Mannlíf
1. okt, 1984

,,Bókmenntir, listir, tækni og vísindi’’

Öll eigum við æskudrauma, og fer eftir ýmsu, hvernig þeir rætast. Austurríski hagfræðingurinn Jósef Schumpeter einsetti sér á unga aldri að verða þrennt í senn: mesti hagfræðingur heims, mesti hershöfðinginn og mesti kvennamaðurinn. Schumpeter sagði frá því síðar á ævinni, þegar hann leit um öxl, að hann hefði því miður haft of skamma viðdvöl í austurríska hernum til að verða hershöfðingi.

Ekki er mér kunnugt um söngrödd Schumpeters. Hins vegar hef ég áreiðanlegar tölfræðilegar heimildir fyrir því úr heimi læknavísindanna, að baritónsöngvurum verði miklu betur til kvenna utan óperusviðsins en tenórum – þveröfugt við það, sem allir þekkja af sviðinu sjálfu. Því miður kann ég ekki enn viðhlítandi skýringu á þessu fyrirbæri, en dettur helst í hug, að menn hafi ef til vill djúpa innri þörf fyrir að afla þess utan sviðs á morgnana, sem er af þeim haft á óperusviðinu í allra augsýn kvöld eftir kvöld.

Eiginlega var það ekki ætlun mín að segja lífsreynslusögur af hagfræðingum, söngvurum eða sjálfum mér á þessum annars virðulega vettvangi, heldur fjalla um “bókmenntir, listir, tækni og vísindi” – en þannig svaraði kona nokkur í Suður-Múlasýslu, þegar hún var spurð að því, hvað ætti hug hennar helzt að loknum heyskap.

Byrjum á efnafræði.

Mér var það eins og mörgum öðrum mikil ráðgáta í mörg ár, hver gæti verið skýringin á því undarlega grimmdaræði, sem rann á Rómverja á sinni tíð – þegar þeir skemmtu sér sem bezt við að fleygja trúboðum fyrir villidýr og annað eftir því. Menn héldu lengi vel, að ef til vill væri áfengisneyzlu um að kenna, en vín var mjög um hönd haft í Róm til forna og er enn. Þessi skýring virtist þó aldrei sérlega sannfærandi, enda bendir ekkert í reynslu síðari alda af víndrykkju til þess, að ölvun valdi ofbeldishneigð eða grimmdarlosta almennt og yfirleitt.

Víkur nú sögunni að enskum efnafræðingi, konu, sem fyrir skömmu fékk aðgang að uppgröfnum beinagrindum Rómverja frá óöldinni miklu um og eftir Krists burð. Í þessum gömlu grindum fannst nefnilega feiknamikið blý – svo mikið, að þessir Rómverjar höfðu bersýnilega þjáðzt af blýeitrun af háu stigi.

Nú varð konan forvitin. Hún kannaði fornar heimildir og komst þá að því, að einmitt um þetta leyti urðu mikil eldgos á þessum slóðum, þannig að aska lagðist yfir akra um landsins breiðu byggð. Og viti menn: vínið varð súrt. Þetta var að sjálfsögðu óviðunandi eins og drykkjuskap Rómverja var háttað, og tóku þeir því til bragðs að bæta efnum í vínið, svo að það mætti endurheimta fyrri sætleika. Við þetta varð vínið aftur drykkjarhæft, en í þessum bragðbætiefnum var á hinn bóginn allt þetta blý.

Nú var ekki nema eitt eftir: fá sér rottur (en þær eru friðsemdardýr eins og kunnugt er), fylla þær af blýi og bíða átekta. Árangurinn lét ekki á sér standa: rotturnar gengu af göflunum, réðust hver á aðra og rifu á hol eins og Rómverjar forðum.

Þessi merkilega vitneskja er nytsamleg nútímamönnum ekki bara vegna þess, að hún bendir til, að ef til vill sé vert að umgangast blý af nokkurri varúð, heldur líka vegna hins, að læknisfræðin kann enn sem komið er enga áreiðanlega aðferð til að eyða blýeitrun eftir á. Ef enski efnafræðingurinn reynist eiga kollgátuna um sambandið milli blýeitrunar og grimmdaræðis, hlýtur sú spurning að vakna, hvernig fara skuli með ofbeldisglæpamenn á okkar dögum, ef efnapróf virðast sýna, að grimmdarverk þeirra megi rekja til óstöðvandi blýeitrunar. Á að sleppa slíkum mönnum úr fangelsi eftir fárra vikna vist eins og nú er algengt? – ef þeim er grimmdin eins eðlileg og óhjákvæmileg og okkur hinum er að þamba vatn við þorsta.

Víkjum nú aftur að rottum. Eins og margir vita er það eitt af viðkvæmustu deiluefnum lækna og sálfræðinga, hvort rekja skuli geðveiki til efnafræðilegra skilyrða og erfða fyrst og fremst eða þá til óheppilegra uppeldis- og umhverfisáhrifa. Margir sálfræðingar hafa hallazt á umhverfissveifina í þessu sambandi.

Því til staðfestingar tóku nokkrir bandarískir sálfræðingar sér fyrir hendur fyrir nokkrum árum að kanna orsakir geðklofa með því að rannsaka rottur. Þeir settu dýrin í búr og tvö op á búrið: annað ferhyrnt, og þar var rottumatur fyrir innan, mikið lostæti; og hitt kringlótt og engin matur innan við. Eins og nærri má geta lærðist rottunum á örskömmum tíma að sækja mat í ferhyrnda opið.

Næsta skref sálfræðinganna var að dæla lofti upp í afturendann á dýrunum eins og til að koma þeim af stað, slípa síðan hornin fjögur á mataropinu og breyta jafnframt kringlótta opinu smám saman þannig, að það fór að líkjast ferhyrningi. Og viti menn: rotturnar rugluðust, og urðu sumar kleyfhugar. Sálfræðingarnir urðu alsælir. Ekki þótti samt öllum þetta nógu gott. Því fóru nokkrir efnafræðingar á stúfana, tóku rottur, fylltu þær af lofti – þær urðu kleyfhugar líka.

Hvað sem þessum merku athugunum líður, virðast rannsóknir lækna á geðheilsu tvíbura, sem alizt hafa upp aðskildir í ólíku umhverfi, taka af öll tvímæli um mikilvægi efna- og erfðaþáttarins. Þessar rannsóknir benda eindregið til þess, að geðheilsa eineggja tvíbura sé yfirleitt mjög svipuð eins og annað heilsufar þrátt fyrir gerólíkt uppeldi og umhverfi. Með þessu er þó ekki sagt, að umhverfisþátturinn skipti engu máli. Ef hann skipti engu máli, væri varla eins algengt og allir vita, að til dæmis stjórnmálaskoðanir foreldra og barna fylgist að – eða hvað?

Og alltaf er eitthvað nýtt að gerast í efnafræði. Fyrir fáeinum árum fannst til dæmis nýtt lífefni, sem líkaminn framleiðir sjálfur og hlaut nafnið endorfín. Heitið er samsett úr orðunum “endogenous morphine,” það er innvortis morfín. Mannslíkaminn reyndist sem sagt vera þeirrar undursamlegu náttúru, að þegar maður meiðir sig, fær hann morfínsprautu innan frá til að milda sársaukann. Þarna er komin skýringin á fyrirbæri, sem næstum allir þekkja af eigin raun: þegar maður til dæmis sker sig eða beinbrýtur, finnur hann til skyndilegs sársauka, sem dvín svo og dettur niður eins og dögg fyrir sólu.

Skynugir menn hafa bent á, að hér sé ef til vill að finna skýringuna á öðru forvitnilegu fyrirbæri mannlífsins: hvers vegna öllu þessu ágætisfólki, sem hleypur án afláts um Reykjavík, Róm og Ríó, finnst svona gott að hlaupa. Kenningin er sú, að áreynslan öll valdi þess konar sársauka, sem kallar á endorfín. Í þessu ljósi kann ánægjan, sem ólíklegasta fólk segist hafa af hlaupum og hvers konar líkamsrækt, að virðast auðskiljanlegri en ella.

En lífið er ekki eintóm efnafræði. Því langar mig að segja lesendum lítillega frá fimm síðustu kvikmyndum Grétu Garbó, en þær hafa eins og Gréta sjálf notið mikillar hylli í okkar heimshluta í næstum hálfa öld. Á meðan hefur leikkonan farið huldu höfði í New York, þar sem hún býr enn tæplega áttræð að aldri og einstæðingur.

Fyrst þessara fimm mynda er Anna Karenína frá 1935, byggð á samnefndri sögu Tolstoys. Hér segir frá ungri og fagurri konu, Önnu Karenínu, sem verður ástfangin af sjarmörnum Vronskí og segir skilið við eiginmann sinn, ógeðfelldan embættisdurg í Moskvu, til að geta notið samvista við sjarmörinn – og þarf til þess eftir þeirra tíma réttlæti að fórna ungum syni sínum og ærunni með.

Kveðjustund mæðginanna er eitthvert grátklökkasta atriði gervallrar kvikmyndasögunnar; kunnasta sönglag Tsjækovskís (,,Nur wer die Sehnsucht kennt”) er leikið, á meðan á þessu stendur, og verður mörgum áhorfendum grátgjarnt af því einu. Svo stingur sjarmörinn af, og Anna Karenína fleygir sér fyrir járnbrautarlest. ,,Gott á hana,” gall þá í gamalli konu, sem sat blýhörð á fremsta bekk í salnum; við hin héldum öll sem eitt með söguhetjunni frá upphafi til enda.

Næst kemur Kamelíufrúin (1936) og er gerð eftir samnefndri skáldsögu Alexanders Dumas. Söguþráðurinn er alþekktur úr óperunni La Traviata eftir Verdi. Hér segir enn af ungri og fagurri konu (Víóletta heitir hún í óperu Verdis), sem hefur viðurværi sitt af fylgilagi við ýmsa auðmenn í París. Svo verður hún ástfangin eins og gengur, nema föður elskhugans finnst hún ekki samboðin honum og fær hana (í áhrifamikilli barítónaríu í óperunni – sömu aríu og ýmsir æfa nú af kappi í ljósi þeirra upplýsinga, sem fram komu fyrst í þessari hugvekju) til að segja skilið við soninn til að varpa ekki skugga á dyggðuga fjölskyldu hans. Hún bjargar þessu með því að deyja úr berklum.

Þriðja myndin, frá 1937, heitir Marie Walewska (öðru nafni The Conquest). Nú er Pólland sögusviðið og söguhetjan ung og fögur aðalsfrú, sem myndin dregur nafn sitt af. Hún er gift gömlum greifa, annáluðum heiðursmanni, og fellur svo fyrir Napóleon Bónaparte af öllum mönnum, valdasjúkum og ógeðfelldum á allan máta. Nú vorum við öll, sem höfðum haldið með Grétu í hlutverki Önnu Karenínu og Víólettu gegnum þykkt og þunnt, í vanda stödd: var þetta nú ekki einum of langt gengið? Leikstjóri kvikmyndarinnar virðist líka hafa fyllzt efasemdum um, að hægt væri að selja svona mynd, því að hann tók til bragðs að skrifa Maríu út úr handritinu og beina heldur athyglinni að Bónaparte.

Fjórða myndin heitir Nínotchka (1939) og dregur nafn sitt af rússneskum viðskiptaráðunaut – ungri og fallegri konu eina ferðina enn. Nú kveður samt við nýjan tón. Nínotchka kemur köld og grimm með rússneskri sendinefnd til Parísar eftir byltingu til að selja gersemar keisarastjórnarinnar fyrir gjaldeyri, og gengur á ýmsu. Sitthvað drífur á daga hennar í París, svo að hún blíðkast von bráðar og lætur áður en lýkur sannfærast um hvort tveggja í senn: afl ástarinnar og yfirburði kapítalismans – og slær þannig tvær flugur í einu höggi, enda er þetta þriggja stjörnu mynd.

Nú stóð Gréta Garbó með pálmann í höndunum, og var nýrrar myndar með henni beðið með nokkurri óþreyju. 1941 kom svo ný mynd: Tvíburasysturnar (Two-Faced Woman). Þar segir frá siðprúðri konu, sem grunar bónda sinn um græsku og bregður sér í líki tvíburasystur sinnar – og sú kallar ekki allt ömmu sína – í því skyni að draga manninn á tálar og reyna þannig að halda meintri ótryggð hans á heimavelli. Er skemmst frá því að segja, að þessi mynd þótti og þykir enn heldur vandræðaleg, en fékk þó einhvern veginn miklu verri viðtökur en efni stóðu til. Margir virtir gagnrýnendur voru mjög stórorðir. Yfirleitt er talið, að þessi óvægna gagnrýni hafi hrætt Grétu Garbó frá því að leika í fleiri kvikmyndum og hrint henni þannig af hátindi ferils hennar. Hún var 36 ára.

Allar götur síðan hefur Gréta Garbó farið einförum. Ætli nokkur viti nema hún sjálf, hvort hana dreymdi um annað hlutskipti í æsku sinni?