Ísland á alþjóðasamhengi: Erlendar skuldir 1991-2006
Mynd 30. Margar skuldugustu þjóðir heims eru í Afríku og Suður-Ameríku. Myndin sýnir erlendar skuldir þeirra eða sumra þeirra sem hlutfall af landsframleiðslu árin 1991-2004. Í Afríku þokaðist skuldahlutfallið upp á við, eða úr 66% af landsframleiðslu 1991 upp í 69% árið 2000 skv. tölum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þessar tölur ná yfir álfuna alla; sum löndin skulda miklu meira en þetta, önnur minna. Suður-Ameríka er ekki eins skuldug. Þar hækkaði skuldahlutfallið úr 37% af landsframleiðslu upp í 41% á sama tíma. Asíulöndin skulda minnst. Þar hélzt skuldahlutfallið stöðugt nálægt 30% af landsframleiðslu frá 1991 til 2000. Við sjáum einnig á myndinni, að skuldaaukningin hér heima hefur verið mun meiri en í þróunarlöndum yfirleitt, þegar tímabilið er skoðað í heild og uppfært til ársins 2006 með því að bæta nokkrum frægum skuldakóngum við myndina. Skuldahlutfallið hér heima hækkaði úr 57% árið 1991 upp undir 450% í árslok 2006 — og stefnir enn hærra, því að viðskiptahallinn er enn verulegur svo sem jafnan fyrr og gengi krónunnar á eftir að falla enn frekar (sjá einnig mynd 83.) Mikill og þrálátur viðskiptahalli er samt ekki einsdæmi innan OECD. Erlendar skuldir Nýsjálendinga fóru upp fyrir 100% af landsframleiðslu þeirra 1999 og hafa haldizt á því róli síðan þá. Segja má, að þeir hafi fjármagnað róttækar umbætur á efnahagslífi sínu eftir 1984 sumpart með erlendum lánum. Þrátt fyrir allar umbæturnar árar samt ekkert sérlega vel í Nýja-Sjálandi núna. Sumir láta sér detta í hug, að þung skuldabyrði sé dragbítur á hagvöxtinn þarna suður frá; það þarfnast nánari skoðunar. Danir fóru öðruvísi að. Þeir voru komnir miklu skemmra á skuldasöfnunarbrautinni en við Íslendingar erum nú, þegar þeir ventu sínu kvæði í kross og sneru halla í afgang til að grynnka verulega á erlendum skuldum sínum eftir 1985. Það gafst þeim vel.