Útgjöld til varnarmála 1989-1999
Mynd 80. Myndin sýnir útgjöld til varnarmála sem hlutfall af ríkisútgjöldum. Tölurnar eru meðaltöl fyrir árin 1989-1999. Hér er ríkið skilgreint þröngt, svo að sveitarfélög eru ekki höfð með, enda eru varnarmál í verkahring ríkisins og ekki einstakra sveitarfélaga alls staðar um heiminn. Myndin sýnir, að Kína, Rússland og Bandaríkin verja langhæstu hlutfalli ríkisútgjalda sinna til varnarmála í þessum hópi, enda þótt önnur ríki, einkum Arabaríkin í Austurlöndum nær, væru miklu ofar á listanum, væru þau höfð með í samanburðinum. Evrópuríkin eru við miðbik töflunnar: þar tíðkast að nota 6%-9% ríkisútgjalda til varnarmála. Því næst koma Norðurlöndin í einum hnappi með 5%-6% ríkisútgjalda til varnarmála. Þá koma eyríkin: Nýja-Sjáland með 4%, Írland með 3%, önnur með 1%-2%. Ísland rekur lestina, eyðir ekki eyri af eigin aflafé til landvarna. Nánar er fjallað um varnarmál fra hagrænu sjónarmiði í Varnir og fjármál.