18. jan, 2008

Bústuðningur sem hlutfall af búvöruframleiðslu 2006

Mynd 96. Hér koma glænýjar tölur um búverndarkostnað beint frá OECD í París. Bein og óbein framlög til bænda árið 2006 eru sýnd sem hlutfall af verðmæti búvöruframleiðslunnar. EFTA-löndin þrjú, Ísland, Noregur og Sviss, auk Kóreu styrkja bændur um fjárhæð, sem nemur milli 60% og 70% af framleiðsluverðmætinu. (Um þetta sagði Jón Steinsson hagfræðingur í Deiglunni fyrir skömmu: ,,Þetta er náttúrulega klikkun.“) Evrópusambandið er hófsamara (og kallar þó ekki allt ömmu sína), að ekki sé talað um Nýja-Sjáland og Ástralíu, þar sem gerbreyting hefur orðið á landbúnaðarstefnunni síðustu 20 ár til gagngerra hagsbóta fyrir neytendur, bændur og skattgreiðendur. Heildarkostnaður vegna búverndarinnar 2006 nam 17 milljörðum króna á Íslandi skv. reikningum OECD; það gerir 18 þúsund krónur á mánuði á hverja fjögurra manna fjölskyldu um landið. Þessi kostnaður leggst í nokkurn veginn jöfnum hlutföllum á skattgreiðendur vegna beinna framlaga úr ríkissjóði og neytendur vegna hás matarverðs. Afurðaverð til íslenzkra bænda er 2,5 sinnum hærra en heimsmarkaðsverð, segir OECD. Sjá vefsetur OECD. Nánar er fjallað um málið í Búvernd: Er loksins að rofa til?