Hagmál
4. okt, 1993

Blöð, skáld og vísindi

1. Tvö skáld

Balzac, eitt mesta sagnaskáld Frakka á síðustu öld, var í sífelldum peningavandræðum. Hann fór yfirleitt á fætur á miðnætti og skrifaði svo linnulaust fram að morgunverði ásamt aðstoðarmanni sínum. Síðan las hann og leiðrétti prófarkir fram að hádegi og skrifaði svo eldheit bréf til ástkvenna sinna um allar trissur. Því næst fékk hann sér gönguferð um París með viðkomu á kaffihúsum, í forngripaverzlunum og víðar til að njóta lífsins og viða að sér efni, en þurfti þó oftar en ekki að flýja inn fljótt aftur undan aðgangshörðum lánardrottnum. Hann gekk til náða um klukkan átta að kveldi og hvíldist til miðnættis, ef hvíld skyldi kalla. Þá rauk hann upp aftur og hélt áfram að skrifa standandi. Hann hrökk upp af um fimmtugt. Eftir hann liggja margir tugir skáldsagna og birtust sumar fyrst sem framhaldssögur í frönskum vikublöðum. Mestur að vöxtum er sagnabálkurinn Mannlegur skopleikur (La Comédie humaine), þar sem gervöllu þjóðlífi Frakklands í samtímanum er lýst í löngu máli stétt fyrir stétt: bændum, prestum, aðalsmönnum og þannig áfram. Fróðlegri heimild um þjóðfélags- og efnahagsmál Frakka á öldinni sem leið er varla hægt að hugsa sér.

Einu sinni fór Balzac til Feneyja að gera upp gamlar skuldir og var þar í níu daga. Fyrri helming heimsóknarinnar, 4½ dag, notaði hann til að ljúka skuldum sínum og öðrum viðskiptaerindum. Síðari helminginn notaði hann svo til þess að teyga andrúmsloftið í borginni, sigla um síkin og taka lífinu létt, kynnast fólkinu, högum þess og heimilisháttum, gleði þess, sorgum og sögu. Þegar hann kom heim aftur til Parísar, skrifaði hann bók um lífið í Feneyjum. Þessi bók varð síðan ein helzta heimildin um Feneyjar og Feneyinga næstu hundrað árin. Þannig var Balzac.

Og þannig getur skáldskapur leyst fræði og vísindi af hólmi, þegar því er að skipta, og öfugt.

Nútíminn á líka sinn Balzac, eða svo sýnist mér að minnsta kosti. Hann heitir James A. Michener. Hann er Bandaríkjamaður, hálfníræður að aldri og logar af lífi og fjöri. Hann byrjaði ekki að skrifa skáldsögur fyrr en hann var kominn á fimmtugsaldur, en fram að því hafði hann starfað við næstum allt, sem heiti hefur; hann kenndi til að mynda við Harvard-háskóla um skeið. Hann ólst upp bláfátækur föðurleysingi, las svo að segja allan Balzac fyrir fermingu og allt annað, sem hann komst yfir, og lagðist þá í ferðalög, sem hafa engan enda tekið allar götur síðan. Hann gerði sér til dæmis ferð hingað heim til Íslands til að hitta Halldór Laxness, löngu áður en Halldór varð heimsfrægur. Hann segist hafa unnið fyrir sér í 108 löndum. Fram á þennan dag geymir hann föt af sér á hótelum í ýmsum heimshornum (þar á meðal á Oriental-hótelinu góða í Bangkok, þar sem ein svítan heitir í höfuðið á honum), svo að hann geti ferðazt farangurs- og fyrirvaralaust. Hann hlustar á tónlist frá morgni til kvölds. Hann getur stjórnað fleiri óperum eftir minni en flestir starfandi hljómsveitarstjórar að eigin sögn. Hann hefur verið ráðgjafi margra forseta Bandaríkjanna um ýmis mál. Hann hefur sloppið lifandi úr þrem meiri háttar flugslysum. Hann hefur skrifað 35 bækur fram að þessu. Flestar þeirra eru staðbundnar skáldsögur og draga nafn sitt af sögusviðinu, til dæmis Alaska, Hawaii, Texas, Pólland og nú síðast Mexíkó, sem var að koma út. Ein fyrsta bókin hans, Sögur úr Suður-Kyrrahafi, er fyrirmynd söngleiksins fræga, South Pacific. Allar þessar sögur er stútfullar af staðreyndum um löndin og fólkið, sem byggir þau, sögu þess, siði og menningu. Þetta eru því ekki skáldsögur í venjulegum skilningi, heldur alþýðleg fræðirit, sem milljónir lesenda um allan heim hafa notað sem ferðahandbækur auk annars. Mér er það til efs, að nokkur núlifandi maður hafi kennt nútímafólki meiri landafræði og sögu en þessi bandaríski Balzac, sem er þó hvorki landfræðingur né sagnfræðingur.

Stefan Zweig skrifaði ævisögu Balzacs. Það er ekki síðri bók en Veröld sem var (Die Welt von Gestern). Michener gaf út sjálfsævisögu sína The World is My Home í fyrra. Hún gefur skáldsögum hans ekkert eftir.

 

2. Dagblöð

Vönduð dagblöð geta gert sama gagn að sumu leyti og góður skáldskapur. Þau segja samtímasögu. New York Times er þess konar blað, svo að eitt dæmi sé tekið utan úr heimi. Fréttaritarar blaðsins úti um allan heim lifa og hrærast með þeim þjóðum, sem þeir flytja fréttir af frá degi til dags, læra gjarnan mál þeirra, ef þeir kunnu það ekki fyrir, og segja lesendum sínum endalausar sögur af öllu, sem fyrir augu þeirra og eyru ber í gistivistinni.

Einn þessara blaðamanna heitir Hedrick Smith. Hann var fréttaritari New York Times í Sovétríkjunum fyrir 20 árum og skrifaði þá prýðilega bók um land og þjóð, The Russians. Svo fór hann aftur austur að vitja vina sinna á valdatíma Gorbatsjovs, ferðaðist um landið þvert og endilangt og skrifaði nýja bók, The New Russians, engu síðri en hina fyrri. Þessar bækur blaðamannsins eru merkilegar heimildir um Sovétríkin sálugu, svo fróðleg samtímasaga, að mér er til efs, að margir fræðimenn geti farið í fötin hans.

Smith er vissulega ekki einn um vönduð vinnubrögð í bandarískri blaðamannastétt. Eftirmaður hans á fréttastofu New York Times í Moskvu skrifaði líka bók um Rússland og fréttaritari Washington Post sömuleiðis. Og svo er David Lamb, blaðamaður við Los Angeles Times. Hann var fréttaritari blaðsins í Afríku á áttunda áratugnum, átti heima í Naíróbí og fór um álfuna alla, 50 lönd, í leit að sögum að segja lesendum sínum. Upp úr þessum jarðvegi spratt fyrsta bók hans, The Africans. Þar er dregin upp áhrifamikil mynd af Afríku: löndum álfunnar, leiðtogum fólksins og fólkinu sjálfu. Nokkrum árum síðar gerðist Lamb þessi fréttaritari blaðs síns í Austurlöndum nær, tók sér þá bólfestu í Kaíró og var jafnframt á faraldsfæti um átján Arabalönd. Eftir þessa dvöl skrifaði hann aðra bók, The Arabs. Þessar ferðabækur blaðamannsins gefa góðri alþýðusagnfræði ekkert eftir. Þær eru líka góður skáldskapur.

Þessir blaðamenn og margir aðrir skrá samtímasögu frá degi til dags og skýra þjóðfélagið og örlög einstaklinga nær og fjær fyrir lesandanum. Það er hlutverk þeirra. Góð dagblöð og tímarit eru nauðsynleg uppspretta skemmtunar, fróðleiks og upplýsinga. Fræðimenn og skáld gegna í raun og veru svipuðu hlutverki í samfélaginu og blaðamenn, þótt með öðrum hætti sé. Skáldin reyna að skemmta lesandanum eða skerpa skilning hans á lífinu og tilverunni, hvert með sínum hætti. Þetta er líka hlutverk fræðimanna, til dæmis hagfræðinga, heimspekinga og sagnfræðinga. Þeir ná iðulega mestum árangri, þegar þeir gefa hugarfluginu lausan taum eins og skáld, þótt ætlunarverk þeirra séu oft skyldari viðfangsefnum blaðamanna, það er að brjóta eitthvert afmarkað viðfangsefni til mergjar, til dæmis með því að gera grein fyrir orsökum atvinnuleysis og efnahagskreppu á tilteknum stað og tíma eða þá að rekja tengsl á milli atburða veraldarsögunnar á einhverju tilgreindu tímabili. Alveg eins og sagnfræðingurinn skyggnist aftur í tímann og reynir að greina samhengi í rás atburðanna og atferli einstaklinganna og skoða samtímann í birtu sögunnar, reynir hagfræðingurinn að greina orsakasamhengi í ölduróti efnahagslífsins og leggja á ráðin um hagstjórn og hagstjórnarfar eftir föngum. En þeir lifa hvorugur fyrir líðandi stund eins og blaðamaðurinn, heldur reyna þeir að setja viðfangsefni sín í víðara samhengi í tíma og rúmi.

Þetta leiðir hugann að þjálfun blaðamanna. Nú þykjast ýmsir sjá þann kost vænstan til að bæta blöð og þjónustu þeirra við lesendur að senda verðandi blaðamenn í sérstaka blaðamannaþjálfun í háskólum eða annars staðar. Reynslan frá útlöndum virðist þó benda til þess, að í blaðamannaskólum læri menn lítið að gagni, sem þeir geta ekki lært af reynslu á blöðunum sjálfum hvort sem er. Hitt virðist miklu vænlegra að laða að blöðunum og öðrum fjölmiðlum fólk, sem hefur lært eitthvað, sem það á ekki kost á að læra í blaðamennsku. Blöðin þurfa vel þjálfaða sagnfræðinga, sem kunna að setja atburði líðandi stundar í samhengi við liðna tíð; þau þurfa þrautþjálfaða hagfræðinga til að sjá í gegnum firrurnar í málflutningi margra stjórnmálamanna og annarra og til að geta skýrt efnahagsmál heima og erlendis fyrir lesendum á einfaldan hátt; þau þurfa snjalla náttúruvísindamenn til að fjalla skynsamlega um landrækt og umhverfisvernd; og þennan lista mætti hafa miklu lengri. Því að góður blaðamaður er bæði fræðimaður og skáld.

 

3. Skyldur fræðimanna

Fræðimenn hafa skyldum að gegna við fræði sín, svo sem augljóst er, og einnig við almenning. Stærðfræðingar hljóta til dæmis að hafa áhuga á því, að stærðfræði sé kennd almennilega á öllum skólastigum og að almenningur kunni að leggja saman tvo og tvo. Fæstir vilja búa í fílabeinsturni.

Hagfræðingar hljóta að hafa svipaðan metnað fyrir hönd fræða sinna. Samt er það svo, að hér á landi og víða í nálægum löndum ljúka menn iðulega stúdentsprófi fullir fróðleiks um Isaac Newton og Albert Einstein án þess að vita yfirhöfuð nokkurn skapaðan hlut um Adam Smith og John Maynard Keynes. Hér eru raunvísindi, til að mynda eðlisfræði og efnafræði, skyldugreinar í framhaldsskólum ár eftir ár, en félagsvísindi, til dæmis hagfræði og lög, komast menn yfirleitt ekki í kynni við að neinu gagni, nema þeir ætli sér að verða hagfræðingar, viðskiptafræðingar eða lögfræðingar að loknu löngu háskólanámi. Þessi slagsíða er hættuleg. Það er ekki aðeins, að flestir framhaldsskólanemendur fari á mis við hagfræði og skyldar greinar að mestu leyti, heldur eru margir langskólagengnir menn í öðrum greinum tilfinnanlega fáfróðir um hagfræði og efnahagsmál, af því að þeir hafa ekki átt kost á kennslu í þessum fræðum í skóla. Þessa sér víða stað, til dæmis í Fréttabréfi Háskóla Íslands, þar sem einn prófessor í Raunvísindadeild Háskólans, annar tveggja ritstjóra fréttabréfsins, birtir makalausan þvætting um hagfræðinga og efnahagsmál úr eigin penna með reglulegu millibili.

Landlæg fákunnátta um efnahagsmál veldur margvíslegum skaða. Það er beinlínis óþrifnaður að öllum þeim þvættingi, sem fáfróðir stjórnmálamenn og ýmsir aðrir láta frá sér fara um efnahagsmál á opinberum vettvangi. Eða hvað fyndist mönnum, ef dagblöðin, útvarp og sjónvarp — og Fréttabréf Háskólans! — væru uppfull af alls kyns þvælu um stjörnuspeki og skottulækningar? Stjarnfræðingar og læknar myndu ekki líða það í langan tíma. Þeim rynni blóðið til skyldunnar.

Þetta er samt ekki allt. Fáfræðin leiðir til þess, að menn sjá ekki auðveldlega í gegnum óskynsamlegan eða jafnvel beinlínis rangan málflutning um efnahagsmál og verða því fórnarlömb óprúttinna stjórnmálamanna og erindreka sérhagsmunasamtaka frekar en ella. Hagstjórnarfarið verður að sama skapi verra en það þyrfti að vera vegna ónógs aðhalds af hálfu blaðamanna og almennings.

Tökum dæmi. Heilsufar hefur batnað til muna víðast hvar í þriðja heiminum með auknum þrifnaði og betri lyfjum og læknishjálp á liðnum árum. Galdra- og grasalækningar eru á undanhaldi fyrir nútímalegri læknislist. Líf fólksins heldur áfram að lengjast yfirleitt. Meðalævi Indverja hefur til dæmis lengzt úr 35 árum í 58 ár á einum mannsaldri eða svo. Nákvæmlega hið sama á við um efnahagslíf þjóðanna. Með auknum þrifnaði og betri og heilbrigðari hagstjórnarháttum er hægt að styrkja innviði efnahagslífsins til muna um allan heim og bæta lífskjör almennings um leið. Einmitt þetta vakir nú fyrir stjórnvöldum í kommúnistaríkjunum fyrrverandi í Austur-Evrópu.

Hagfræðingar bera að nokkru leyti ábyrgð á þessu ástandi sjálfir. Þeir hafa ekki lagt sig fram um að koma hagfræði á framfæri sem sjálfsagðri kennslugrein í framhaldsskólum til jafns við eðlisfræði til dæmis. Sumir hagfræðingar eru raunar þeirrar skoðunar, að hagfræði henti ekki alls kostar vel til kennslu í framhaldsskólum; hún sé of þung. Reynsla Bandaríkjamanna bendir þó til hins gagnstæða. Þar í landi sækir um þriðjungur ungs fólks háskóla frá 18 ára aldri til 22 ára aldurs eða þar um bil. Fjórir af hverjum fimm lesa nokkurn veginn jafnmikla hagfræði 18 eða 19 ára gamlir og kennd er tvítugu fólki á fyrsta ári í Viðskipta- og hagfræðideild Háskólans og í flestum öðrum evrópskum háskólum. Hagfræði er eftirsótt og vel þokkuð námsgrein meðal æskufólks í bandarískum háskólum, yfirleitt óháð því hvort það ætlar sér að verða læknar eða lögfræðingar eða eitthvað annað.

Af þessu dreg ég þá ályktun, að hagfræði geti hentað prýðilega til kennslu í efri bekkjum íslenzkra framhaldsskóla að minnsta kosti, hvort sem er í stærðfræðideildum eða máladeildum. Hagfræði á brýnt erindi við framhaldsskólanemendur ekki síður en eðlisfræði. Þarna er verk að vinna fyrir hagfræðinga. Reyndar eru hagfræðingar báðum megin Atlantshafs byrjaðir að átta sig á þessu. Bæði í Evrópu og Ameríku er vaxandi áhugi á því meðal hagfræðinga og stjórnvalda að efla hagfræðikennslu í framhaldsskólum með menntun og velferð almennings að leiðarljósi. Við þurfum að gera þetta líka hér heima.

Raunvísindamenn hafa yfirleitt sinnt skyldum sínum við almenning betur að ýmsu leyti en hagfræðingar og aðrir félagsvísindamenn gegnum tíðina. Tímaritið Scientific American er eitt dæmi um það. Þetta mánaðarrit lesa margir sér til fróðleiks og yndisauka og verða viðræðuhæfir um raunvísindi fyrir bragðið. Það er þess vegna sjaldgæft, að til að mynda hagfræðingar verði sér til minnkunar með því að fara rangt með raunvísindalegar staðreyndir eða röksemdir á opinberum vettvangi. Hagfræðingur, sem léti slíkt henda sig, hefði enga afsökun. Fáfræði er yfirhöfuð engin afsökun í upplýstu þjóðfélagi. Hagfræðingar hafa hins vegar yfirleitt ekki borið það við að veita raunvísindamönnum sams konar þjónustu og þeir hafa þegið af þeim. Það gætu hagfræðingar þó gert með því að halda úti myndarlegu alþjóðlegu tímariti til þess að bæta skynbragð fólks í öðrum greinum og almennings yfirhöfuð á hagfræði og efnahagsmál.

Mér sýnist vera brennandi þörf fyrir slíkt tímarit: það gæti heitið Economic European og höfðað til svipaðs lesandahóps og Scientific American. Þar myndu hagfræðingar skýra hagfræðileg viðfangsefni og vandamál fyrir lesendum í máli og myndum á aðgengilegan hátt. Af nógu er að taka úr rösklega 200 ára þróunarsögu hagfræðinnar allar götur aftur til Adams Smith. Og nægur virðist áhuginn vera meðal almennings úti um allar jarðir. Höfuðáherzla væri lögð á hagfræði sem fræðigrein og greiningartæki og jafnframt sem leiðarvísi um löggjöf, hagstjórn og rekstur fyrirtækja. Hins vegar þyrfti ekki að fjalla mikið um efnahagsmál frá degi til dags, því að til þess eru vikurit eins og til dæmis The Economist og Vísbending hér heima.

Hagfræðingar bera ábyrgð gagnvart almenningi ekki síður en eðlisfræðingar og læknar til dæmis. Þessa ábyrgð hafa hagfræðingar ekki axlað til fulls að minni hyggju, hvorki hér heima né erlendis. Hefðu jafnmargir raunvísindamenn hneigzt að villukenningum kommúnista um efnahagsmál á þessari öld og raun ber vitni, ef hagfræðingar hefðu lagt fullnægjandi rækt við fyrirbyggjandi almannafræðslu? Ég efa það.


Hagmál
, 34. árgangur, 1993.