Gjaldeyrisforðinn í sögulegu lágmarki
Þorvaldur Gylfason, prófessor við Háskóla Íslands, segir ljóst að mikil þensla sé í þjóðarbúskapnum. Hana megi m.a. marka af því, að útlán bankakerfisins hafi aukist mjög hratt síðustu mánuði.
,,Aðrar peningastærðir, eins og t.d. peningamagn í umferð, hafa einnig aukist mjög hratt. Vaxtarhraði helstu peningastærða er frá 15% og allt upp í 30% síðustu 12 mánuði. Það er hætt við því að svo mikil peningaþensla geti kynt undir verðbólgu þegar frá líður.”
Þorvaldur segir að hafa þurfi í huga, að samkeppni hafi harðnað talsvert á Íslandi eins og í öðrum löndum og svigrúm kaupmanna og annarra til verðhækkana sé að sama skapi minna en áður. ,,Fyrir nokkrum árum hefði það verið nokkurn veginn sjálfgefið að svo mikil peningaþensla leiddi til aukinnar verðbólgu innan nokkurra mánaða eða missera, en það hefur ekki gerst enn,“ segir hann. ,,Samt skyldu menn ekki ganga út frá því sem gefnum hlut að samkeppnin sé orðin svo hörð að þeim stafi engin hætta af peningaþenslunni, heldur er hættan þvert á móti umtalsverð að minni hyggju.”
Andvaraleysi stjórnvalda
Þorvaldur segir hættuna ekki aðeins bundna við peningaþróunina, heldur einnig andvaraleysi stjórnvalda. ,,Þenslumerki af þessu tagi eru sérstaklega hættuleg þegar kosningar eru í nánd, því að þá er vilji stjórnvalda til að viðurkenna veikleika í hagstjórninni með allra minnsta móti. Góðærið nú, eins og önnur sem við höfum gengið í gegnum allan lýðveldistímann, byrgir mönnum sýn. Þeir ofmetnast og taka því ekki fullt mark á viðvörunum Seðlabanka, annarra innlendra aðila, eða erlendra efnahagsstofnana, sem fjalla um íslensk mál.”
Þorvaldur segir að gjaldeyrisforði Íslendinga sé í sögulegu lágmarki. ,,Undanfarin ár hefur verið talið eðlilegt að gjaldeyrisforði Seðlabankans dygði til að standa straum af innflutningi til landsins í þrjá eða fjóra mánuði. Í OECD-löndum er viðmiðunin yfirleitt sú, aðgjaldeyrisforðinn þurfi að duga fyrir a.m.k. þriggja mánaða innflutningi. Þessi þriggja mánaða viðmiðun hefur verið eins konar gólf undir gjaldeyrisforðann, einnig hér heima. Nú er svo komið, að gjaldeyrisforði okkar dugir aðeins fyrir tveggja mánaða innflutningi. Hann er kominn niður fyrir viðtekin öryggismörk. Í góðæri ætti gjaldeyrisforðinn að vera meiri en í hallæri. Rýrnun forðans miðað við innflutning er til marks um það andvaraleysi, sem mér finnst einkenna afstöðu stjórnvalda um þessar mundir. Þau berja sér á brjóst og segja að allt sé í himnalagi, en svo er þó ekki að minni hyggju. Þegar forðinn er orðinn svo naumur geta spákaupmenn séð sér hag í því að kaupa gjaldeyri í stórum stíl til þess eins að geta selt hann aftur ef gengið fellur. Einn höfuðtilgangurinn með því að eiga myndarlegan gjaldeyrisforða í Seðlabankanum er einmitt að draga úr freistingu spákaupmanna til að reyna slík áhlaup.”
Of lítil fyrirhyggja í fjárlagagerð
Þorvaldur segir of mikið sagt að efnahagslífið þoli engin áföll, en viðnámsþrótturinn sé þó minni en hann ætti að vera að réttu lagi. ,,Auk þess er enn við ýmsa veikleika að etja í ríkisfjármálum því að nauðsynlegur uppskurður og skipulagsbreytingar hafa látið á sér standa á þeim vettvangi. Þar hef ég aðallega í huga mál málanna, veiðigjald af einhverju tagi, sem myndi skapa svigrúm til að búa svo um hnútana í ríkisbúskapnum að okkur stæði miklu minni ógn af þenslu og verðbólgu – og næstu niðursveiflu – en ella.”
Fyrirhyggja í fjárlagagerð er of lítil, að mati prófessorsins. ,,Við núverandi kringumstæður ætti ríkissjóður að sýna myndarlegan afgang. En því er ekki að heilsa. Það á einnig við um sveitarfélögin, sem halda áfram að safna skuldum. Góðærið hefur fyllt menn falskri öryggiskennd. Þetta hefur gerst hvað eftir annað undangengna áratugi, og ástandið væri tryggara nú ef við hefðum lært meira af mistökum fyrri ára.”
Á síðasta ári og árið 1977 spáðu ýmsir sérfræðingar ofþenslu, en sú spá rættist ekki. ,,Hún rættist að vísu til hálfs, því að viðskiptahallinn hefur verið svo mikill, að skuldasöfnun þjóðarinnar í útlöndum er aftur komin á fulla ferð. Það er á hinn bóginn alveg rétt, að verðbólga hefur ekki aukist. Skýringin á því er sumpart aukin samkeppni. Ég hef hins vegar verið þeirrar skoðunar og er enn, að við séum ekki búin að snúa verðbólguna endanlega niður. Feysknir innviðir gamla verðbólguþjóðfélagsins eru flestir enn á sínum stað. Þar á ég t.d. við úrelt skipulag á vinnumarkaði og einnig í bankamálum. Enn sem fyrr hafa fáeinir menn í forystusveit verklýðsfélaganna og vinnuveitenda það í hendi sinni að knýja kauplag upp á við með gamla laginu, ef þá lystir.Og enn sem fyrr ráða stjórnmálamenn lögum og lofum í bönkum. Þessu úrelta fyrirkomulagi fylgir m.a. hætta á því að verðbólgan taki sig upp aftur. Það hefði þurft að nota uppsveifluna í efnahagslífinu að undanförnu til að ráðast í löngu tímabærar skipulagsbreytingar, gera Seðlabankann sjálfstæðari innan stjórnkerfisins eins og gert hefur verið í nálægum löndum, bæta bankakerfið til muna og gefa markaðsöflunum lausari taum á vinnumarkaði fyrir nú utan þá knýjandi nauðsyn sem ber til þess að taka landbúnaðinn og sjávarútveginn af beinu og óbeinu ríkisframfæri án frekari tafar. Það er erfiðara að gera róttækar breytingar af þessu tagi í hallæri en góðæri. Lélegt tímaskyn er einn versti óvinur Íslands.”
Ragnhildur Sverrisdóttir tók viðtalið.