8. júl, 2005

Brottfluttir umfram aðflutta 1961-2001

Mynd 71. Árin 1961-2001 fluttust 93 þúsund manns brott af landinu, en 89 þúsund fluttu búferlum hingað heim skv. upplýsingum Hagstofunnar. Brottfluttir umfram aðflutta voru því fjögur þúsund þessi 40 ár. Við höfum sem sagt tapað fólki. Þetta er að vísu ekki mikil slagsíða í landi með bráðum 300.000 íbúa. Og þó: spyrja má, hvort það hefði ekki verið nær, að okkur hefði tekizt að laða hingað fólk í miklu stærri stíl en raun varð á og missa færri burt úr landi. Hér eru sem betur fer engar hömlur lagðar á brottflutning fólks, en aðflutningur fólks hefur á hinn bóginn verið undir ströngu eftirliti, þótt íbúum Norðurlanda og annarra EES landa sé nú orðið frjálst að setjast hér að. Hvernig skiptast tölurnar um búferlaflutninga að og frá Íslandi á milli íslenzkra ríkisborgara og erlendra? Árin 1961-2001 fluttust 70 þúsund íslenzkir ríkisborgarar brott af landinu, en 56 þúsund fluttu hingað heim. Brottfluttir Íslendingar umfram aðflutta voru því 14 þúsund þessi 40 ár. Íslendingum erlendis hefur því fjölgað til muna undangengna áratugi. Fjöldi þess fólks, sem er fætt á Íslandi og á lögheimili erlendis, hefur tífaldazt síðan 1960 og er nú 22 þúsund. Íslenzkum ríkisborgurum með lögheimili erlendis hefur fjölgað með svipuðum hraða, og eru þeir nú 27 þúsund talsins. Tíundi hver Íslendingur býr nú orðið í útlöndum. Árin 1961-2001 fluttust 33 þúsund erlendir ríkisborgarar hingað heim, en 23 þúsund fluttu brott af landinu. Aðfluttir útlendingar umfram brottflutta voru því 10 þúsund þessi 40 ár. Sem sagt: 10 þúsund útlendingar fluttu til Íslands, á meðan 14 þúsund Íslendingar fóru burt, svo að fjöldi brottfluttra umfram aðfluttra síðan 1960 er þá 4 þúsund á heildina litið, eins og myndin að ofan sýnir. Um menntun þessa fólks er ekki hægt að dæma af tiltækum gögnum. Því er ekki að svo stöddu hægt að sannreyna þá tilgátu, að tiltölulega margir vel menntaðir Íslendingar hafi flutzt brott af landinu og tiltölulega margir lítt menntaðir útlendingar hafi flutzt hingað heim á móti, svo að meðalmenntun mannaflans hafi þá farið minnkandi af völdum þessara búferlaflutninga. Með þessu þarf að fylgjast. Af þessum tölum má ráða, hversu samsetning mannfjöldans hefur breytzt síðan 1960. Íbúafjöldi Íslands telur nú 288 þúsund manns. Af þeim fjölda eru 10 þúsund erlendir ríkisborgarar og 19 þúsund fæddir erlendis. Þetta er mikil fjölgun frá fyrri tíð, svo að mannlífið á Íslandi er nú fjölskrúðugra en nokkru sinni fyrr. Þessar tölur vitna eigi að síður um lægra hlutfall innflytjenda í heildarmannfjölda en víðast hvar í nálægum löndum. Þessu efni eru gerð nánari skil í greininni Hversu dregur Ísland að?