27. nóv, 2006

Bústuðningur á hvert ársverk í landbúnaði 1998-2000

Mynd 6. Búverndarvandinn er óleystur enn. Myndin sýnir, að beinn og óbeinn stuðningur stjórnvalda við landbúnað árin 1998-2000 nam 16.000 dollurum á hvert ársverk í landbúnaði í Evrópusambandinu þessi ár, 21.000 dollurum á hvert ársverk í Bandaríkjunum og 32.000 dollurum hér heima. Það gerir um 3,4 milljónir króna á hvert ársverk í sveitinni eða um 280.000 krónur á mánuði. Þetta er auðvitað engin hemja. Það hefur að vísu dregið nokkuð úr búverndinni síðustu ár í krónum talið, en það hefur gerzt nær eingöngu fyrir fækkun í bændastétt, svo að bústuðningurinn á hvert ársverk hefur aukizt víðast hvar. Við Íslendingar eigum heimsmetið. Næstmestur er bústuðningurinn í Sviss og Noregi: þeir virðast stundum telja sig hafa efni á nánast hverju sem er. Reynsla Nýsjálendinga og Ástrala sýnir á hinn bóginn, að það ber enga brýna nauðsyn til þess að ausa fé í landbúnað, því að landbúnaðurinn þarna suður frá gengur prýðilega án ríkisstyrkja. Afnám fjallhárra styrkja til nýsjálenzks landbúnaðar svo að segja í einu vetfangi árið 1984 leysti bændur úr læðingi, létti þungum byrðum af neytendum og skattgreiðendum og reyndist stuðla að stórfelldri nýsköpun í búrekstri auk verulegrar hagræðingar. Eigi að síður hníga haldbær menningar- og umhverfisrök að því, að almannavaldið styrki landbúnað að einhverju marki, en þó hóflega. Takið einnig eftir því, að búverndarstefna Evrópusambandsins kostar miklu minna á hvert ársverk í landbúnaði en búverndin hér heima. Við eigum ennþá langt í land. Aðrir mælikvarðar á bústuðninginn segja svipaða sögu; sjá myndir 46 og 47. Um búverndarvandann í Evrópu og annars staðar er meira að finna í Viðskiptin efla alla dáð, 29. kafla. Sjá einnig BúverndarblúsBúvernd: Er loksins að rofa til?, Tilbrigði við búvernd og Að byrja á öfugum enda.