Tíu vörður á vegi: Verzlunarsaga í sextíu ár
Tyllidagar eru til þess að horfa um öxl og áfram veginn inn í ókomna tíð. Verzlunarsagan er svo samofin sögu Íslands síðustu hálfa aðra öld, allar götur síðan Jón Sigurðsson hóf viðskiptafrelsismerkið hátt á loft árið 1843, að sextugsafmæli Frjálsrar verzlunar um þessar mundir veitir okkur verðugt tilefni til að minnast nokkurra mikilvægra áfanga á langri leið. Við skulum stikla á stóru.
1Tæknibyltingin í stríðinu
Hervernd Breta og síðan Bandaríkjamanna og annarra bandamanna á stríðsárunum 1941-1945 vakti heitar tilfinningar, svo sem vonlegt var, en verkþekkingin, sem flæddi inn yfir landið með hinum erlendu herjum, gerbreytti lífsskilyrðum þjóðarinnar til frambúðar og batnaðar. Þessi nánast óviljaði innflutningur á verkþekkingu markaði þáttaskil og reyndist þjóðinni, þegar upp var staðið, trúlega meira virði en allur stríðsgróðinn, sem streymdi inn í landið um leið, enda var honum nánast öllum eytt á örskömmum tíma, svo að stuttu eftir stríðslokin var efnahagslífið í landinu aftur komið í kaldakol af völdum vondrar hagstjórnar. Verzlunarhöftin voru enn í algleymingi.
2 Millilandaflug
Stuttu eftir stríðslokin 1945 hófust flugsamgöngur milli Íslands og annarra landa fyrir frumkvæði nokkurra áræðinna einstaklinga og sköpuðu skilyrði til miklu nánari tengsla Íslendinga við aðrar þjóðir en skipaferðir höfðu leyft fram að því. Flugfélag Íslands var stofnað (í þriðja sinn) árið 1937 og hóf áætlunarflug til Skotlands og Danmerkur 1946. Loftleiðir hófu starfsemi sína 1944 og áætlunarferðir til Bretlands, Frakklands og Norðurlanda 1947 og síðan til Lúxemborgar og Bandaríkjanna 1955. Flugfélagið keypti fyrstu þotuna 1967, og félögin tvö sameinuðust síðan í Flugleiðum 1973. Millilandaflugið var forsenda þess, að Íslendingar gætu átt viðunanleg viðskipti í nógu stórum stíl við aðrar þjóðir. Spánarferðirnar á 7. áratugnum voru annar merkur áfangi á þessari löngu leið: þær víkkuðu sjóndeildarhring Íslendinga og flýttu framförum okkar með því móti á ýmsa lund.
3 Viðreisnarstjórnin
Árin 1950-1960 voru Íslendingum ekki hagstæð, þótt umheimurinn væri í efnahagsuppsveiflu að lokinni síðari heimsstyrjöldinni og frjálslegir hagstjórnarhættir ryddu sér til rúms í Evrópu á rústum stríðsins. Höft og skömmtun höfðu rist djúp sár í íslenzkt efnahagslíf allar götur síðan um 1930, en stjórnmálaflokkarnir réðu ekki fram úr vandanum. Blindur leiddi blindan. Kveikjan að viðreisninni kom að utan. Á flokksþingi sínu árið 1959 ákváðu þýzkir jafnaðarmenn að venda kvæði sínu í kross og taka upp félagslega sinnaða markaðsbúskaparstefnu í stað þeirrar þjóðnýtingar- og ríkisbúskaparstefnu, sem þeir höfðu fylgt fram að því. Þannig stóð á því, að Alþýðuflokkurinn gekk til samstarfs við Sjálfstæðisflokkinn 1959 um gerbreytingu á þeim úr sér gengnu hagstjórnarháttum, sem allir flokkar landsins í ýmsum hlutföllum höfðu aðhyllzt og ástundað um þriggja áratuga skeið. Án þessara sinnaskipta hefði vitleysan trúlega haldið áfram í mörg ár enn. Viðreisnarstjórnin aflétti strax ýmsum þrúgandi höftum og hömlum af utanríkisverzluninni, felldi gengi krónunnar og stuðlaði með því móti að stórauknum viðskiptum við útlönd. En hún skildi verðlagningu sjávarafurða, landbúnaðinn og bankakerfið eftir í viðjum ríkiseinokunar og miðstýringar og náði því miklu minni varanlegum árangri í efnahagsmálum en hún hefði ella getað náð. Erlend viðskipti Íslendinga eru til að mynda engu meiri nú miðað við landsframleiðslu en þau voru fyrir viðreisn.
4 Stóriðja
Um miðjan 7. áratuginn komst langþráður skriður á virkjun fossa og fallvatna og stóriðju í tengslum við virkjanirnar, en hálfri öld of seint. Landsvirkjun var stofnuð 1965, Íslenzka álfélagið (í eigu Svisslendinga) ári síðar, 1966, og Íslenzka járnblendifélagið (í meirihlutaeigu Íslendinga) 1975. Eftir það var gert hlé á stóriðjuframkvæmdum, og virkjanir lentu á villigötum: ein þeirra, Kröfluvirkjun, var reist á kraumandi eldfjalli þrátt fyrir eindregnar viðvaranir jarðfræðinga. Útflutningur tveggja stærstu og orkufrekustu stóriðjufyrirtækjanna, Álfélagsins og Járnblendifélagsins, nam einum tíunda af heildarútflutningi þjóðarinnar á vörum og þjónustu 1997. Ný stóriðja mun væntanlega auka hlut iðnaðar í heildarútflutningi á næstu árum og draga úr vægi sjávarútvegs að sama skapi.
5 Inngangan í EFTA
Snemma á viðreisnarárunum var hugsanleg aðild Íslands að Evrópusambandinu, eins og það heitir nú, rædd í alvöru á ríkisstjórnarvettvangi í eina skiptið í lýðveldissögunni. Full aðild hefði útheimt beint veiðigjald í stað hins óbeina veiðigjalds, sem fólst í tollheimtu af innflutningi og meðfylgjandi hágengisstefnu, eins og Bjarni Bragi Jónsson benti á í umræðum um málið 1962. Aðild að Evrópusambandinu hefði samkvæmt eðli málsins gert okkur skylt að afnema innflutningsverndina, og þá hefði veiðigjald legið beint við til að tryggja viðunanlega sambúð sjávarútvegs við iðnað, verzlun og þjónustu. Af þessu varð þó ekki, heldur var hitt látið duga að ganga með semingi inn í EFTA 1970 (Framsóknarflokkurinn sat hjá í atkvæðagreiðslu um málið á alþingi), enda höfðu Danir, Norðmenn, Svíar og Finnar þá ekki heldur árætt að ganga alla leið inn í Evrópusambandið. Það er álitamál eftir á að hyggja, hvort efni séu til þess að áfellast viðreisnarstjórnina fyrir að búa Íslendinga ekki strax undir inngöngu í Evrópusambandið 1973 ásamt Bretum, Dönum og Írum frekar en að láta aðild að EFTA duga. Inngangan í EFTA var eigi að síður afar mikilvæg, því að án hennar hefðu utanríkisviðskiptin orðið mun daufari, og efnahagslíf landsins hefði þá setið fast í miklu óhagfelldari farvegum en raun varð á.
6 Fiskveiðilögsagan og kvótakerfið
Útfærsla fiskveiðilögsögunnar í 200 sjómílur 1976 markaði einnig mikilsverð tímamót. Hún skapaði þjóðinni einstök skilyrði til að auka til muna tekjur sínar af fiskimiðunum umhverfis landið og til að fénýta miðin á miklu hagkvæmari hátt en ella. Samt er skerfur sjávarútvegsins til þjóðarbúsins nú engu meiri hlutfallslega en hann var fyrir útfærsluna 1976, þrátt fyrir stórauknar úthafsveiðar undanfarin ár, og skuldir útvegsins hafa aldrei verið meiri en nú miðað við landsframleiðslu, þótt undarlegt megi virðast eftir allt, sem á undan er gengið. Þrátt fyrir þá miklu framför, sem felst í frjálsum viðskiptum með veiðiheimildir síðan 1990, eigum við enn eftir að gefa markaðsöflunum lausan taum í sjávarútvegi með því að taka upp veiðigjald í einhverri mynd og leyfa útvegsmönnum þannig að keppa á jafnræðisgrundvelli um veiðiréttinn á frjálsum og heilbrigðum markaði í stað þess óhagkvæma og rangláta úthlutunarkerfis, sem enn stendur, þótt allar líkur virðist nú benda til þess, að Hæstiréttur muni ryðja því endanlega úr vegi innan tíðar.
7 Menntabyltingin
Útgjöld ríkisins til menntamála hafa aukizt um 150% umfram landsframleiðslu síðan í stríðslok 1945. Mest var aukningin á 7. áratugnum, en síðan þá hafa menntamálaútgjöld ríkis og byggða aukizt aðeins lítillega umfram landsframleiðslu. Auknar fjárveitingar til menntamála eftir 1960 héldust í hendur við róttækar skipulagsbreytingar, svo að til að mynda rannsóknir og þróunarstarf efldust einnig til muna með tímanum. Þessi umskipti — ásamt tvöföldun ríkisútgjalda til almannatrygginga og velferðarmála (og einnig til landbúnaðarmála!) um svipað leyti — voru fjármögnuð með því að taka sjávarútveginn af beinu ríkisframfæri, enda voru ríkisútgjöld til útvegsmála skorin niður úr 43% af heildarútgjöldum ríkisins 1959 í 3% 1961.* Þessum breytingum fylgdi þó ekki sýnilegur áhugi, hvorki af hálfu almennings né yfirvalda, á að hlúa að einkaframtaki og markaðslausnum í menntamálum. Eigi að síður var með þessu átaki lagður grunnur að nýrri framsókn fræða og vísinda á Íslandi, sem ekki sér enn fyrir endann á. Þetta varðar verzlunarsöguna, því að meiri og betri menntun og rannsóknir eru ávísun á aukin viðskipti við umheiminn og öfugt.
8 Vaxtafrelsið og fjármálabyltingin
Verðbólguhrinan á 8. og 9. áratugnum varð til þess, að stjórnvöld sannfærðust loksins um nauðsyn þess að sleppa hendinni af vaxtaákvörðunum viðskiptabankanna. Vextir voru gefnir frjálsir 1986. Þetta varð til þess, að raunvextir og almenn verðtrygging komust á, svo að Íslendingar hafa átt þess kost æ síðan að ávaxta sparifé sitt með eðlilegum hætti. Með þessu var að miklu leyti tekið fyrir möguleika stjórnmálamanna á að hleypa verðbólgunni aftur upp með gamla laginu til að flytja fé frá sparifjáreigendum til vel séðra skuldara og ýmissa útvalinna óreiðumanna. Þá var um leið lagður grunnur undir erlend viðskipti með innlend verðbréf. Hagur af frjálsum viðskiptum er ekki bundinn við vörur og þjónustu, því að frjáls fjármagnsviðskipti geta einnig skilað drjúgri búbót, þótt þau geti einnig leitt til sveiflugangs á gjaldeyrismörkuðum, einkum í smáríkjum. Nokkru áður en vextirnir voru gefnir frjálsir, gerðist annað, sem átti eftir að gerbreyta landslaginu á fjármálamarkaði. Ný fjármálafyrirtæki, þar á meðal Fjárfestingarfélagið og Kaupþing, hófu göngu sína á fyrri hluta 9. áratugarins og miðluðu lánsfé til einstaklinga og fyrirtækja, sem áttu ekki aðgang að ríkisbönkum og sjóðum. Þessi uppreisn gegn ríkisbankakerfinu átti eflaust nokkurn þátt í því, að vaxtafrelsið fékkst. Nýju einkafjármálafyrirtækin riðu á vaðið með hverja nýjungina á eftir annarri, öðrum þræði í óþökk ríkisvaldsins og bankanna. Þau byggðu til dæmis upp öfluga hlutabréfasjóði og hafa haldið þessu frumkvæði æ síðan, enda þótt bankar og sparisjóðir hafi smám saman hafið svipaða starfsemi á eigin vegum. Þannig hefur fólkið í landinu öðlazt kost á beinni, virkri þátttöku í atvinnulífinu síðustu ár og þá um leið betri skilning á samhenginu milli góðrar afkomu fyrirtækja og góðra lífskjara um landið.
9 EES-samningurinn
Byltingin á fjármálamarkaði var síðan innsigluð með aðild Íslands að samningnum um Evrópskt efnahagssvæði með lögum frá alþingi 1993. Samkvæmt þeim samningi er Ísland nú skuldbundið til að virða leikreglur frjálsrar verzlunar, ekki aðeins með vörur og þjónustu, heldur einnig með fjármagn og vinnuafl, svo að til að mynda atvinnuréttindi Íslendinga erlendis eru nú miklu rýmri en áður. Það munaði þó ekki nema hársbreidd, að andstæðingum frjálsra viðskipta tækist að koma í veg fyrir aðild Íslands að EES-samningnum. Þessi samningur hefur þó nú þegar gert þjóðinni mikið gagn, ekki aðeins á efnahagssviðinu, heldur einnig til dæmis með því að dreifa dómsvaldinu að nokkru leyti út fyrir landsteinana og deila því með öðrum. Máttur frjálsra millilandaviðskipta er ekki bundinn við vörur, þjónustu, fólk og fé. Nei, við Íslendingar höfum nú þegar haft mikinn hag af því, að þeir, sem telja innlenda dómstóla hafa brotið á sér, geta nú leitað réttar síns fyrir Eftirlitsstofnun EFTA og EFTA-dómstólnum. Aðhaldið, sem í þessu felst, virðist víst til að bæta og efla dómskerfið hér heima, þegar fram í sækir.
10 Tölvubyltingin
Enn önnur bylgja hefur riðið yfir Ísland erlendis frá til mikillar blessunar fyrir land og lýð: tölvubyltingin. Stjórnvöld eiga svolítinn þátt í þessu, því að þau tóku þá ákvörðun á sínum tíma, að innflutningur á tölvum og tölvubúnaði skyldi vera tollfrjáls. Þetta hefur áreiðanlega átt sinn þátt í því, að tölvuvæðing íslenzkra heimila og fyrirtækja er alllangt yfir heimsmeðallagi og virðist nú þegar hafa skilað þjóðinni miklum hagsbótum. Fjarskipta- og farsímabyltingin er angi á sama meiði, þótt sjónvarp og símtöl séu sannarlega misjöfn að gæðum eins og önnur mannaverk. Við Íslendingar hefðum ekki síður en til að mynda Írar og Skotar átt að geta haslað okkur völl meðal helztu framleiðenda hugbúnaðar í heiminum, en það varð ekki og verður ekki, svo lengi sem iðnaður, verzlun og þjónusta, höfuðatvinnuvegir Íslendinga, eiga undir högg að sækja vegna landlægra og lífseigra ranghugmynda um ofurvægi sjávarútvegsins í þjóðarbúskapnum.
* * *
Þegar öllu er til haga haldið, höfum við Íslendingar ýmsar ástæður til að gleðjast yfir góðum árangri síðast liðin 60 ár. Sumt af þessu getum við með sanni þakkað okkur sjálfum, en ýmislegt af þessu er þó komið annars staðar að, svo sem eðlilegt er í svo örfámennu landi. Einmitt þess vegna ríður okkur svo mjög á því að efla viðskipti okkar við umheiminn sem allra mest og leita til þess allra færra leiða. Þá mun okkur farnast vel á nýrri öld, sem nú er á næsta leiti. Það var einmitt þetta, sem Jón Sigurðsson átti við, þegar hann sagði árið 1840: ,,Eftir því sem Danir vakna, eftir því fer hagur okkar versnandi, ef við vöknum ekki líka.“
____________________________________________________
* Þetta er ekki prentvilla. Sjá Hagskinnu, bls. 759. Sjá einnig Krítartöfluna, mynd 1.
Frjáls verslun, 1. tbl. 1999.