DV
11. sep, 1992

Aðalatriðið að skilja yfirburði veiðigjalds

Þorvaldur Gylfason prófessor um sjávarútvegsstefnuna:

Aðalatriðið að skilja yfirburði veiðigjalds

—  það er leiðin til að fækka skipum og minnka ofveiðivandann

,,Það er ekki vinnandi vegur að koma viti í sjávarútvegsstefnuna hér nema tekið sé upp veiðigjald. Ástæðan er sú að kvótakerfið, eins og það hefur verið undanfarin ár, hefur ekki skilað þeim árangri sem að var stefnt. Flotinn hefur með öðrum orðum haldið áfram að stækka langt umfram það sem eðlilegt var í stað þess að minnka. “ Þetta segir Þorvaldur Gylfason, prófessor í viðskipta- og hagfræðideild Háskólans.

Þorvaldur er einn fimm höfunda bókarinnar, Stjórn fiskveiða og skipting fiskveiðiarðsins, sem sjávarútvegsstofnun Háskólans og háskólaútgáfan hafa nýlega gefið út.

Festir fé í greininni

Þorvaldur segir frjálst framsal á kvótum milli útgerðarmanna festa fé inni í greininni. ,,Í stað þess að hætta notar viðtakandi fjárins það til að halda áfram útgerð. Ef lagt yrði á veiðigjald, þannig að viðskipti með kvóta þýddu það að gjaldið fyrir hann rynni í einhvern sérstakan sjóð og þar með út úr útgerðinni, þá fækkaði skipunum og ofveiðivandinn minnkaði að sama skapi. Þetta er lykilatriðið, alveg óháð því hvað mönnum finnst um ranglætið sem felst í því að útgerðarmenn geti auðgast stórlega á því að selja veiðiheimildir sem eru samkvæmt lögum sameign allrar þjóðarinnar.”

Þorvaldur bendi á að mönnum hætti til að þvarga um aukaatriði sem varða framkvæmdahlið málsins: ,,Aðalatriðið er að menn skilji yfirburði veiðigjalds yfir aðrar leiðir að sama marki. Þegar sá skilningur er almennur, bæði meðal fólksins í landinu, eins og mér virðist hann í þann veginn að verða, og meðal stjórnvalda, þar sem hægar gengur vegna áframhaldandi tillitssemi við eiginhagsmunastefnu Landssambands íslenska útvegsmanna, þá fyrst verður tímabært að fara að velta fyrir sér í smáatriðum hvernig framkvæma eigi hugmyndina.”

Allir betur settir

Um deilurnar um afleiðingar sjófrystingar fyrir fiskvinnslufólk í landi tekur Þorvaldur dæmi frá Bretlandi til samanburðar: ,,Gleymum því ekki að fyrir 30 árum voru 300 þúsund kolanámuverkamenn á Bretlandi. Nú eru þeir 30 þúsund. Margir hafa blessunarlega getað haslað sér völl við aðra vinnu. Sú staðreynd að þar voru 300 þúsund námuverkamenn var sem betur fer ekki túlkuð af breskum almenningi og stjórnvöldum á sínum tíma á þann veg að það væri eitthvert óumbreytanlegt lögmál að fólkið þyrfti að vinna í kolanámum alla ævi, kynslóð fram af kynslóð, þegar ný tækni dró úr þörfinni fyrir kol. Með sama hætti er það óumflýjanlegt og reyndar fagnaðarefni að ný tækni skuli smám saman leysa vinnandi hendur af hólmi í sjávarútvegi eins og öðrum greinum. Ég neita því ekki að það geti tekið smátíma að flytja sig úr einni grein í aðra og það getur jafnvel kostað tímabundið atvinnuleysi en þegar upp er staðið eru allir betur settir ef vel er á málum haldið.

Það má snúa röksemdinni við, “ segir Þorvaldur ennfremur. ,,Setjum svo að Rússar hugsuðu núna þannig að allir verði að halda áfram að vinna sína gömlu vinnu. Þar með væru þeir að segja sem svo að þeir ætluðu að halda áfram með áætlanabúskapinn og engu breyta. Það væri augljóslega út í hött. Rússar skilja þetta og svona eigum við líka að hugsa um okkar hefðbundnu atvinnugreinar, sjávarútveg og landbúnað.”