Fjármálatíðindi
4. sep, 1997

Búvernd: Er ekkert að rofa til?

Það er þörf á að ítreka mikilvægi landbúnaðarstefnunnar í Evrópu og þau vandamál, sem þar er við að glíma. Þetta er nauðsynlegt, því að fjöldi manna, sem málið varðar, virðist telja, að þetta sé ekki lengur lykilmál. Sú skoðun, að landbúnaðurinn skipti nú orðið litlu af sjónarhóli hagstjórnar, byggir á þeirri útbreiddu trú, að evrópskir bændur séu svo fáir – þeir eru nú einungis um 5% af vinnuafli Evrópusambandsins – að styrkir til þeirra af almannafé geti vart skipt miklu máli í evrópsku efnahagslífi, þegar á heildina er litið, og megi þá einu gilda, hversu ríkulegir slíkir styrkir séu. Með fullri virðingu er ég á öðru máli. Að sjálfsögðu er það rétt, að evrópskir bændur eru ekki margir, ekki lengur – fjöldi þeirra er nú aðeins um 7 milljónir í Evrópusambandinu, en þar eru um 18 milljónir manna atvinnulausar til samanburðar. En  kostnaðurinn við sameiginlega landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins (e. Common Agricultural Policy, CAP) fyrir neytendur og skattgreiðendur, að ekki sé minnzt á þriðja aðila á borð við þróunarlönd og þjóðir Austur-Evrópu, er eftir sem áður gríðarlegur samkvæmt flestum heimildum, þar með töldum þeim, sem eru gefnar út árlega á vegum OECD, og hann hefur víðtækar afleiðingar, sem kunna að eiga
eftir að reynast afdrifaríkar fyrir efnahags- og stjórnmálaþróun Evrópu. Í þessari ritgerð ætla ég að fjalla um (a) helztu kosti og galla sameiginlegrar landbúnaðarstefnu Evrópusambandsins, (b) þann kostnað, sem hún leggur nú á neytendur, skattgreiðendur og þriðja aðila, og (c) helztu hindranir í vegi fyrir umbótum á búverndarstefnunni í Evrópu og annars staðar til að draga úr þessum kostnaði. Þá mun ég að lokum fjalla í stuttu máli um nauðsyn umbóta á sameiginlegri fiskveiðistefnu Evrópusambandsins (e. Common Fisheries Policy, CFP), sem er náskyld búverndarstefnunni