Útgjöld til menntamála leiðrétt miðað við aldur 2000
Mynd 94. Myndin til vinstri sýnir hrá útgjöld almannavaldsins og einstaklinga til menntamála 2000. Þarna sést, að Ísland er langt ofan við meðallag eins og eðlilegt er í ljósi þess, að við erum yngsta þjóðin í hópnum, sjá mynd 91. Árið 2000 vörðum við 6,3% landsframleiðslunnar til menntamála. Hægri myndin sýnir sömu tölur leiðréttar miðað við aldurssamsetningu með sömu aðferð og á mynd 93. Hér er Ísland komið niður fyrir meðallag: hægri myndin segir okkur, að útgjöld til menntamála væru aðeins 4,9% af landsframleiðslu, ef aldurssamsetning mannaflans væri hin sama hér og annars staðar á OECD-svæðinu. Hvaða ályktanir getum við dregið af þessu? Tiltölulega lítil útgjöld til menntamála gætu verið til marks um litla rækt við menntun. En þau gætu líka verið til marks um hagkvæmni í menntakerfinu: mikla, almenna og góða menntun með litlum tilkostnaði. Vandinn hér er að nokkru leyti hinn sami og í heilbrigðismálunum: okkur vantar óyggjandi sjálfstæðan mælikvarða á afurðir menntakerfisins. Vandinn er samt ekki eins illviðráðanlegur og í heilbrigðiskerfinu, því að OECD hefur safnað ýmsum öðrum gögnum um menntakerfið, enda þótt sjálfstæðu mati á afurðum öndvert aðföngum sé ennþá ábótavant. Þannig vitum við t.d., að hlutfallslega færri Íslendingar hafa lokið framhaldsskólaprófi en tíðkast um nálæg lönd. Þessi staðreynd vitnar um gamlar syndir frekar en nýjar: stuðningur ríkisins við landbúnað og sjávarútveg áratugum saman hefur ásamt öðru haldið aftur af nauðsynlegri fólksfækkun í þessum gömlu greinum og dregið með því móti úr hvatanum til menntunar, þar eð land og sjór gera minni menntunarkröfur en iðnaður, verzlun og þjónusta. Margt fleira hefur lagzt á sömu sveif. En ástandið er að batna: framhaldsskólasókn er nú orðin svipuð á Íslandi og í nálægum löndum. Munurinn á menntun mannaflans hér og víða annars staðar stafar aðallega af því, að áður fyrr var skólasókn á Íslandi minni en í mörgum nálægum löndum, það er að vísu liðin tíð, en munurinn dregur dilk á eftir sér. Sjá meira um málið í Menntun, aldur og heilbrigði.