28. nóv, 2006

Aukinn ójöfnuður á Íslandi 1995-2004

Mynd 102. Ójöfnuður á Íslandi hefur aukizt til mikilla muna undangengin ár. Þessa breytingu virðist mega rekja öðrum þræði til kvótakerfisins, sem lagði grunninn að gríðarlegri tilfærslu tekna og eigna á Íslandi. Veiðigjaldsmenn hafa árum saman varað við afleiðingum ókeypis úthlutunar aflaheimilda, m.a. með þeim rökum, að ókeypis úthlutun væri til þess fallin að auka á ójöfnuð í þjóðfélaginu. Nú blasir það við í opinberum tölum, að sú hefur einmitt orðið raunin. En fleira hangir á spýtunni. Frívæðing efnahagslífsins hér heima og erlendis hefur hneigzt til að draga úr jöfnuði bæði hér og þar. Tölurnar á myndinni eru Gini-stuðlar, en það er viðtekinn mælikvarði á ójöfnuð í skiptingu tekna milli manna. Gini-stuðullinn er reiknaður úr gögnum um tekjur manna, yfirleitt skv. skattframtali, og tekur í minnsta lagi gildið 0, ef allir hafa sömu tekjur (fullkominn jöfnuður), og í mesta lagi 100, ef allar þjóðartekjurnar falla einum manni í skaut (fullkominn ójöfnuður). Ef horft er til heimsins alls, nær Gini-stuðullinn frá tæplega 25 í Danmörku, þar sem tekjuskiptingin er nú jöfnust, upp í tæplega 71 í Namibíu, þar sem hún er nú ójöfnust. Stuðlarnir á myndinni eiga við ráðstöfunartekjur hjóna og sambýlisfólks með fjármagnstekjum skv. skattframtali ásamt barna- og vaxtabótum að frádregnum tekju-, eignar- og fjármagnstekjuskatti. Hér eru jöfnunaráhrif skattlagningar og almannatrygginga því tekin með í reikninginn. Myndin sýnir, að Gini-stuðullinn hefur hækkað um eitt stig á ári að jafnaði síðan 1995 og vel það. Gini-stuðullinn hefur því hækkað um tíu stig – það gerir helmingshækkun! – á aðeins níu árum. Mér er ekki kunnugt um, að svo skyndileg umskipti í tekjuskiptingu hafi nokkurn tímann átt sér stað í nálægum löndum. Tíu stiga munur á Gini-stuðlum milli landa svarar til munarins á jöfnuði í tekjuskiptingu í Noregi og Bretlandi (sjá næstu mynd). Það yrðu væntanlega uppi fótur og fit í Noregi, ef tekjuskiptingin þar í landi hefði á tæpum áratug færzt í sama horf og á Bretlandi, án þess að frá því væri greint á áberandi stað í opinberum hagskýrslum. Sjá meira um málið í greininni Bað einhver um aukinn ójöfnuð?.