Erlend lán sem olía á eld
,,Þessar tillögur ASÍ eru fráleitar. Aðalatriðið í þessum tillögum virðist vera það að hvetja stjórnvöld til þess að taka stórt erlent lán í því skyni að þrýsta genginu upp,“ segir Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við HÍ.
Eins og fram hefur komið miða tillögur ASÍ að því að tekin verði 15 til 20 milljarða króna erlend lán til að greiða niður innlend lán, og markmiðið er sagt vera að efla krónuna og hamla gegn verðbólgu.
,,Ástæða andstöðu minnar við þessi áform er einföld. Vandinn sem við glímum við um þessar mundir stafar að verulegu leyti af of miklum erlendum lántökum undangengin ár og það væri að ausa olíu á eldinn að bregðast við vandanum með því að taka frekari lán,“ segir Þorvaldur.
Hann segist furða sig á því að málsmetandi menn í þjóðfélaginu skuli taka undir tillögur ASÍ. ,,Mig undrar það að menn skuli ljá máls á þessari fásinnu. Gengi krónunnar hefur verið allt of hátt skráð undangengin ár, það var falskt. Núna er gengið komið miklu nær því að vera á réttu róli eins og t.d. forstjóri Þjóðhagsstofnunar bendir skynsamlega á í sínum málflutningi. Tillögur um að þyngja skuldabyrði þjóðarbúsins enn frekar, til þess að hækka gengi krónunnar að nýju, eru því í rauninni tillögur um það að innleiða falskt gengi að nýju,“ segir Þorvaldur.
Boginn var of hátt spenntur
Efnahagsmál þjóðarinnar og allt sem þeim tengist hefur verið í brennidepli umræðunnar síðustu daga, ekki síst vegna gengislækkunar krónunnar síðustu mánuðina, og nú síðast af auknum krafti í kjölfar tillagna Alþýðusambands Íslands um aðgerðir sem stuðla ættu að því að viðhalda stöðugleika og verja eða auka kaupmátt, auk þess að styrkja stöðu krónunnar. Tillögunum hefur af flestum verið mjög vel tekið. Aðrir hafa fagnað frumkvæði ASÍ en um leið lýst efasemdum um að þær aðgerðir sem ASÍ leggur til skili tilætluðum árangri.
Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, er einn þeirra sem ekki hefur trú á tillögum ASÍ og hefur beinlínis lýst þeim sem fráleitum hér í DV.
,,Ástandið í efnahagsmálum okkar er erfitt núna, og það á trúlega eftir að versna áður en það byrjar að batna aftur. Óvissan er einkum mikil í bankamálunum. Skýrsla Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem er nýkomin út, dregur upp dökka mynd af ástandinu í bankamálum hérlendis, og má af því ráða hversu skaðlegt það er að ekki skuli hafa verið fyrir löngu ráðist í nauðsynlegar umbætur á þeim vettvangi eins og víðar.
Vanskil viðskiptavina bankanna fara vaxandi enda segir það sig sjálft að menn geta ekki staðið í skilum með lán með þeim fjallháu vöxtum sem verið hafa í boði að undanförnu. Það mun þess vegna reyna mjög á banka og aðrar fjármálastofnanir á næstu mánuðum og misserum,” segir Þorvaldur Gylfason, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands.
Þorvaldur segir erfitt að segja fyrir um hversu langan tíma það taki efnahagslífið að finna botninn áður en það fer að rétta úr kútnum eða hvort ,,krísa” sé fram undan. ,,Um það er ekki hægt að fullyrða, hvorki dýptina á lægðinni sem hafin er né hversu langan tíma þetta tekur. Þó virðist alveg ljóst að boginn var allt of hátt spenntur undangengin ár, menn lifðu við falska öryggiskennd sem stafaði m.a. af því að hagkerfið var á floti í lánsfé, gengi krónunnar og þá um leið þjóðarbúskaparins í heild var allt of hátt skráð. Nú er leiðréttingin hafin en henni er ekki lokið að mínum dómi.
Nú súpum við seyðið af því að hafa ekki ráðist í þær umbætur sem við hefðum þurft að ráðast í um miðjan síðasta áratug. Þar koma bankamálin við sögu en einnig hefði þurft að endurskipuleggja ríkisfjármálin. Þar er veiðigjald að sjálfsögðu lykilatriði en einnig hefði verið nauðsynlegt að ráðast í skipulagsbreytingar á vinnumarkaði til þess að draga úr líkum þess að þar fari allt í bál og brand með gamla laginu þegar samningar losna næst eins og ýmislegt bendir til að geti gerst. Í síðasta lagi er landbúnaðarvandinn óleystur enn þannig að til að mynda Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er farinn að finna mjög að því hversu óhagkvæm landbúnaðarstefnan er. Matvöruverð hér er næstum 70% hærra en í nálægum löndum og leggur enn sem fyrr þungar byrðar á launþega og dregur úr líkum þess að hægt sé að stilla kjarasamningum í hóf í því árferði sem við stefnum í. Þetta hangir allt saman,” segir Þorvaldur Gylfason.
Viðtal: Gylfi Kristjánsson.