21. jan, 1992

Dómur um Hagfræði, stjórnmál og menningu

Menning – Bækur

Ritdómur eftir Pétur Pétursson

Sambandið við markaðinn

Þorvaldur Gylfason: Hagfræði, stjórnmál og menning. Hið Íslenska bókmenntafélag. 1991. 203 bls.

Þessi bók er samsafn greina um efnahags- og atvinnumál sem höfundurinn, Þorvaldur Gylfason prófessor í þjóðhagfræði við Háskóla Íslands, hefur birt frá því vorið 1990. Þetta eru í allt 30 greinar sem mynda fimm kafla: I. Ísland og Evrópa; II. Lífskjör í læðingi; III. Atvinna og verðólga; IV. Umhverfismál og menning og V. Úr ýmsum áttum. Sumar þessara ritgerða hafa birst í Morgunblaðinu og hafa því náð stórum lesendahópi nú þegar, en aðrar hafa birst í tímaritum um efnahagsmál, sem höfða til minni lesendahópa, Fjármálatíðindum og Vísbendingu.

Eins og kaflaheitin bera með sér þá er hér komið inn á atvinnu- og efnahagsmál í víðum skilningi og allar þessar greinar fjalla um mál sem eru og hafa verið í deiglunni undanfarin misseri. Höfundur er eins og fleiri talsmaður þess að markaðsöflunum sé gefið aukið rými og hefur hann tröllatrú á því að þau efli heilbrigt atvinnulíf og bæti lífskjör. Færir hann reyndar mörg rök fyrir því að svo sé og bendir m.a. á augljós dæmi frá Austur-Evrópu máli sínu til stuðnings, en þar hafa markaðssjónarmið til skamms tíma, eins og allir vita, verið látin lönd og leið og frumkvæði og framleiðslugeta kafnað í skrifræði og pólitískri spillingu.

Að mati höfundar verður að koma til hugarfarsbreyting og stefnubreyting til þess að markaðsöflin fái að njóta sín að fullu hér á landi. Yfirleitt er umfjöllun höfundar mjög málefnaleg, en þó getur hann orðið hvassyrtur í gagnrýni sinni. Beinist hún einkum að stjórnmálamönnum sem hann telur hafa margt á samviskunni þegar um er að ræða stjórnun efnahagsmála og fjármála hér á landi.

Flokkarnir og hagsmunir flokksmanna eru settir framar en hagsmunir almennings t.d. í bankamálum. Höfundur átelur ráðuneytin og stjórnmálamennina yfirleitt fyrir það að draga um of taum sterkra hagsmunasamtaka eins og útgerðarmanna og bænda. Þessi samtök hafa greiðan aðgang að ráðuneytunum. Þar er hlustað á rök þeirra og ráð en minna hugað að heildarhagsmunum. Og afleiðingarnar eru augljósar að mati Þorvaldar. Gífurleg sóun á sér stað á opinberu fé og fer það í alls konar styrki og fyrirgreiðslu við atvinnustarfsemi sem ekki mundi standast frjálsa samkeppni. Hér er um að ræða of mikla fjárfestingu í sjávarútvegi. Skipaflotann má minnka, samkvæmt útreikningum Hagfræðistofnunar HÍ, um allt að 40% án þess að það þyrfti að bitna á þeirri sókn flotans sem leyfileg er. Þessi óstjórn kemur einnig fram í offramleiðslu í landbúnaði sem birst hefur m.a. í því að kjöti af dilkum sem nagað hafa ofbeitt afréttarlönd er hent í stórum stíl því enginn vill kaupa það á því verði sem kostar að framleiða það þrátt fyrir allan styrkjaslóðann sem þessi framleiðsla dregur á eftir sér.

Höfundur er talsmaður þess að tekin verði upp sala veiðiheimilda í stað kvótafyrirkomulagsins. Útvegsmenn fá nú aflaheimildir í formi kvóta gefins frá stjórnvöldum, en þeir hinir sömu geta síðan selt þá öðrum útvegsmönnum sem vilja hasla sér völl. Höfundur bendir á að fiskimiðin séu þjóðareign. Vill hann setja á stofn markað með veiðiheimildir sem útlendingum væri hugsanlega veittur aðgangur að. Þar með væri auðveldara fyrir Íslendinga að ná hagstæðum samningum við Evrópubandalagið og höfundi finnst það allt annað en fráleitt að Ísland sæki um aðild að bandalaginu. Hann telur litla hættu á því að erlendir útgerðarmenn standist samkeppni við innlenda varðandi kaup á veiðiheimildum og bendir í því sambandi á hve framleiðnin í íslenskum sjávarútvegi er mikil þrátt fyrir allt.

Við lifum á tímum þar sem mikil trú er á mögleikum frjáls hagkerfis, en hvað þá með sameiginleg gildi sem ekki verða með góðu móti vegin og metin á forsendum markaðsbúskapar, svo sem heilbrigðismál, menntun, listir og vísindi? Um þetta fjallar höfundur af innsæi og skilningi í 24. kafla bókarinnar. Hér er vikið að hlutverki ríkisvaldsins sem hlýtur að verða að endurmeta með tilliti til margra málaflokka þegar sambandinu við markaðinn er breytt. Hvar eru mörk hins opinbera og einkahagsmuna? Hvernig á að skilgreina þessi mörk og réttlæta? Umfjöllun höfundar er mjög gott framlag til skynsamlegrar orðræðu um þessa brennandi spurningu sem snertir hin ýmsu svið hagfræði, stjórnmála og menningar.

Þessi bók býður upp á kjörið tækifæri til að hefja máls á margbrotnum viðfangsefnum efnahagsmála. Hér hefur aðeins verið minnst á nokkur meginþemu bókarinnar sem fjallar einnig um verðbólgu, vexti og gengi. Málið er markvisst og mærðarlaust og efnið þannig framsett að það er skiljanlegt hverjum og einum sem áhuga hefur á því að setja sig inn í þessa hluti og taka afstöðu til þeirra. Bókin er tilvalin umræðugrundvöllur t.d. í leshópum um þjóðmál og efnahagsmál líðandi stundar.

Morgunblaðið,  21. janúar 1992.


Til baka