11. jún, 2008

Aflamagn, eignir og skuldir útvegsfyrirtækja 1980-1999

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd 37. Efsti ferillinn á myndinni sýnir þróun skulda íslenzkra sjávarútvegsfyrirtækja á föstu verðlagi miðað við lánskjaravísitölu síðan 1980 (sjá  mynd 2, þar sem skuldirnar eru sýndar á verðlagi hvers árs). Neðsti ferillinn sýnir þróun aflamagns á Íslandsmiðum á föstu innanlandsverði, og er þá miðað við meðalverð útfluttra sjávarafurða skv. útreikningum Þjóðhagsstofnunar. (Aflamagn hefur staðið nokkurn veginn í stað á þennan kvarða, þótt aflaverðmæti hafi aukizt á föstu verðlagi; sjá mynd 3). Myndin að ofan sýnir, að skuldir útvegsfyrirtækja hafa næstum þrefaldazt að raunverulegu verðmæti síðan 1980, þótt fiskaflinn hafi staðið nokkurn veginn í stað. Þetta þýðir, að meðalframleiðni lánsfjár í útvegi hefur minnkað um meira en helming. Athuganir á framleiðni í sjávarútvegi þurfa að taka lánsfé með í reikninginn ekki síður en önnur aðföng, svo sem vinnuafl, fjármagn og eldsneyti. Lánsfjárþáttinn vantar í þær skýrslur, sem teknar hafa verið saman að undanförnu um framleiðni í sjávarútvegi, meðal annars á vegum sjávarútvegsráðuneytisins. Heildarframleiðni í sjávarútvegi mælist meiri en hún er í raun og veru, ef mikilvægan framleiðsluþátt, lánsfé í þessu dæmi — eða vinnufé, eins og það er stundum kallað erlendis — vantar í útreikningana. Um það er þó ekki hægt að fullyrða á þessu stigi, hversu mikil skekkja hlýzt af því að skilja lánsféð út undan, enda tíðkast það yfirleitt ekki að líta á lánsfé sem framleiðsluþátt í framleiðniathugunum. En það virðist þó nauðsynlegt í þessu dæmi, þótt það sé ekki auðvelt, enda hafa íslenzk útvegsfyrirtæki alla tíð verið harla frek til lánsfjár. Vandkvæðin stafa meðal annars af því, að vinnufé skarast við önnur aðföng: útvegsmenn nota lánsfé til að kaupa skip og annað, svo að þá þarf að varast tvítalningu. Raunar kemur einnig til greina að bæta eiginfé við lánsfé til að skoða framleiðni framkvæmdafjár í heild. Miðferillinn á myndinn sýnir þróun eigna (þ.e. skulda og eiginfjár) útvegsfyrirtækja á föstu verðlagi miðað við lánskjaravísitölu síðan 1980. Eignir þeirra hafa aukizt mun hægar en skuldir, enda hefur eiginfjárhlutfall útvegsins í heild lækkað til muna á tímabilinu, eða úr 57% árið 1980 í 25% árið 1999. Eignirnar hafa þó aukizt um meira en helming, þótt aflinn hafi staðið í stað og varla það. Framleiðni framkvæmdafjár hefur því minnkað um meira en þriðjung. Sjá Framleiðni og lánsfé.