28. okt, 1999

Dómur um Viðskiptin efla alla dáð

Herhvöt lífskjarabyltingarmanns

VIÐSKIPTIN EFLA ALLA DÁÐ

eftir Þorvald Gylfason.

Ritdómur eftir Gylfa Magnússon.

Reykjavík, Heimskringla, háskólaforlag Máls og menningar. 359 bls. 1999.

ÞORVALDUR Gylfason, prófessor við viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands, er öðrum íslenskum hagfræðingum duglegri að skrifa greinar um efnahagsmál fyrir almenning. Viðskiptin efla alla dáð er fimmta ritið sem hann gefur út á þessum áratug með safni slíkra greina. Greinarnar hafa flestar birst áður á íslensku og nokkrar þeirra hafa einnig birst erlendis.

Að vanda kemur Þorvaldur víða við, bæði í tíma og rúmi, og honum fylgir engin lognmolla. Þorvaldur telur það skyldu fræðimanna að nota þekkingu sína til að sjá hvað má betur fara og benda á það og dregur ekkert af sér í viðleitni sinni til að uppfylla þá skyldu. Hann gagnrýnir jafnframt aðra hagfræðinga sem hafa haft aðstöðu til að benda á ýmislegt sem aflaga hefur farið í íslensku efnahagslífi í gegnum tíðina en hafa lítið látið í sér heyra. Þorvaldur viðurkennir að það sé reyndar ekki alltaf þakklátt hlutverk að flytja boðskap sem stjórnvöldum líkar illa (bls. 61) og víst er að skrif hans hafa iðulega farið fyrir brjóstið á þeim sem fjallað er um og þeim verið mótmælt.

Þorvaldur er kröfuharður maður og ver engum tíma í að dásama það sem er einungis þokkalega gert. Engum er hælt fyrir hænuskref í rétta átt. Þorvaldur vill stórstígar framfarir. Í einni greininni veltir hann því fyrir sér hvort hann sé byltingarmaður og kemst að þeirri niðurstöðu að hann sé það oftast. Hvort sem lesandi er sammála Þorvaldi um annað efni bókarinnar eða ekki er vart hægt að deila um þessa, höfundurinn er lífskjarabyltingarmaður.

Þorvaldi er hagvöxtur hugleikinn og hann tiltekur ýmis dæmi um lönd sem hafa náð góðum árangri, eru á góðri leið frá fátækt til ríkidæmis. Hann skoðar hvaða leiðir farnar hafa verið og vill að Íslendingar taki sér það sem vel hefur verið gert til fyrirmyndar. Á sama hátt nefnir hann ýmis erlend víti Íslendingum til varnaðar og fjölmörg innlend dæmi. Hann telur að þótt vel hafi gengið að ýmsu leyti undanfarin ár á Íslandi þá sé hægt að gera mun betur. Það þurfi að gera ef þær þjóðir sem best standa sig á sviði efnahagsmála eigi ekki að skilja Íslendinga eftir.

Í samræmi við titil bókarinnar eru kostir frjálsra viðskipta víða tíundaðir og þeir sem standa í vegi þeirra skammaðir. Innlendir sem erlendir sérhagsmunahópar og stjórnmála- eða embættismenn sem eru að mati Þorvaldar latir eða spilltir fá sérstaklega á baukinn. Stíll Þorvaldar er skýr og hressilegur og þeir sem hann telur að hafi verið dragbítar á framfarir eru lítt öfundsverðir af því að þurfa að sitja undir skömmunum. Hetjurnar í bókinni eru þeir sem sagt hafa hug sinn og barist gegn sérhagsmunum og afturhaldi, hafa flutt óþægileg tíðindi þegar þess hefur þurft. Pilturinn í ævintýrinu um nýju fötin keisarans er söguhetja að skapi Þorvaldar.

Það er óhugsandi að reyna að fylgjast með umræðu um íslensk efnahagsmál án þess að lesa skrif Þorvaldar og þetta rit er engin undantekning. Skiptir þá engu hvort lesandinn er yfirleitt sammála höfundinum eða ekki. Það er því akkur í því að safna greinum Þorvaldar saman á þennan hátt og vísast eiga greinasöfnin eftir að verða fleiri því Þorvaldi liggur mikið á hjarta.

Morgunblaðið, 28. október 1999.