Landsframleiðsla á vinnustund á Íslandi og erlendis 2004
Mynd 101. Hér koma glænýjar samræmdar tölur um landsframleiðslu á vinnustund 2004; tölurnar fyrir 2003 og 2002 eru sýndar á mynd 95 og mynd 79. Ef löndunum á myndinni er raðað eftir þjóðartekjum á mann, þá skipa Lúxemborg, Bandaríkin, Noregur, Írland, Sviss og Ísland sex efstu sætin 2004. Þegar fyrirhöfnin á bak við tekjuöflunina er tekin með í reikninginn og lífskjörin eru mæld í tekjum á hverja vinnustund, öðru nafni vinnuframleiðni, þá er röðin eins og myndin að ofan sýnir. Takið eftir því, að Írland heldur sínu striki, en Ísland hrapar niður eftir listanum og lendir í 19. sæti á eftir öllum þeim löndum, sem Íslendingar bera sig helzt saman við. Framleiðni á Íslandi miðað við þjóðartekjur á vinnustund er 74% af framleiðni í Bandaríkjunum. Þetta er skuggahliðin á velgengni Íslands og vitnar um margvíslega óhagkvæmni, sem heldur áfram að hamla efnahagslífinu, enda þótt ýmislegt hafi áunnizt síðustu ár. Tölum fyrir árið 2003 er lýst nánar í fyrirlestri mínum á Iðnþingi 2003. Sjá einnig tölur um fyrri ár á mynd 67 og mynd 15. Heimild: The Conference Board, Performance 2005.