Gjaldeyrisforðinn 1981-2007: Endingartími til almenns innflutnings í mánuðum
Mynd 4. Gjaldeyrisforði er nauðsynlegur, svo að hægt sé að standa straum af innflutningi. Yfirleitt hefur það verið talið ráðlegt að eiga gjaldeyrisforða, sem dugir fyrir almennum innflutningi (þ.e. vöruinnflutningi) í 3 mánuði. Þessi viðmiðun hefur verið eins konar gólf undir gjaldeyrisforðann í OECD-löndum, en nú þykir reyndar hyggilegt að miða heldur við 5-6 mánaða innflutning á vörum og þjónustu, þar eð viðskipti hafa aukizt og sveiflur í viðskiptum eru að sama skapi meiri en áður. Hér heima var gjaldeyrisforði Seðlabankans yfirleitt jafnvirði um þriggja mánaða almenns innflutnings allan níunda áratuginn og fór reyndar upp fyrir fjögurra mánaða innflutning árin 1992-1993. Þá náðu erlendar skuldir þjóðarbúsins hámarki, og var þá gripið til þess ráðs að ganga á gjaldeyrisforðann til að grynnka á skuldunum. Allar götur síðan 1994 hefur gjaldeyrisforðinn því verið minni en nemur þriggja mánaða innflutningi. Gjaldeyrisforðinn var langt undir eðlilegum viðmiðunarmörkum 1995-2002 og nam aðeins 2,2 mánaða vöruinnflutningi í árslok 2002 (og tæplega 6 vikna innflutningi á vörum og þjónustu). Þetta var háskalega lítill forði og gat skapað hættu á áhlaupi á gjaldeyrissjóðinn, sem hefði leitt til gengisfalls. Þessari hættu þarf að bægja frá með því að að byggja forðann upp að nýju, svo að hann dugi fyrir innflutningi á vörum og þjónustu í 5-6 mánuði, og fyrsta skrefið í þessa átt hefur nú verið stigið, en þó ekki nema til hálfs eins og myndin sýnir. Gjaldeyrisforðinn var aftur kominn niður fyrir öryggismörk í árslok 2005 og nam þá jafnvirði almenns innflutnings í 2,8 mánuði og heildarinnflutnings á vörum og þjónustu í 1,8 mánuði (tölurnar að ofan fyrir 2004-2007 eiga við gjaldeyrisforðann í hlutfalli við innflutning á vörum og þjónustu). Norðmenn áttu í árslok 1996 gjaldeyrisforða, sem dugði fyrir innflutningi á vörum og þjónustu í sex mánuði til samanburðar og Danir og Svíar í 3-4 mánuði. (Mynd 16 sýnir gjaldeyrisforðann í sautján Evrópulöndum til samanburðar.) Innflutningur á vörum og þjónustu hingað heim nam 446 milljörðum króna 2005. Gjaldeyrisforði Seðlabankans þyrfti því helzt að vera um 150 milljarðar króna við núverandi aðstæður, eða 100 milljarðar í minnsta lagi. Auk þess, sem þegar hefur verið rakið (sjá einnig greinina Gjaldeyrisforðinn), helgast þessi þörf fyrir aukinn forða af því, að erlendar skammtímaskuldir þjóðarbúsins hafa síðan 1997 verið langtum meiri en gjaldeyrisforðinn. Það getur skapað hættu á fjármálakreppu af því tagi, sem herjaði á Asíu 1997-1998 (sjá mynd 29). Viðbót: Síðla árs 2006 greip ríkisstjórnin til þess úrræðis að taka 90 milljarða króna að láni í útlöndum — það gerir 1,2 milljónir króna á hverja fjögurra manna fjölskyldu í landinu — til að styrkja gjaldeyrisforðann. Með betri hagstjórn hefði gjaldeyrisforðinn átt að geta aukizt af sjálfum sér í uppsveiflunni, en það gerði hann ekki, heldur þarf ríkisstjórnin að taka risavaxið lán ofan á allar lántölur liðinna ára til að auka gjaldeyrisforðann, svo að gjaldeyrisforðinn er nú aftur kominn upp fyrir gömlu viðmiðunarmörkin, en það dugir þó ekki til, því að forðinn verður eftir sem áður langt undir erlendum skammtímaskuldum þjóðarbúsins (sjá mynd 29). Sjá einnig mynd 83.