Hagvöxtur og sparnaður 1965-1998
Mynd 52. Myndin nær yfir 85 lönd um allan heim árin 1965-1998 og sýnir sambandið milli vaxtar þjóðarframleiðslu á mann á ári á lóðréttum ás og vergs innlends sparnaðar 1970-1998 í hlutfalli við landsframleiðslu á láréttum ás. Hvert land er sýnt með einum punkti. Hagvaxtartölurnar á lóðrétta ásnum hafa verið lagaðar að þjóðarframleiðslu á mann við upphaf tímabilsins með því að draga frá þann hluta hagvaxtarins, sem rekja má til þróunarstigs hvers lands. Þetta er gert til að eyða grunsemdum, sem kynnu annars að vakna, í þá veru, að myndin sé villandi: hún lýsi ekki öðru en því, að sparnaður sé meiri í ríkum löndum en fátækum og ríku löndin vaxi örar en hin. (Raunar er hitt nær sanni, að fátæk lönd vaxi örar en rík, og það ætti þá að veikja sambandið milli hagvaxtar og sparnaðar, en sleppum því.) Fylgnin milli hagvaxtar og sparnaðar á myndinni (0,73) er marktæk í tölfræðilegum skilningi. Við getum túlkað aðfallslínuna gegnum punktaskarann þannig, að aukning sparnaðar um 7% af landsframleiðslu haldist í hendur við aukningu hagvaxtar á mann á ári um eitt prósentustig. Nú er að vísu ekki hægt að fullyrða neitt um orsakasambandið. Líklegast er, að sparnaður örvi hagvöxt. Hitt er þó ekki hægt að útiloka, að hagvöxtur örvi sparnað. Það er einnig hugsanlegt, að einhverjar enn aðrar stærðir, t.d. góð hagstjórn, örvi bæði hagvöxt og sparnað. Þessar skýringar á munstrinu á myndinni stangast ekki á, heldur geta þær allar átt við að einhverju leyti.