20. des, 2002

Dómur um Framtíðin er annað land

BÆKUR – Efnahagsmál

Framtíðarland opingáttarmanns

FRAMTÍÐIN ER ANNAÐ LAND

eftir Þorvald Gylfason. Reykjavík, Háskólaútgáfan. 368 bls. 2001.

ENGINN Íslendingur hefur lagt sig jafnmikið fram um að skrifa um hagfræði og efnahagsmál fyrir almenning og Þorvaldur Gylfason, prófessor í Háskóla Íslands. Undanfarin tólf ár hefur hann sent frá sér átta bækur um efnið á íslensku, flestar greinasöfn. Auk þess hefur hann skrifað nokkrar bækur sem gefnar hafa verið út á öðrum tungumálum og fjölda fræðigreina sem ekki eru ætlaðar almenningi.Síðasta bókin kom út í lok síðasta árs og nefnist Framtíðin er annað land. Eins og hann hefur oft gert áður með góðum árangri byggir Þorvaldur bókina á greinum sem hann hefur þegar birt á ýmsum vettvangi, flestar í vikuritinu Vísbendingu, nokkrar í Morgunblaðinu og aðrar annars staðar. Þótt greinarnar séu í nokkrum tilfellum aðeins endurskoðaðar frá upphaflegri gerð eða með nýjum athugasemdum ættu dyggir lesendur Þorvaldar því að hafa séð flest áður. Fyrir þá er þó óneitanlega fengur að því að greinunum sé safnað saman á þennan hátt.

Að vanda kemur Þorvaldur víða við og textinn er skýr, lipur og skemmtilegur. Það þarf enga sérþekkingu á hagfræði til að halda þræðinum þótt óneitanlega sé textinn miðaður við þá sem fylgjast vel með þjóðfélagsumræðu. Í örfáum greinanna notar Þorvaldur tölfræðihugtök sem ekki eru öllum töm en það ætti ekki að koma í veg fyrir að óvanir lesendur geti fylgt röksemdafærslunni.

Þorvaldur hefur ekki legið á skoðunum sínum í sjávarútvegsmálum. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að hér færir hann ýmis rök fyrir þeim. Þá ræðir hann um aðild Íslands að Evrópusambandinu, krónuna og evruna, hagvöxt og sérstaklega gildi menntunar fyrir hann og margt fleira. Einna skemmtilegastar eru hugrenningar Þorvaldar um það sem hann kallar opingáttarmenn og innilokunarmenn. Hann telur þá skiptingu mun gagnlegri til að skilja stjórnmál samtímans en hefðbundna skiptingu í hægri og vinstri. Sjálfur er Þorvaldur eindreginn opingáttarmaður.

Þegar bókin var gefin út voru horfur í efnahagsmálum tvísýnar og gengi krónunnar hríðlækkaði síðari hluta ársins 2000 og allt árið 2001.

Þorvaldur ræðir nokkuð um þessa lækkun og telur hana hafa verið óhjákvæmilega í ljósi viðskiptahalla áranna á undan, mikillar erlendrar skuldasöfnunar og lítils gjaldeyrisforða. Síðan þetta var skrifað hefur þessi gengislækkun nær öll gengið til baka, þvert ofan í spár flestra hagfræðinga. Þetta sýnir ágætlega hve erfitt er að sjá fyrir skammtímasveiflur í gengi gjaldmiðla og raunar verð á ýmsum mörkuðum, t.d. hlutabréfamörkuðum. Sveiflur í gengi og verði eru í mörgum tilfellum mun meiri en hægt er að skýra með trúverðugum hætti með vísan til breytinga á raunstærðum efnahagslífsins. Það er eitt af þeim verkefnum sem hagfræðingum um heim allan hefur gengið verst að leysa.

Hagfræðin hefur þróað mörg ágæt tæki til að greina jafnvægi á mörkuðum en skilningur á mörkuðum sem ekki virðast í jafnvægi er mun minni.

Undanfarin ár hefur skilningur hagfræðinga á eðli hagvaxtar hins vegar aukist til muna. Einkum er nú meira vitað en áður um það hvað ræður hagvexti til langs tíma þótt enn sé erfitt að spá af nákvæmni hagvexti næstu misseri. Einn af sex hlutum bókarinnar fjallar sérstaklega um hagvöxt en auk þess er það viðfangsefni alltaf nálægt í hinum hlutum bókarinnar. Þorvaldur hefur mjög sinnt rannsóknum á hagvexti. Því er sérstakur fengur að því að hann útskýri niðurstöður sínar og annarra fræðimanna um eðli og forsendur hagvaxtar fyrir almenningi og stjórnmálamönnum.

Gylfi Magnússon

Morgunblaðið, 20. desember 2002.