DV
28. jún, 2008

DV

„Verðbólgan er meiri en hún hefur verið í hartnær tuttugu ár og hún stefnir hærra,“ segir Þorvaldur Gylfason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands. Hann bætir við að verðbólgan á Íslandi sé nú mest í allri Evrópu. Hann segir augljóst á þessu að fullyrðingar ríkisstjórnarinnar um að orsök efnahagsþrenginga á landinu sé að leita erlendis eru fyrirsláttur einn. „Þetta er gamla sagan um aga- og ábyrgðarleysi í hagstjórn. Fjármálastjórnin hefur verið mjög veik. Það hefði átt að nota uppsveiflu undangenginna ára til að reka ríkisbúskapinn með miklum afgangi og byggja upp eignir og gjaldeyrisforða. Það var ekki gert.“

Þorvaldur segir alvarlega bresti í peningastjórn og kennir pólitískri skipun seðlabankastjóra að stórum hluta um. „Ekkert annað Evrópuland þarf að glíma við þessa meinsemd. Rökrétt næsta skref væri að víkja seðlabankastjórninni frá og setja þangað inn nýja menn með óflekkaðar hendur.

Þessu þyrfti að fylgja gagnger skipulagsbreyting í ríkisfjármálum, uppskurður frekar en niðurskurður. Þetta er langtímaverkefni sem hefði átt að ráðast í fyrir löngu líkt og ég hef margstungið upp á.“

Hafsteinn Gunnar Hauksson tók viðtalið