Atvinnuskipting mannaflans 1801-1998
Mynd 33. Um aldamótin 1800 lifðum við Íslendingar næstum eingöngu á landbúnaði. Nánar tiltekið höfðu 82% af mannaflanum framfæri sitt af búskap, og 6% sóttu sjóinn meðfram búskapnum. Iðnaður var næstum enginn (1%). Um 11% mannaflans voru skráð í þjónustustörf, en í þeim hópi eru ómagar flestir og síðan þeir, sem stunda ,,ólíkamlega atvinnu“, svo sem embættismenn, menntamenn, málafærslumenn, blaðamenn o.þ.h. (Hagskinna, bls. 211). Um aldamótin næst á undan voru nær allir skráðir bændur skv. Manntalinu 1703, en sumir gegndu þá aukastörfum eins og æ síðan, og voru þá hreppstjórar (670), prestar (245), smalar (112), smiðir (108), skólapiltar (76), þjónustumenn (71), lögréttumenn (43), vikapiltar (32), skólalærðir (26), sýslumenn og lögsagnarar (21), hestasveinar (14), próventumenn (9), skólameistarar og kennarar (7) og böðlar (7), svo að 14 algengustu starfsheitin séu talin upp í réttri röð. Atvinnuskipting kvenna var þessi: þjónustustúlkur (142), barnfóstrur (38), vikastúlkur (30), lærðra manna ekkjur (26) og smalastúlkur (13). Takið eftir því, að lærðra manna ekkjur voru jafnmargar og lærðir menn. Um aldamótin 1900 hafði atvinnuskiptingin breytzt talsvert: hlutdeild landbúnaðar í mannaflanum var þá komin niður í 60% til að rýma fyrir aukinni vinnu við sjávarsíðuna (17%) og iðnaði (5%). Þegar líða tók á öldina, urðu breytingarnar stórsígari. Árið 1960 var hlutdeild landbúnaðarins í mannaflanum komin niður í 15%, og hlutdeild útvegsins hafði minnkað í 15%. Iðnaður og þjónusta höfðu tekið kipp og tóku nú til sín 26% og 44% af mannaflanum, eða samtals 70%. Þessi þróun hefur haldið áfram síðan 1960. Sjá nýrri tölur á mynd 111. Heimild: Hagstofa Íslands.