Erlend fjárfesting og náttúruauðlindir
Mynd 22. Hollenzka veikin tekur á sig margar myndir. Algengast er, að hún lýsi sér þannig, að aukinn hráefnaútflutningur (t.d. eftir olíufund eða vegna uppsveiflu í fiskveiðum) þrýstir raungengi gjaldmiðilsins upp á við, svo að annar útflutningur á þá undir högg að sækja, ef hann ræður ekki við raungengishækkunina. Þetta þarf reyndar ekki að gerast með beinni gengishækkun; þetta getur til að mynda gerzt þannig, að hráefnaútgerðin hagnast og hækkar þá launin við sitt fólk, svo að aðrir atvinnuvegir geta þá ekki lengur með góðu móti keppt við útgerðina um starfsfólk eins og áður. Þetta skýrir það, hvers vegna hollenzka veikin getur alveg eins stungið sér niður í löndum, sem notast ekki við eigin gjaldmiðil — til dæmis Færeyjum og Grænlandi, sem nota danskar krónur. Hún getur með öðrum orðum átt hvort heldur beint við gengið sjálft eða þá óbeint við launin, nú eða þá vextina. Það, sem er svolítið sérkennilegt, er þetta: Annar útflutningur dregst yfirleitt meira saman en hráefnaútflutningurinn eykst, svo að heildarútflutningur á vörum og þjónustu skreppur saman. Þess vegna meðal annars er hollenzka veikin vandamál. Og það er fleira, sem hangir á spýtunni, því að það er ekki eingöngu, að útflutningur á vörum og þjónustu er yfirleitt minni í löndum, sem eiga mikil náttúruauðæfi, heldur einnig útflutningur á fjármagni, þ.e. á hlutabréfum í innlendum fyrirtækjum. Myndin sýnir erlenda fjárfestingu sem hlutfall af vergri landsframleiðslu árin 1975-1997 að meðaltali á lóðrétta ásnum og náttúruauðinn á lárétta ásnum (sjá skilgreiningu náttúruauðsins á mynd 19). Við sjáum á myndinni að ofan, að þau lönd, sem laða til sín mest af erlendri fjárfestingu, eru lengst til vinstri á myndinni: það eru þau lönd, sem eiga minnst af náttúruauðlindum. Halli aðfallslínunnar sýnir, að aukning náttúruauðs um 35% af þjóðarauði frá einum stað til annars helzt í hendur við samdrátt erlendrar fjárfestingar um 1% af landsframleiðslu. Fylgnin er marktæk. Um þetta er fjallað nánar í ritgerðunum Náttúra, vald og vöxtur og Náttúruauðlindir, útflutningur og Evrópa.