 42 prósentum hér. Síðan þá hafa Írar dregið markvisst úr ríkisumsvifum, svo að ríkisútgjöldin þar í ár eru komin niður í 35 prósent af landsframleiðslu á móti 45 prósentum hér heima. Hér er komin ein skýringin á því, að Írland hefur búið við svo mikinn og jafnan hagvöxt mörg undangengin, því að hófleg skattheimta og hófleg ríkisumsvif örva hagvöxt til langs tíma litið. Hlutur ríkisins í landsframleiðslunni hér heima (45 prósent 2007) er kominn upp fyrir Noreg (42 prósent), en hann er eftir sem áður talsvert minni en í Danmörku (51 prósent), Finnlandi (49 prósent) og Svíþjóð (55 prósent).

Valgeir Örn Ragnarsson tók viðtalið.