Bústuðningur á mann 1998-2000
Mynd 46. Hér sjáum við tölur um búverndarkostnaðinn í OECD-löndum mældan í Bandaríkjadollurum á mann. Íslenzkur landbúnaður var þyngstur á fóðrum innan OECD árin 1986-1988, en þokaðist eftir það niður í annað sætið 1999. Svisslendingar skipa fyrsta sætið á listanum og Norðmenn þriðja. Lækkun búverndarkostnaðarins í krónum talið eða dollurum stafar þó ekki nema að tiltölulega litlu leyti af minni búvernd vegna GATT-samkomulagsins eða betri bústefnu hér heima, heldur stafar hún aðallega af fækkun í bændastétt (sjá mynd 6). Gagnrýnin á landbúnaðarstefnuna hér heima um og eftir miðjan níunda áratuginn virðist þó hafa borið hagnýtan árangur að því leyti, að stjórnvöld hafa ef til vill gert minna en ella til þess að sporna gegn samdrætti í landbúnaði. Sé svo, má segja, að þessi gagnrýni hafi sparað fólkinu í landinu mikið fé. En betur má, ef duga skal. Búverndarkostnaðurinn er ennþá mikill: hann nam 644 dollurum á mann hér heima 1999, eins og myndin sýnir, eða rösklega 200.000 krónum á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Það gerir 17.000 krónur á mánuði á hverja fjölskyldu um landið. Þessi kostnaður skýrist í nokkurn veginn jöfnum hlutföllum af beinum útlátum skattgreiðenda vegna niðurgreiðslna og annarra styrkja og af óbeinum kostnaði, sem stafar af ýmsum samkeppnis- og viðskiptahömlum og birtist í hærra matvöruverði til neytenda.