5. jan, 2001

Umsögn um Framtíðin er annað land

Áhugaverð lesning

Þorvaldur Gylfason, rannsóknarprófessor í hagfræði, hefur verið einna iðnastur prófessora við Háskóla Íslands að skrifa í blöðin og fjalla með sínum hætti um menn en þó aðallega málefni sem brenna á honum. Þetta er hlutur sem aðrir málsmetandi menn við stofnunina mættu taka sér til fyrirmyndar enda er alltof oft fjallað um mál af einstaklingum sem lítið vit og skilning hafa á því sem fjallað er um og oftar en ekki eru þetta mál sem snerta þá persónulega þannig að rök eru látin lönd og leið og niðurstaðan verður því mjög hlutdræg. Þorvaldur nálgast sín hugðarefni aftur á móti út frá mót- og meðrökum í nýjustu bók sinni ,,Framtíðin er annað land“ sem er greinasafn 42 ritgerða um efnahagsmál og hagfræði. Þetta er sjötta ritgerðasafn höfundar og er efni bókarinnar skipt í 6 bálka.

Efni bókarinnar eru málefni sem Þorvaldi eru hugleikin en það eru til að mynda efnahagsmál í víðum skilningi eins og drifkraftar hagvaxtar; menntun, utanríkisviðskipti og fjárfesting. Hann fjallar um þær rannsóknir sem sýni að mikil náttúruauðlindagnægð (eins og í tilviki Íslands) leiði beinlínis til minni menntunar þjóðarinnar og lýsir áhyggjum sínum yfir litlum útgjöldum til menntamála hér á landi miðað við önnur lönd. Hann fer síðan vítt og breitt yfir sviðið og fjallar um allt frá Reykjavíkurflugvelli (sem hann vill að fari) til veiðigjalds en Þorvaldur var sennilega upphafsmaður þess að Íslendingar taki upp veiðigjald.

Þorvaldur setur fram mjög góð rök fyrir sinni skoðun, sem hann hefur haldið fram í mörg ár, þess efnis að gengi krónunnar sé of hátt skráð og þess vegna beri að lækka það. Í grein sinni í mánaðarritinu Vísbendingu, sem birtist hálfum mánuði fyrir tilkynningu Seðlabanka Íslands um flot krónunnar og upptöku verðbólgumarkmiðs, færir hann fimm veigamikil rök fyrir því af hverju krónan hafi verið of hátt skráð. Greinin er ekki síst áhugaverð fyrir þær sakir að eftir að markaðurinn fór að ráða verði krónunnar féll hún eins og kunnugt er um tugi prósenta eftir að hafa verið haldið of sterkri lengi eins og Þorvaldur hélt sjálfur fram.

Bókin er þægileg aflestrar bæði vegna þess að Þorvaldur er ágætur penni og getur vel gert hagfræði skiljanlega fyrir venjulegt fólk sem hefur takmarkaðan skilning á efninu og ekki hvað síst vegna þess að þar sem um greinar er að ræða er hægt að lesa einungis eina grein. Þetta er áhugaverð lesning fyrir þá sem vilja kynna sér ýmis málefni sem snerta stöðu Íslands í heimi þjóðanna.

Viðskiptablaðið, 30. desember – 5. janúar 2001.
(Höfundur ekki tilgreindur.)