18. okt, 2008

Ávarp á útifundi á Austurvelli

Lýðræðisríki reisa trausta veggi milli framkvæmdarvalds, löggjafarvalds og dómsvalds. Þar er borin virðing fyrir þrískiptingu ríkisvaldsins, virðing fyrir valdmörkum og mótvægi. Þar eru reistar skorður gegn samþjöppun valds á of fáar hendur. Í þroskuðu lýðræðisríki gæti það ekki gerzt, að formaður stærsta stjórnmálaflokksins skipaði sjálfan sig seðlabankastjóra án andmæla af hálfu annarra stjórnmálaflokka eða fjölmiðla.

Við stöndum nú frammi fyrir fjárhagsvanda, sem hefur hvolfzt af miklum þunga yfir Ísland. Stjórnvöld virtu að vettugi varnaðarorð úr ýmsum áttum.

Mikill hluti þjóðarinnar hefur fylgzt agndofa með rás atburðanna. Verum minnug þess, að innan við þriðjungur þjóðarinnar ber traust til Alþingis – og það var áður en bankarnir hrundu. Þjóðin vakir.

Stjórnmál og viðskipti eru óholl blanda. Íslenzkt efnahagslíf var lengi gegnsýrt af stjórnmálum. Einkavæðingu banka og ríkisfyrirtækja var ætlað að uppræta þá skipan. Markmið einkavæðingarinnar var að skerpa skilin milli stjórnmála og viðskipta til að dreifa valdi á fleiri og hæfari hendur.

Ríkisstjórnin brást þessu ætlunarverki. Hún afhenti ríkisbankana mönnum, sem voru handgengnir flokkunum og höfðu enga reynslu af bankarekstri. Í höndum þeirra uxu bankarnir landinu yfir höfuð og vörpuðu með leynd þungum ábyrgðum á þjóðina. Seðlabankinn, ríkisstjórnin og fjármálaeftirlitið höfðust ekki að, unz stíflan brast.

Nú býst ríkisstjórnin sjálf til að rannsaka tildrög bankakreppunnar. Við þurfum enga hvítþvottarbók frá ríkisstjórninni. Betur færi á, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beitti sér fyrir skipan rannsóknarnefndar, eins konar sannleiks- og sáttanefndar, sem verði skipuð reyndum erlendum sérfræðingum. Við þörfnumst slíkrar nefndar til að endurreisa traustið, sem við þurfum að geta borið hvert til annars, og traust umheimsins. Farsæl samfélagsþróun útheimtir, að sagan sé rétt skráð og öllum hliðum hennar til haga haldið.

Bankakreppa á Íslandi er ekki einkamál Íslendinga. Umheimurinn þarf að fá að vita, hvað fór úrskeiðis. Aðrar þjóðir þurfa að fá að læra af mistökum íslenzkra stjórnvalda auk þess sem þær búast nú til að rétta Íslandi hjálparhönd í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.

Reynslan sýnir, að bankahrun getur leitt af sér óstöðugt stjórnarfar og myndun öfgahópa, sem bítast um brakið og berja stríðsbumbur, iðulega með þjóðrembu að yfirvarpi. Hlustum á allar raddir, en hlýðum þó aðeins þeim, sem boða undanbragðalaust uppgjör við liðna tíð og stefna á endurreisn íslenzks efnahagslífs með hagkvæmni, réttlæti og lýðræði að leiðarljósi.