Dómar um Að byggja land
Alþjóðasinninn og hagfrelsishetjan
Umsögn eftir Eggert Þór Bernharðsson
ÞÁTTARÖÐ
Ríkissjónvarpið
AÐ BYGGJA LAND
Undirtitill er Brautryðjandinn. Höfundur texta og þulur í þessari þáttaröð er Þorvaldur Gylfason prófessor en hann er jafnframt framleiðandi og valdi tónlistina. Myndhandrit gerði Jón Egill Bergþórsson en hann er einnig höfundur leikmyndar ásamt Vigni Jóhannssyni. Sunnudagur 8. nóvember.
SJÁLFSTÆÐISHETJAN góða Jón Sigurðsson, sómi Íslands, sverð þess og skjöldur, var aldeilis í sviðsljósinu um síðustu helgi. Á laugardag var hinn árlegi Minningarfyrirlestur Jóns Sigurðssonar á vegum Sagnfræðistofnunar Háskóla Íslands, á sunnudagskvöld var síðan frumsýnd í Sjónvarpinu fyrsta myndin af þremur í þáttaröðinni Að byggja land en þar var Jón Sigurðsson í forgrunni. Með minningarfyrirlestri sínum vill Sagnfræðistofnun halda nafni sagnfræðingsins Jóns Sigurðssonar á lofti en í sjónvarpsmyndinni var það hagfræðingurinn og hagfrelsishetjan Jón sem fólk kynntist betur. Vart kemur á óvart að hægt sé að fjalla um manninn frá mörgum hliðum því eigi var hann einhamur.
Í kynningu á þáttaröðinni sagði að hún fjallaði um hagstjórnarhugmyndasögu Íslendinga á 19. og 20. öld „í gegnum samfellda frásögn“ af þeim Jóni Sigurðssyni, Einari Benediktssyni og Halldóri Laxness. Þá var sagt að inn í frásögnina yrði fléttað ,,ýmsu efnahags- og menningarsögulegu efni sem varðar þessa menn og hagstjórnarhugmyndir þeirra.“ Hér er farin athyglisverð leið til að koma hugmyndasögu á framfæri en almennt er talið vandaverk að fjalla um mjög huglæg atriði í lifandi myndum vegna eðlis miðilsins. Þannig er líf einstaklingsins sjálfs ekki endilega aðalatriðið heldur er sögupersónan látin spegla stærra svið, í gegnum hana er reynt að kynna áhorfandanum ríkjandi hugmyndir í samfélaginu, nýjar hugmyndir, viðbrögð annarra við þeim o.s.frv.
Undirtitill þáttarins um Jón Sigurðsson er Brautryðjandinn. Vissulega er það heiti við hæfi því Jón var sannkallaður frumherji þótt ekki tækist honum að koma öllu því til leiðar sem hann vildi. Samfélagið var vanbúið að taka við ýmsum frjálslyndum hugmyndum hans sem mótuðust að mestu í heimsborginni Kaupmannahöfn, í umhverfi sem var um flest ólíkt því sem tíðkaðist á Íslandi en Jón sigldi til náms í Höfn haustið 1833 og bjó þar til dauðadags 1879. Og þrátt fyrir að Jón væri elskaður og dáður af löndum sínum lenti hann kröftuglega upp á kant við þá stundum, einkum í fjárkláðamálinu þar sem hann vildi fara aðrar leiðir en stór hópur íslenskra bænda og fylgdi dönsku stjórninni að málum. Vegna afstöðu sinnar var jafnvel gengið svo langt að líkja honum við Júdas og nokkur ár tók að græða sárin. En Jón Sigurðsson kom tvíefldur til leiks.
Þátturinn Brautryðjandinn skiptist í sjö kafla, mislanga. Í þeim fyrsta, ,,Endurminning um sólarlag“, er rifjað upp hvað samtímamenn rituðu þegar Jón var allur og hver ímynd hans var meðal þjóðarinnar í kringum lýðveldisstofnunina. Annar kafli nefnist ,,Dýrafjarðarmálið“. Á sjötta áratug 19. aldar föluðust Frakkar eftir aðstöðu til að reisa fiskverkunarstöð á Íslandi og bæta skilyrði til útgerðar og var talað um Dýrafjörð sem ágætan stað fyrir þessa bækistöð. Beiðnin var mjög umtöluð á Íslandi og um hana deilt. Í bænarskrám til Alþingis kom m.a. fram ótti um að þjóðerni Íslendinga gæti verið hætta búin og í blaðagreinum var lýst áhyggjum yfir því að franska fiskihöfnin gæti jafnvel orðið að herbækistöð. Jón forseti beitti sér lítið opinberlega í málinu vegna þess að hann vildi ekki styggja stuðningsmenn sína. Í sjónvarpsþættinum kemur fram að hann hafi verið opinn fyrir hugmyndinni enda ,,fús að grípa þau tækifæri sem gáfust til að opna Ísland fyrir erlendum viðskiptum og fjárfestingu.“ Auk þess hefði hann lagt áherslu á að Íslendingar lærðu af öðrum þjóðum. Hins vegar hefur því verið haldið fram á prenti að Jón forseti hafi verið andsnúinn óskum Frakka og talað gegn þeim á þingi. Hér er gamall misskilningur á ferð því það var alnafni hans á Alþingi, Jón Sigurðsson í Tandraseli, sem tjáði sig um Dýrafjarðarmálið eins og fleiri hafa bent á. Þessi gamli rangskilningur á afstöðu Jóns forseta gefur handritshöfundi einmitt tilefni til að velta nánar fyrir sér hugmyndum Jóns og varpa fram einni af grunnspurningum þáttarins: ,,Hvaða skoðanir hafði Jón Sigurðsson á erlendum viðskiptum og erlendri fjárfestingu?“
Þriðji kaflinn, ,,Boðskapur Jóns forseta“, er að mörgu leyti þungamiðja þáttarins. Þar stígur Jón m.a. sjálfur fram á sviðið í gervi Pálma Gestssonar leikara og talar til samtímans. Málflutningurinn er skeleggur og rík áhersla lögð á þá skoðun Jóns að ,,verslunin sé sem frjálsust“. Jafnframt er vísað til þess að hann hafi verið fyrsti maðurinn sem lagði kröftuga áherslu á gildi og framtíð Reykjavíkur enda talsmaður þéttbýlismyndunar í hinu niðurnjörvaða íslenska sveitasamfélagi. Þorvaldur Gylfason telur málflutning Jóns forseta eiga brýnt erindi við Íslendinga enn í dag og hann er óragur við að tengja mál hans samtímaumræðu. Þannig er t.d. velt vöngum yfir því hvaða skoðun Jón Sigurðsson hefði haft á hugsanlegri inngöngu Íslendinga í Evrópusambandið á okkar dögum, um leið er bent á að um það sé ekkert hægt að fullyrða því Jón forseti hafi ekki staðið frammi fyrir þeim vanda á sinni tíð. En síðan eru dregin fram ýmis rök viðskiptafrelsissinnans Jóns Sigurðssonar sem taldi að landsmenn þyrftu ekki að óttast verslunarfrelsi. Eftir fáeinar mínútur getur áhorfandi vart dregið aðra ályktun en Jón hefði verið hliðhollur aðild að Evrópusambandinu, a.m.k. hefði hann viljað skoða málið alvarlega. Þetta er ekki eina dæmið í myndinni um vekjandi samtímaskírskotun, t.d. er rætt um bann við innflutningi landbúnaðarafurða þrátt fyrir GATT-samkomulag og með hliðsjón af málflutningi Jóns er misvitrum stjórnmálamönnum 20. aldarinnar sagt til syndanna fyrir að standa í vegi fyrir frjálsum markaðsbúskap á Íslandi. Hér er engin lognmolla á ferð og vafalaust fellur fólki þessi aðferð misjafnlega í geð, finnst mál einfölduð um of enda skoðanir Jóns settar fram í öðru samhengi, eða finnst jafnvel málflutningurinn hreinlega áróðurskenndur. En framsetningin er ögrandi. Hún hristir upp í áhorfandanum og vekur hann til umhugsunar.
Fjórði kafli Brautryðjandans nefnist ,,Svipmyndir“. Þar er komið víða við, m.a. fjallað um starf Jóns Sigurðssonar í Kaupmannahöfn, misheppnaðar tilraunir hans til að fá stöðu á Íslandi, setu á Alþingi og leiðsögu- og uppeldishlutverk meðal þjóðarinnar. Í því efni skipti framlag hans í Nýjum félagsritum ekki síst máli en þeim hélt hann úti í nærri þrjátíu ár og skrifaði í þau ógrynni greina og ritgerða sem voru bæði fræðandi, hvetjandi og leiðbeinandi. Reyndar er með ólíkindum hvað maðurinn komst yfir að gera á sinni ævi.
Í fimmta kafla myndarinnar, ,,Fyrsti íslenzki hagfræðingurinn“, eru færð rök fyrir því að Jón eigi skilið að vera kallaður fyrsti íslenski hagfræðingurinn en ekki Arnljótur Ólafsson sem gaf út Auðfræði sína árið 1880 og því talinn höfundur fyrsta hagfræðiritsins á íslensku. Hagfræðingurinn Þorvaldur Gylfason bendir hins vegar á að Jón Sigurðsson hafi verið farinn að rita um hagfræðileg efni nokkrum áratugum fyrr og nefnir m.a. til sögunnar hina þekktu ritgerð um verslun á Íslandi frá árinu 1843. Þá bendir hann m.a. á Litla fiskibók og Litla varningsbók, grein um verslun og verslunarsamtök sem og hagfræðiskrif í dönsk blöð. Þorvaldur telur að þessi skrif beri vitni staðgóðri þekkingu Jóns á hagfræði og sögu síns tíma og hann ætti því að teljast fyrsti íslenski hagfræðingurinn. Vafalaust er Jón vel að þessum titli kominn og reyndar er fundið að því í þættinum að þessari hlið hans hafi lítt verið haldið fram, allt of mikil áhersla hafi t.d. verið lögð á þjóðfrelsishetjuna og þjóðernissinnann í námsefni en of lítið sagt um alþjóðasinnann og hagfrelsishetjuna Jón Sigurðsson.
Sjötti kafli myndarinnar kallast ,,Af Jóni sjálfum“ og þar er skyggnst undir yfirborðið, reynt að kanna hvers konar mann Jón Sigurðsson hafði að geyma. Var hann skemmtilegur, alvörugefinn, skartmaður, fjörkálfur, ferðalangur? Svör liggja ekki alveg á lausu. Flestir virðast þó á því að hann hafi verið mikill mannkostamaður og fremur alvörugefinn. Í lok þessa kafla er dregin fram frásögn af dularfullri konu sem birtist óvænt við minningarathöfnina í Kaupmannahöfn í árslok 1879 og gat ekki leynt harmi sínum. Enginn þekkti hana og heimildir um þessa konu eru býsna fáskrúðugar, en með því að nefna hana til sögu er ýjað að því að Jón hafi jafnvel átt hjákonu. Hins vegar vekur athygli að ekki er einu orði minnst á eiginkonu Jóns í þættinum, Ingibjörgu Einarsdóttur, sem stóð þó við hlið manns síns og fylgdi honum í gegnum súrt og sætt.
Lokakaflinn nefnist ,,Misjafn árangur“. Reynt er að meta ávöxtinn af starfi Jóns, hvaða áhrif hugmyndir hans og kenningar höfðu. Vissulega var hann forystumaður Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni, þjóðfrelsishetja, en í ýmsum innanlandsmálum áorkaði hann minna en hann hefði vafalaust óskað. Í verslunarmálunum varð honum nokkuð vel ágengt, ekki síst varðandi viðskiptin við útlönd.
Umgjörð þáttarins Brautryðjandinn er sérstök og um margt ólík því sem venja er í íslenskum heimildamyndum um söguleg efni. Áhorfandinn fylgist með Vigni Jóhannssyni myndlistarmanni búa til myndverk á vegg þar sem hin og þessi brot úr lífi Jóns eru að lokum römmuð inn. Í fyrstu veit áhorfandinn varla hvað er að gerast en smátt og smátt raðast hlutarnir saman í samhengi við þulartexta. Þá eru kaflaskil í þættinum nýstárleg. Við hvern nýjan kafla er geisladiskur, þar sem sést hvaða tónlist er notuð, settur í spilara og síðan er talsnælda með heiti kaflans sett í segulband. Engin hefðbundin viðtöl eru í þættinum eða utanaðkomandi innslög. Myndin gerist þannig öll í einu rými þar sem eru listamaðurinn, veggurinn, tölvur og önnur tæki sem notuð eru við að hanna myndverkið og þar með ytri ramma þáttarins. Til að auka myndræn áhrif eru tiltekin atriði dregin sérstaklega fram með texta á tölvuskjá eða öðrum hætti. Þegar kemur að því að spila beina tilvitnun í fyrrverandi útvarpsstjóra er t.d. gamall hátalari hengdur á vegginn og þaðan heyrist rödd flytja textann; þegar sagt er frá átökunum um fjárkláðann er blað með mynd af Jóni krumpað saman og því kastað í ruslafötu; þegar greint er frá fjarveru Jóns á þjóðhátíðinni 1874 er bók um þessa hátíð skellt á borð með nokkrum þjósti. Þannig eru notaðar ýmsar skemmtilegar lausnir innan þess tiltölulega þrönga ramma sem sviðsmyndin er. Og með því að flétta tölvum og öðrum hátæknigræjum saman við myndir af ýmsu tagi frá fyrri tíð eru nútíminn og fortíðin látin kallast á, líkt og textahöfundur gerir í sínu máli.
Í næsta þætti verður fjallað um ofurhugann Einar Benediktsson og verður fróðlegt að sjá hvernig umfjöllunin um hann verður sett fram.
Ofurhuginn Einar Benediktsson
Umsögn eftir Eggert Þór Bernharðsson
SJÓNVARPSÞÁTTUR
Ríkissjónvarpið
AÐ BYGGJA LAND
- þáttur. Ofurhuginn. Höfundur texta og þulur: Þorvaldur Gylfason prófessor en hann er jafnframt framleiðandi og valdi tónlistina. Myndhandrit: Jón Egill Bergþórsson. Höfundur leikmyndar: Vignir Jóhannsson og Jón Egill Bergþórsson.
ANNAR þátturinn í röðinni Að byggja land var sýndur í Sjónvarpinu á sunnudagskvöld. Rætt er um hagstjórnarhugmyndasögu Íslendinga á 19. og 20. öld með hliðsjón af þremur einstaklingum, þeim Jóni Sigurðssyni, Einari Benediktssyni og Halldóri Laxness og fléttað inn í frásögnina ,,ýmsu efnahags- og menningarsögulegu efni sem varðar þessa menn og hagstjórnarhugmyndir þeirra“ eins og segir í dagskrárkynningu. Þátturinn um helgina fjallaði um framfarasinnan, athafnamanninn og stórskáldið Einar Benediktsson og nefnist Ofurhuginn.
Einar Benediktsson var á unglingsaldri þegar Jón Sigurðsson lést árið 1879. Faðir Einars, Benedikt Sveinsson alþingismaður og sýslumaður Þingeyinga, varð þá einn helsti leiðtogi Íslendinga í sjálfstæðisbaráttunni en hafði ekki sama hagstjórnarskilning og Jón Sigurðsson og telur Þorvaldur Gylfason smám saman hafa fyrnst yfir hina þungu áherslu sem Jón forseti lagði á frjáls viðskipti og nauðsyn erlends fjármagns til framkvæmda. En Einar Benediktsson hafi verið annarrar skoðunar og hafið hagfrelsismerki Jóns forseta hátt á loft að nýju, hafi viljað berjast fyrir efnalegri og andlegri viðreisn íslensku þjóðarinnar enda sveið honum sárt hve Íslendingar voru skammt á veg komnir í fjárhags- og framfaramálum í samanburði við ýmsar nágrannaþjóðir.
Reyndar er iðulega vísað til Jóns forseta í Ofurhuganum og þeir Einar bornir saman, t.d. er vitnað til þess að skapgerð þeirra hafi verið um margt býsna ólík. Einar hafi oft verið illskeyttur og ómildur í dómum um menn og málefni og því eignast marga andstæðinga. Þótt Jón Sigurðsson gæti verið harður í horn að taka hafi hann kostað kapps um að láta menn njóta sannmælis og þakka þeim vel unnin störf enda eignaðist hann marga dygga samherja. Þorvaldur Gylfason telur að trúlega hafi óvægni Einars og hranalegur málflutningur verið honum fjötur um fót í hinu smáa íslenska samfélagi, dregið úr sannfæringarkrafti hans og gert að verkum að honum varð lítt ágengt um helstu áhugamál sín. Báðir hafi þeir verið einarðir þjóðernissinnar en ekki síður eindregnir alþjóðasinnar, Einar hafi þó verið meiri heimsborgari en Jón og mun víðförulli. Sögulegur og menningarlegur metnaður fyrir hönd þjóðar sinnar hafi knúið þá áfram og báðir hafi kunnað mikið fyrir sér í hagfræði, raunar telur hagfræðingurinn Þorvaldur Gylfason margt benda til þess að Einar hafi kunnað hagfræði umfram flesta samtíðarmenn sína þótt engar heimildir séu til marks um það að hann hafi lært þau fræði af bókum. Einar Benediktsson hafi hins vegar verið gerólíkur Jóni Sigurðssyni að því leyti að Einar fór gjarnan ótroðnar slóðir og var hvergi banginn við að berjast þótt á brattann væri að sækja, Jón hafi á hinn bóginn yfirleitt tekið minni áhættu. Hvort sem menn samþykkja þessa greiningu eður ei þá gerir samanburðurinn það að verkum að áhorfandinn finnur glöggt að hér er þáttaröð á ferð en ekki einangraðir sjónvarpsþættir, efnið kallast á og vinnur jafnvel saman á köflum. Undir lok Ofurhugans er síðan tengt við Halldór Laxness en lokaþátturinn hefur hann einmitt í forgrunni.
Ofurhuginn er í stórum dráttum byggður líkt upp og sá um brautryðjandann Jón Sigurðsson. Þátturinn skiptist í sjö kafla þar sem fjallað er um tiltekin atriði í hugmyndum og lífi Einars Benediktssonar og tengt við samtíð hans og nútímann. Í þeim fyrsta, ,,Stórskáld smáþjóðar“, er dvalist stuttlega við lokaár Einars þar sem hann lifir í hálfgerðri einangrun frá umheiminum í Herdísarvík, maðurinn sem barðist einmitt ötullega gegn einangrun lands og þjóðar. Upprifjun á hátíðardagskrá útvarpsins á 75 ára afmæli hans fáeinum mánuðum fyrir andlátið og vísun í minningargreinar þar sem meira var rætt um skáldið en athafnamanninn Einar Benediktsson gefur handritshöfundi tilefni til að huga nánar að viðhorfi hans til efnahags- og atvinnumála. Í öðrum kafla, ,,Arftaki Jóns forseta“, er m.a. fjallað um skrif Einars í blað sitt Dagskrá, fyrsta dagblað á Íslandi, þar sem hann benti á ýmsar nýjungar til atvinnusköpunar og tók virkan þátt í stjórnmálaumræðunni.
Í þriðja kafla, ,,Jafnaðarmaður“, kynnast áhorfendur baráttu Einars fyrir bættri fátækralöggjöf sem hann taldi ómannúðlega, þjóðfélaginu til ómetanlegs tjóns og bæla niður framfarir þjóðarinnar. Vísað er til þess að Steingrímur J. Þorsteinsson, fyrsti ævisöguritari Einars, hafi komist að þeirri niðurstöðu að Einar hafi orðið afhuga jafnaðarstefnu, áhuginn á eflingu efnahags hafi orðið að auðhyggju en umhyggjan fyrir alþýðunni hjaðnað fljótt enda rist grunnt. Þessu viðhorfi vísar Þorvaldur Gylfason á bug, segir Einar vissulega hafa hafnað þjóðnýtingu framleiðsluafla en telur hann ekki hafa verið minni jafnaðarmann fyrir því. Einar hafi einfaldlega verið langt á undan sinni samtíð og vísar til þess að þýskir jafnaðarmenn hafi sagt skilið við ríkiseigna- og þjóðnýtingarstefnu upp úr miðri 20. öld og tekið upp markaðsbúskaparstefnu, breskir jafnaðarmenn hafi farið svipaða leið enn síðar. Og Þorvaldur skirrist ekki við að vísa til samtímans frekar en í þættinum um Jón Sigurðsson, hann segir: ,,Réttlætis- og hagsældarhugsjón Einars Benediktssonar um jöfnuð í skjóli fjármagns hefur aldrei verið í fyllra samræmi við stefnu evrópskra jafnaðarmanna en einmitt nú á dögum.“ Ekki er víst að allir séu reiðubúnir til að skrifa upp á það að Einar teljist „nútímajafnaðarmaður“ og nútímahugtök geta verið vandmeðfarin þegar fjallað er um fortíðarfyrirbæri því þau geta átt misjafnlega við fyrri tíð. Hitt er víst að Einar Benediktsson var framsýnn á fjölmörgum sviðum, og Þorvaldur Gylfason bendir einnig á að kveðskapur hans beri vitni um djúpa samúð með þeim sem standa höllum fæti.
Í fjórða kafla, ,,Afl þeirra hluta sem gjöra skal“, er fjallað um athafnasemi Einars, sem bjó erlendis 1907-1921 og kom víða við, fyrirtæki sem hann tengdist, fossaviðskipti hans á Íslandi, virkjunarhugmyndir og verksmiðjuáform, þá sem reyndu að leggja stein í götu hans og afdrif ýmissa mála. Ýmsar hugmyndir hans eru settar fram í tilvitnunum sem Einar mælir sjálfur í gervi Pálma Gestssonar leikara. Ræðurnar eru eldheitar og augljóst að afstaða hans til erlends fjármagns er afar jákvæð. Tengt er við stórpólitísk mál í nútímanum, deilur um veiðigjald fyrir afnotarétt af fiskimiðunum og erlenda fjárfestingu í íslenskum útvegsfyrirtækjum, og þannig hrist upp í áhorfandanum þótt vafalaust finnist einhverjum slíku efni ofaukið í sögulegum þætti.
Í fimmta kafla, ,,Endurreisn íslensku í Norðurálfu“, og þeim sjötta, ,,Hergögn og hebreska“, er m.a. fjallað um liðsinni Einars við Jóhannes Kjarval og Jón Helgason prófessor á námsárum þeirra og hinn síkvika hug Einars en hann var jafnvel uppfinningamaður. Í lokakaflanum, ,,Raunheimar, óskheimar“, kemur fram að hann hafi verið höfuðskáld þjóðarinnar síðustu tuttugu ár ævinnar. Árangur hans í veraldlegri umsýslu hafi hins vegar verið minni en hugur stóð til og hann hafi beðið lægri hlut í nánast öllum helstu hugðarmálum sínum. En sigur hans kom síðar enda er það rauði þráðurinn í þættinum að Einar Benediktsson hafi verið á undan sinni samtíð, stundum langt á undan. Nýjungamaður í hugsun og viðhorfum.
Í leikmynd Ofurhugans er farin svipuð leið og í fyrsta þættinum, áhorfandinn fylgist með Vigni Jóhannssyni hanna myndverk á vegg í samhengi við texta handritshöfundar. Eftir fyrsta þáttinn kemur þessi aðferð ekki eins mikið á óvart og áður, áhorfandinn er betur með á nótunum frá upphafi. En ýmsar skemmtilegar lausnir er að finna innan þessa ramma og eins og áður kallast á nútími og fortíð þar sem er hið tæknivædda umhverfi listamannsins og munir frá fyrri tíð sem hann vinnur með á ýmsan hátt. Í lok þáttarins er smiðshöggið á myndverkið rekið með eins konar „brú“ milli Einars, eða öllu heldur málverks af honum, og áhorfandans sem verður því greinilegri eftir því sem myndavélin fjarlægist vegginn, „brú“ sem tengir saman nútíð og fortíð líkt og hugmyndir Einars Benediktssonar í upphafi aldar tengjast nútímanum.
Gagnrýnandinn
Umsögn eftir Eggert Þór Bernharðsson
ÞÁTTARÖÐ
Ríkissjónvarpið
AÐ BYGGJA LAND
- þáttur. Höfundur texta og þulur er Þorvaldur Gylfason prófessor en hann er jafnframt framleiðandi og valdi tónlistina. Myndhandrit: Jón Egill Bergþórsson. Leikmynd: Jón Egill Bergþórsson og Vigni Jóhannssyni.
ÞRIÐJI og síðasti þátturinn í röðinni Að byggja land eftir þá Þorvald Gylfason og Jón Egil Bergþórsson var á dagskrá Sjónvarpsins á sunnudagskvöld. Í þetta sinn var Halldór Laxness í sviðsljósinu, hagstjórnarhugmyndir hans, gagnrýni og umbótaviðleitni. Áður hafði kastljósinu verið beint að skoðunum Jóns Sigurðssonar og Einars Benediktssonar á efnahagsmálum. Í þessum lokaþætti er víða tengt við fyrri þætti, hugmyndir Jóns forseta en þó einkum Einars Benediktssonar, og þannig reynt að mynda eina efnislega heild. Svipuð framsetning og uppbygging bindur þættina einnig saman.
Gagnrýnandinn skiptist í sjö kafla líkt og fyrri þættir. Í þeim fyrsta, ,,Alþýðufræðari“, er m.a. undrast hversu lítill gaumur hafi verið gefinn að ritgerðasöfnum Halldórs miðað við skáldverk hans. Þó hafi umbótaástríðan ekki síður verið rík í honum en listhneigðin. Hann var hvass þjóðfélagsrýnir, vissulega umdeildur en maður sem hlustað var á og tekið eftir. Fram kemur að Halldór hafi verið brennandi áhugamaður um búnaðarmál og búsumbætur og litið á þær sem lykilinn að almennum efnahagsumbótum. Vísað er til þess að á uppvaxtarárum hans hafi fjörug kaupmennska og frjáls innflutningur sett ríkan svip á Reykjavík og svo hafi staðið fram undir 1930, meira að segja hafi landbúnaðarvörur streymt inn í landið. Þegar Halldór Laxness hafi sest að í höfuðstað Íslands eftir langa útivist hafi andrúmsloftið í bænum hins vegar verið orðið annað. Kreppan var gengin í garð og lagði lamandi hönd yfir landið, haftastefnan reið húsum og verslunin var ekki lengur frjáls. ,,Ástand þjóðlífsins bar þess merki að hagfrelsis- og framfarahugsjónir Jóns Sigurðssonar og Einars Benediktssonar höfðu lotið í lægra haldi á vettvangi stjórnmálanna,“ eins og Þorvaldur Gylfason orðar það. Þótt höftin hafi átt að vera tímabundin kreppuráðstöfun stóð haftatíminn nánast óslitið til 1960 eða þar til ríkisstjórnin sem aflétti ávaxtabanni greip til róttækra efnahagsaðgerða. Þetta hafi verið árin sem stjórnmála- og embættismenn skömmtuðu lánsfé eftir geðþótta til þeirra verkefna sem þeir höfðu velþóknun á, annað hafi verið látið sitja á hakanum. Ýmiss konar spilling hafi grafið um sig og breiðst út enda ævinlega og alls staðar fylgifiskur haftabúskapar. En ýmsir streittust þó gegn þessari þróun. Þorvaldur Gylfason telur að enginn hafi samt lyft hagfrelsismerki Jóns forseta og Einars Benediktssonar hærra en Halldór Laxness með gagnrýni sinni á haftastefnuna. Í huga Halldórs hafi búvöruviðskiptahöftin ekki verið einangrað fyrirbrigði heldur aldarfarseinkenni.
Í öðrum og þriðja kafla, ,,Raflýsing sveitanna“ og ,,Sjálfsagðir hlutir“, eru hagstjórnarhugmyndir Halldórs Laxness í brennidepli. Einkum er lagt út af afstöðu hans til landbúnaðarmála þegar kemur að hagfræðilegu hliðinni og vitnað til skrifa hans um 1930 og síðan margra beittra blaðagreina á fimmta áratugnum þar sem innflutningsverndin og aðrir angar búverndarstefnunnar eru gagnrýndir. Þorvaldur Gylfason segir að Halldór hafi séð það í hendi sér að ónóg samkeppni hlyti að bitna á verði, gæðum og hollustu matarins á borðum landsmanna og þá á lífskjörum fólksins um leið, og þá ekki síst á bændum sjálfum. Málflutningur Halldórs var liður í baráttu hans fyrir bættum kjörum fátæks fólks á sinni tíð en Þorvaldur telur hann að mörgu leyti eiga jafn vel við á okkar dögum. Og Halldór talar beint til áhorfenda í gervi Pálma Gestssonar leikara sem leggur sig jafnframt fram um að líkja eftir rödd skáldsins og sumum eftirminnilegum töktum. Samtímaskírskotun Þorvaldar Gylfasonar tengist m.a. innflutningi landbúnaðarvöru og eftir að hafa hlustað á valda kafla úr skrifum Halldórs ætti áhorfandinn vart að fara í grafgötur um hagkvæmni slíks innflutnings. Raunar telur Þorvaldur að gagnrýni Halldórs Laxness á innflutningsverndina sýni að hann hafi haft gott vald á hagfræði enda hafi talsmönnum innflutningshafta ekki tekist að hrekja rök hans á þeim grundvelli. Einnig er í þættinum tengt við stærð og fjölda býla á Íslandi og svo virðist sem gagnrýni Halldórs Laxness um miðjan fimmta áratuginn sé notuð til að setja út á rekstur íslensks landbúnaðar í dag, enn sé nauðsynlegt að fækka búum og stækka þau. Líkt og í fyrri þáttum er áhorfandinn þannig rækilega minntur á nútímann þótt vafalaust séu þessar samtímatengingar ekki öllum að skapi.
Í fjórða kafla, ,,Vettvangur dagsins“, er m.a. rætt um viðbrögðin við umvöndunum Halldórs Laxness en boðskapurinn vakti oft andúð þótt skáldið hafi einnig átt marga dygga aðdáendur og stuðningsmenn. Í þeim fimmta, ,,Innblástur að utan“, er því haldið fram að Halldór Laxness hafi verið mestur heimsmaður íslenskra skálda, ásamt Einari Benediktssyni, en útivistin hafi þó gert hann að enn meiri Íslendingi. Bent er á mikilvægi þess að kynnast umheiminum og hvernig borgarmenningin frjóvgar og auðgar andann. Og í sjötta kafla, ,,Sósíalisti fær sýn“, er áhugi Halldórs og þátttaka í stjórnmálum gerð að umtalsefni, rætt um afstöðu hans til Sovétríkjanna og sinnaskipti hans í þeim efnum og sagt að þjóðfélagsumbótaástríða og samúð með fátæku fólki renni eins og rauður þráður í gegnum verk hans öll. Í lokakaflanum, ,,Að byggja land“, eru síðan dregnar ályktanir af efni þáttaraðarinnar í heild og rætt um þá Jón Sigurðsson, Einar Benediktsson og Halldór Laxness í samhengi, meira ber þó á samanburði á Einari og Halldóri. Allir áttu það þó sameiginlegt að vera framsýnir og berjast gegn ofureflinu, og allir vildu reyna að færa Ísland og íslenska þjóð nær nútímanum.
Umgjörð þáttarins og leikmynd er með sams konar sniði og áður. Myndlistarmaðurinn Vignir Jóhannsson hannar myndverk á vegg í tiltölulega þröngu rými með svipuðum hætti og fyrr, rammar inn líf Halldórs með hliðsjón af þulartexta. Aðferðin kemur ekki lengur mjög á óvart en inni á milli eru skemmtilegar útfærslur, t.d. þegar rætt er um efnalega afkomu Halldórs Laxness og Einars Benediktssonar. Þá eru bækur hins fyrrtalda teknar úr hillu og bak við þær leynast gamlir peningaseðlar ásamt myndum af skáldunum. Einnig eru ávextir á víð og dreif um vinnustofu myndlistarmannsins en þeir eru ein táknmynd haftanna. Miðað við fyrri þætti ber talsvert meira á beinum tilvitnunum í þessum. Alls er Pálmi Gestsson næstum tuttugu mínútur í mynd, eða nærri hálfan þáttinn, og talar til áhorfenda kjarnyrtu máli Halldórs. Ræðurnar eru mislangar og þegar lengstu kaflarnir eru leiknir dregur myndlistarmaðurinn sig í hlé, kemur sér þægilega fyrir í stól og fylgist með líkt og áhorfandinn heima í stofu. Bregður sér þannig í hlutverk áhorfandans.
Vart fer framhjá nokkrum að Þorvaldur Gylfason leggur mikið upp úr því að tengja hagstjórnarhugmyndir þeirra Jóns forseta, Einars Benediktssonar og Halldórs Laxness við nútímann. Hann talar óhikað til samtímans, skammast stundum dálítið út í fortíðina og segir stjórnvöldum fyrri tíðar til syndanna. Áhorfendur eru ekki vanir því að í sögulegum þáttum sé tengt með jafn afdráttarlausum hætti við mál í samtímanum, sum afar umdeild og stórpólitísk. Skoðanir eru örugglega skiptar um svo ögrandi framsetningu. Á meðan einum finnst rétt að hrista upp í áhorfandanum og vekja hann til umhugsunar með samtímaskírskotun telur annar að mál séu einfölduð um of, þau hafi verið sett fram í öðru samhengi og á öðrum tíma og eigi því ekki vel við í nútímanum. En lokaskilaboð Þorvaldar Gylfasonar eru skýr. Þrátt fyrir að þeir Jón Sigurðsson, Einar Benediktsson og Halldór Laxness hafi nær ávallt verið í minnihluta í innanlandsmálum standi ,,þeir nú allir þrír með pálmann í höndunum við upphaf nýrrar aldar. Viðhorf þeirra til markaðsbúskapar, millilandaviðskipta og erlendrar fjárfestingar í framfaraskyni hefur heimsbyggðin nær öll gert að sínu sjónarmiði hin síðustu ár með rök og langa reynslu að leiðarljósi.“
Morgunblaðið, 11., 18. og 25. nóvember 1998.