DV
8. feb, 1989

Aðgerðir í vaxtamálum eru feiknalega óskynsamlegar

Austantjaldsbragur á aðgerðum stjórnarinnar:

Aðgerðir í vaxtamálum eru feiknalega óskynsamlegar

— segir Þorvaldur Gylfason

,,Það er ekki traustvekjandi að fyrsti kaflinn í boðuðum aðgerðum ríkisstjórnarinnar fjallar um verðlagseftirlit. Það er tímaskekkja. Verðlagseftirlit tíðkast hvergi í Vestur-Evrópu. Það er yfirleitt aldrei annað en gríma til að fela máttleysi stjórnvalda í efnahagsmálum. Það er hálfgerður austantjaldsbragur á þessu,” sagði Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði.

“Mér finnst vanta í efnahagsaðgerðir ríkisstjórnarinnar skynsamlega heildarsýn yfir þann vanda sem við er að etja. Það vantar til dæmis alla greinargerð með nauðsynlegri endurskipulagningu bankakerfisins. Það vantar líka alla greinargerð um bresti í innviðum atvinnulífsins sem hafa hrjáð það alvarlega á undanförnum árum. Það er einungis vikið að þessu í einni málsgrein seint í ræðu forsætisráðherra.

Annað sem mér finnst mjög alvarlegt er að fyrirhugaðar ráðstafanir í vaxtamálum eru feiknalega óskynsamlegar.

Þar á ég við tvennt. Annars vegar þá breytingu á lánskjaravísitölunni sem var kynnt fyrir skömmu. Það er ein óviturlegasta stjórnvaldsákvörðun sem hér hefur verið tekin um árabil að mínum dómi og er þá langt til jafnað. Hún er óviturleg af tveimur ástæðum. Annars vegar kallar ríkisstjórnin yfir sig lögsókn úr öllum áttum og eins er hún til þess fallin að draga stórlega úr sparnaði landsmanna. Ef það er eitthvað eitt sem er nauðsynlegt þegar reynt er að vinna bug á verðbólgu þá er það að hlúa að sparnaði fjölskyldna og fyrirtækja með öllum tiltækum ráðum. Í stað þess ræðst ríkisstjórnin í vanhugsaða skipulagsbreytingu á lánskjaravísitölunni.

Hitt sem er óskynsamlegt í vaxtastefnu ríkisstjórnarinnar varðar vextina sjálfa. Hún boðar lækkun vaxta með handafli eins og ráðherrarnir kalla það. Í þessu felst ekkert annað en það að Seðlabankinn verður skikkaður til að prenta peninga vegna þess að það er ekki hægt að lækka vexti einhliða með öðrum hætti. Þetta er því verðbólguráðstöfun. Lækkun vaxta eykur ásókn í lánsfé og veldur þenslu og verðbólgu.

Það er bara til ein aðferð til að lækka vexti og draga úr verðbólgu samtímis. Hún er að auka aðhald í ríkisfjármálum. En ríkisstjórnin virðist ekki treysta sér til þess að fara þá leið. Jafnvel þótt hún hafi hækkað skatta og afgreitt hallalaus fjárlög fyrir þetta ár vitum við af fenginni reynslu að hallalaus fjárlög geta þýtt þegar upp er staðið sjö milljarða halla á A-hluta ríkissjóðs eins og gerðist í fyrra og enn meiri halla þegar öll umsvif ríkisins eru tekin með í reikninginn,” sagði Þorvaldur.

Gunnar Smári Egilsson tók viðtalið.