Hversu opið er Ísland fyrir erlendri fjárfestingu?
Mynd 54. Hlutfall hreinnar, beinnar erlendrar fjárfestingar af landsframleiðslu er annar algengur opingáttarkvarði, auk hlutdeildar erlendra viðskipta í landsframleiðslu (mynd 53). Hér er átt við beina fjárfestingu útlendinga í hverju landi umfram beina fjárfestingu heimamanna erlendis. Slík fjárfesting jafngildir útflutningi hlutabréfa í innlendum fyrirtækjum umfram innflutning bréfa í erlendum fyrirtækjum. Myndin að ofan sýnir hreina erlenda fjárfestingarhlutfallið á Norðurlöndunum fimm. Hér er Finnland fremst í för: hrein erlend fjárfesting þar nam næstum 10% af landsframleiðslu 1998 borið saman við tæplega 2% hér heima. Það er þó mikil framför, að hrein erlend fjárfesting á Íslandi skuli vera komin upp í 2% af landsframleiðslu, því að hún var næstum engin þar til fyrir örfáum árum af ótta við ítök erlendra manna í íslenzku athafnalífi. Óttinn er á undanhaldi. Hvað um Írland? Þar var erlend fjárfesting 3½% af landsframleiðslu 1998. Finnar, Svíar og Danir eru komnir fram úr Írum á þennan kvarða. Tölur um verga erlenda fjárfestingu segja svipaða sögu (sjá Að opna lönd). Röð landanna helzt óbreytt. Gagnger umskipti hafa átt sér stað síðustu ár í Finnlandi og Svíþjóð, þar sem hátæknibyltingin hefur laðað erlent fjármagn að innlendri atvinnu í áður óþekktum mæli. Þannig tvöfaldaðist verg erlend fjárfesting miðað við landsframleiðslu í Svíþjóð 1997 og aftur 1998. Í Finnlandi fimmfaldaðist verg erlend fjárfesting miðað við landsframleiðslu frá 1996 til 1998. Erlend fjárfesting er ígildi útflutnings, þar sem útflutningsgóssið er að vísu hvorki vara né þjónustu, heldur hlutabréf í fyrirtækjum. Og það er um slíkan útflutning eins og allan annan: hann skiptir máli ekki aðeins vegna verðmætasköpunarinnar, sem í honum felst, heldur einnig vegna þess, að hann greiðir fyrir innflutningi. Útflutningur hlutabréfa er sérstaklega verðmætur vegna þess, að hann greiðir fyrir innflutningi þekkingar og hugvits.