Atvinnuleysi 1980-1999
Mynd 38. Mikið og þrálátt atvinnuleysi hefur einkennt efnahagsþróun Evrópusambandslandanna síðan um 1980. Atvinnuleysið í Evrópu stafar þó ekki af því, að Evrópusambandinu hafi verið mislagðar hendur í efnahags- og atvinnumálum, því að atvinnumál eru ekki í sameiginlegum verkahring Sambandsins. Vandinn er sá, að einstökum aðildarlöndum, einkum Frökkum, Þjóðverjum og Ítölum, hefur mistekizt að gera vinnumarkaðinn á hverjum stað svo úr garði, að allir hafi næg verk að vinna. Vandinn er með öðrum orðum staðbundinn. Þetta mikla atvinnuleysi má líklega að mestu leyti rekja til ósveigjanleika og miðstýringar á vinnumarkaði víðast hvar á meginlandinu í andstöðumerkingu við sveigjanlegan og dreifðan vinnumarkað í Bandaríkjunum, þar sem atvinnuleysi er miklu minna en í Evrópu og fer minnkandi, eins og myndin sýnir (sjá einnig mynd 39). Við þetta bætist mikið aðhald í peningamálum Evrópusambandsríkjanna, sem hefur dregið úr eftirspurn eftir vinnuafli. Þó hefur rofað til í einstökum aðildarlöndum Sambandsins, eins og til dæmis í Danmörku, Bretlandi, Finnlandi, Hollandi og Svíþjóð, þar sem atvinnuleysi hefur minnkað til muna undanfarin ár. Í Finnlandi virðist mega rekja minna atvinnuleysi að nokkru leyti beinlínis til inngöngu Finnlands í Evrópusambandið í ársbyrjun 1996, því að eftir það hríðlækkaði matarverð í Finnlandi, svo að kaupmáttur heimilanna jókst og aukin eftirspurn eftir vinnuafli fylgdi í kjölfarið. Sama á við um Svíþjóð, en í minni mæli, þar eð landbúnaðarstefna Svía var ekki eins óhagkvæm og landbúnaðarstefna Finna fyrir inngönguna. Neðri hluti myndarinnar sýnir atvinnuleysið í Japan og hér heima til samanburðar. Japanar búa við sveigjanlegan vinnumarkað, svo að atvinnuleysi hefur haldizt lítið í landinu, en það hefur að vísu aukizt verulega síðustu ár vegna þess, hversu hagvöxtur hefur hægt á sér. Telja má víst, að atvinnuleysið þar eystra minnki aftur, þegar hagkerfið réttir úr kútnum. Atvinnuleysi hefur allajafna verið mjög lítið á Íslandi, en það jókst þó verulega á fyrri helmingi 10. áratugarins, þegar hægði á hagvexti um skeið. Atvinnuleysið hefur síðan minnkað aftur niður í 2% af mannafla og er nú minna en jafnvel í Japan, að ekki sé minnzt á Evrópusambandið. Lítið atvinnuleysi hér heima má þakka mikilli uppsveiflu í efnahagslífinu og heimsbúskapnum undangengin ár og einnig hinu, að íslenzkur vinnumarkaður er að ýmsu leyti sveigjanlegri en gengur og gerist í nálægum löndum. Þó vantar talsvert enn á sveigjanleikann, enda er vinnumarkaðsskipulagið að miklu leyti óbreytt enn frá fyrri tíð og gafst þá ekki vel.