Ragnarsbók
27. sep, 2010

Hvað segja lögin? Sameignarauðlindir eru mannréttindi

Fjallar um mannréttindaþáttinn í fiskveiðistjórnarkerfinu og er að finna í Ragnarsbók, afmælisriti til heiðurs Ragnari Aðalsteinssyni hæstaréttarlögmanni.

Álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í desember 2007 um fiskveiðistjórnkerfi Íslendinga er kveikjan að þessum texta. Álitið bregður nýrri lagalegri birtu á eitt helzta álitaefnið í opinberri þjóðmálaumræðu á Íslandi síðan um 1970. Margir hagfræðingar hafa frá öndverðu gagnrýnt fiskveiðistjórnina með þeim rökum, að hún sé hvorki hagkvæm né réttlát. Hagræn hlið málsins snýr að hagfræðingum öðrum fremur, og henni höfum við margir gert rækileg skil ásamt stærðfræðingum og raunvísindamönnum. Réttlætishliðin hefur reynzt erfiðari viðfangs, en þar hafa meðal annarra heimspekingar og lögfræðingar lagt sjónarmið sín til grundvallar ásamt hagfræðingum.
Álit mannréttindanefndarinnar auk annars efnis, sem verður fært til sögunnar undir lok þessa máls, hefur orðið til þess að skerpa og skýra réttlætissjónarmiðin, sem lúta að fiskveiðistjórninni og auðlindastjórn yfirleitt. Textinn, sem fer hér á eftir, lýsir viðbrögðum mínum við álitinu eins og ég gerði grein fyrir þeim með ýmsum blæbrigðum og skírskotunum í nokkrum stuttum greinum í Fréttablaðinu á fyrri helmingi árs 2008, bindur efnið saman í fáeinum nýjum milliköflum og lýsir niðurstöðu minni í eftirmála.