Óprentað
20. maí, 2000

Borðræða

Borðræða haldin í  30 ára stúdentsafmælisfagnaði að Hótel Borg 20. maí 2000.

Kæru bekkjarbræður og systur og aðrir gestir.

Ein ljósasta minning mín úr Menntaskólanum er reyndar ekki úr skólanum sjálfum, heldur héðan af Hótel Borg, nánar tiltekið af hádegisbarnum, sem hét svo þá, af því að hann var gluggalaus, svo að þar var ævinlega svartamyrkur svo í hádeginu sem á öðrum tímum dags. Þannig var (þetta var í fimmta bekk, ef ég man rétt), að við vorum að gera verklegar tilraunir í eðlisfræði, sulla einhverjum vökva úr einu glasi í annað til að sjá, hvernig hann skipti litum – ég segi ,,við”, en það er að vísu ekki alveg rétt, því að Baldvin sá yfirleitt um þetta. Nema Baldvin var að þessu sinni á undan áætlun, svo að við ákváðum að verðlauna hann og okkur sjálfa úti í vorsólinni. Mig minnir, að Dummi, sem gengur nú undir nafninu Guðmundur Benediktsson og er skipslæknir úti í heimi, hafi átt frumkvæðið að því, að við færum þessa vísindaferð á hádegisbarinn. Ég man, að maður sá varla handa sinna skil þarna inni, en við sáum þó grilla í skáld, að mig minnir, og heildsala, sem ég kannaðist við. Okkur fannst vistin þarna inni að minnsta kosti jafnfróðleg og verkleg eðlisfræði; við þóttumst sjá, að skáldið og heildsalinn skiptu litum, en við sáum það samt ekki gerla. Og svo, þegar við héldum, að það væri kominn tími til, af því að það sást ekki á klukku þarna inni í myrkrinu, snerum við aftur glaðir og reifir heim í Cösu Novu að ljúka tilraununum og ganga frá glösunum, og það gekk allt saman glimrandi vel, sagði Baldvin. Daginn eftir dundu þrjú þung högg á skólastofuhurðinni í miðjum íslenzkutíma, minnir mig. Það var eðlisfræðikennarinn, þungur á brún, en þó rólegur, og bað um að fá að tala við mig. Erindið var þetta: ,,Ég óska eftir því, að það finnist ekki framar áfengisþefur af þér – afsakið, yður – í tímum hjá mér.” Mér þótti þetta sanngjörn ósk eftir atvikum, og ég sagðist mundu gera allt, sem í mínu valdi stæði, til að vera allsgáður í eðlisfræðitímum eftir þetta, að minnsta kosti í verklegu, enda var komið langt fram á vor. Mig minnir, að félagar mínir hafi einnig látið sér þessa vinsamlegu umvöndun eðlisfræðikennarans að kenningu verða, en ég man það samt ekki glöggt.

Minningar mínar úr Menntaskólanum eru yfirleitt frekar óljósar. Einhverra hluta vegna hef ég til dæmis staðið í þeirri meiningu, að karlpeningurinn í okkar árgangi hafi ævinlega gengið í jakkafötum með bindi öll menntaskólaárin. Ég man þetta ekki, en ég dreg þessa ályktun af ,,circumstancial evidence”, eins og þeir segja hjá Scotland Yard. Annars hefði okkur eðlisfræðingunum varla verið hleypt inn á hádegisbarinn á Borginni – eða hvað? Þar ríkti skilyrðislaus bindisskylda. Og annars hefði ég varla háð einvígi við Guðna Harðarson, líffræðidoktor og listmálara, sem býr nú í Austurríki, með bindi að vopni, og skyldi sá fara með sigur af hólmi, sem héldi það út lengur að koma ævinlega með nýtt bindi í skólann dag eftir dag. Ég man, að ég fór halloka, eftir markra mánaða viðureign. En svo var mér bent góðfúslega á það ekki alls fyrir löngu, að það hafi að vísu verið þannig í þriðja bekk, að allir gengu með bindi, en í sjötta bekk hafi það ekki verið nema einn og einn, sem gekk með bindi. Ég bara man það ekki. Það má eflaust komast til botns í málinu með því að rannsaka ljósmyndir frá þessum árum, eða þá með atkvæðagreiðslu.

Þegar við urðum stúdentar, voru Íslendingar 200 þúsund og Reykvíkingar 80 þúsund. Sauðfjárstofninn taldi næstum 800 þúsund og var í uppsveiflu. Menntaskólarnir voru orðnir 6, og alls voru útskrifaðir 565 stúdentar þetta vor á móti rösklega 200 bæði 1950 og 1960. Við, sem urðum stúdentar, vorum sjöttungur af okkar aldursflokki, en þessu var misskipt eftir kynjum. Fimmti hver strákur varð stúdent, en aðeins tuttugasta hver stelpa. Meðalþyngd miðaldra karlmanna var 80 kíló og kvenna 65. Þetta voru þau ár, þegar Ford, Volkswagen og Moskovitsch voru algengustu ökutækin (ég hef þetta úr Hagskinnu, því að ég var búinn að steingleyma þessu), og gúmmískór voru ennþá algengur fótabúnaður, einkum til sveita, tvær tegundir, ,,standard” og ,,de luxe”, en síðar nefnda tegundin var með hvítri rönd. Ég man það alveg greinilega. Ég held ég muni það líka, að hvorug var vatnsheld. Þegar við urðum 20 ára stúdentar 1990, þá voru nýstúdentar næstum 1750, eða tæplega helmingur af öllum tvítugum Íslendingum, þar af meira en helmingur allra kvenna, en aðeins um þriðjungur karla. Hæð og þyngd hafa á hinn bóginn þróazt jafnar: miðaldra karlar lengdust um 3 sentímetra og þyngdust um 5 kíló að jafnaði frá 1970 til 1990 og konurnar líka. Það þarf ekki mikla leikni í prósentureikningi til að sjá, að þessi aukning hefur verið mest á  þverveginn.

Þessar tölur segja sína sögu, en tíðarandinn: hvernig var hann? Ég man það ekki svo glöggt að öðru leyti en því, að okkur leið flestum yfirleitt nokkuð vel, að okkur fannst, og við strákarnir vorum allir með bindi, nema ég muni það þá ekki heldur. Það gerðist ekki mjög mikið. Mig rámar í eitthvert setuverkfall, það var mikill hugur í mönnum, en ég man ekki lengur, um hvað málið snerist. En ég man, þegar síldin hvarf og atvinnuleysi fór upp fyrir 2% tvö ár í röð og gengið var fellt í tvígang og Rússar réðust inn í Tékkóslóvakíu. Og ég man eftir stríðinu í Víetnam. Ég hugsa stundum til þess, að meira en helmingur víetnömsku þjóðarinnar fæddist, eftir að stríðinu lauk árið 1975.

En hvað sem líður minnisverðum atburðum frá þessum árum, þá virðist ljóst, að einn viðburður yfirskyggði alla aðra í vitund okkar árgangs og markaði djúp spor, en þó misdjúp. Um þetta vitna órækar heimildir, þar á meðal Fána hin nýja, aðgengilegt rit, útgefið í Reykjavík 1995, en þar var safnað saman ýmsum nærgöngulum upplýsingum um hvern og einn í okkar hópi, auk ýmislegrar upprifjunar. Hafi einhver verið í vafa, þá tekur lausleg talning í Fánu af öll tvímæli um það, hvaða viðburður gnæfir yfir alla aðra í endurminningu menntaskólaáranna: það var þegar Glaumbær brann. Ég var alveg búinn að gleyma því, að Glaumbær hefði brunnið til kaldra kola. Sannast að segja á ég frekar óljósar minningar um Glaumbæ. Mig rámar að vísu aðeins í örtröð fyrir utan, en ég man ekki, hvernig þetta var eða hvernig aðgangi að þessari takmörkuðu auðlind var háttað. Var selt inn? Eða stóðu Sigurbjörn og þeir fyrir utan og úthlutuðu aðgöngumiðum á grundvelli veiðireynslu á einhverju tilteknu viðmiðunartímabili? Ég man það ekki. En þarna er kannski komin skýringin á því, hvers vegna ég man svona illa eftir Glaumbæ, því að eftir þvílíkri úthlutunarreglu hefði ég aldrei komizt þar inn fyrir dyr.

Það var líklega rétt fyrir jólin 1984, að ég heyrði hrópað til mín úr fjarlægð niðri í Austurstræti: ,,Þú ert ríkur, þú hlýtur að geta keypt bók af mér.” Þegar maðurinn kom nær, sá ég, að þetta var Pálmi Örn Guðmundsson, bekkjarbróðir okkar. Nú er Pálmi landsfrægur og verður kannski heimsfrægur, þó ekki af þessari bók, sem hann seldi mér á miðri götu, heldur af Englum alheimsins eftir bróður hans, Einar Má Guðmundsson. Ég sá í Morgunblaðinu í morgun, að bókin um Pálma er nú enn á ný efst á metsölulista bókabúðanna, og kvikmyndin var sýnd í Hollywood á dögunum. Við Pálmi spjölluðum saman í stutta stund þarna í Austurstrætinu. Bókin er prýðileg og heitir Tunglspá. Mig langar að lesa fyrir ykkur að endingu síðasta erindið úr síðasta kvæðinu í bókinni. Kvæðið heitir ,,Morgunstjarna”.

Þar ómar tónlist aldrei heyrð á jörð
og ilmur furðu mildur berst okkur að vitum
allt sem við skynjum er skínandi og fallegt
[og] skaparinn oss birtist í óteljandi litum.

Svo er einnig í bókinni kvæði, sem heitir ,,Ríkisstjórn Íslands”, en ég ætla ekki að lesa það.

Þakka ykkur fyrir áheyrnina og góða skemmtun.